Yngri Garðabær

Sækja skjal

Lifandi og skemmtilegt mannlíf byggir á fjölbreyttri íbúasamsetningu. Þar er ungt fólk í lykilhlutverki. Garðabæjarlistinn vill stuðla að fjölbreyttari búsetukostum í bænum, ekki síst þeim sem henta ungu fólki. Garðabæjarlistinn leggur einnig áherslu á að efla ungmennastarf fólks á framhaldsskólaaldri, en Garðabær á að vera lifandi bær þar sem hugvit unga fólksins fær að blómstra samhliða almennri tómstunda- og íþróttaiðkun. Jafnrétti er okkar hjartans mál og okkur finnst mikilvægt að ungt fólk hafi tækifæri til að stunda nám eftir áhugasviði. Við viljum virkja lýðræðið í bænum, t.d. með því að efla ungmennaráð og efna til samstarfs við ungt fólk. Loks viljum við bæta almenningssamgöngur bæjarins.

Unga fólkið heim

Við munum leggja fram hugmyndir að leiðum til að auka framboð af fjölbreyttari búsetukostum en nú bjóðast, m.a. með því að styðja við uppbyggingu á leiguhúsnæði. Ungt fólk á ekki að þurfa að flytja úr bænum þótt það flytji úr foreldrahúsum.

Sköpunarmiðstöð ungs fólks

Við viljum koma upp aðstöðu sem ýtir undir tækifæri ungs fólks í Garðabæ til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Við viljum koma á fót öflugu ungmennahúsi, sköpunarmiðstöð þar sem ungt fólk getur fengið aðstöðu til nýsköpunar og listsköpunar í víðum skilningi.

Ungmennaráð

Við ætlum að efla ungmennaráð Garðabæjar til muna og virkja ungt fólk til athafna, en það er mikilvægur liður í að virkja lýðræðið í bænum. Við viljum einnig efna til hugmyndasamkeppni unga fólksins í samvinnu við grunn- og framhaldsskóla varðandi nærumhverfi og skapa þannig líflegri Garðabæ fyrir alla.

Jafnrétti

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á jafnrétti í sínum víðasta skilningi og mikilvægi þess nær ekki síst til ungs fólks. Við munum beita okkur sérstaklega fyrir jafnrétti hinsegin fólks með því að tryggja markvissa fræðslu í samstarfi við Samtökin ‘78. Við leggjum áherslu á jafnan rétt fatlaðra ungmenna til þátttöku í samfélaginu og að þau fái nám við hæfi alla skólagönguna.

Samstarf grunn- og framhaldsskóla

Við viljum að námsval í efstu bekkjum grunnskóla ýti undir fjölbreyttar námsleiðir á framhaldsskólastigi og styðji við ólík áhugasvið. Garðabæjarlistinn vill auka sveigjanleika í námi innan bæjarins og styðja betur við að hægt sé að sækja áfanga á framhaldsskólastigi í efstu bekkjum grunnskólans, meðal annars til að tryggja möguleika þeirra á að stunda nám eftir áhugasviði.

Bættar almenningssamgöngur

Það á að vera valkostur að búa í Garðabæ án þess að eiga bíl. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á bættar almenningssamgöngur og að umhverfisvænum ferðamátum sé gert hátt undir höfði.

 

Sækja skjal