Virkjum lýðræðið fyrir alla

Sækja skjal

Garðabæjarlistinn býður fram til sveitarstjórnarkosninga í Garðabæ. Eitt af markmiðum Garðabæjarlistans er að virkja lýðræðið og auka gagnsæi. Listinn er skipaður öflugu og áhugasömu fólk úr öllum áttum með sterka sýn á frelsi, lýðræði og ekki síst mennsku.Við ætlum að ná því fram með að taka þátt á hinu pólitíska sviði og bjóða fram valkost sem samanstendur af einstaklingum sem brennur fyrir að gera Garðabæ að enn betra samfélagi. Við lifum á 21. öld og viljum koma stjórnsýslunni og þjónustunni þangað.

Valdefling íbúa

Það á að vera markmið hverrar bæjarstjórnar að íbúar láti sig varða um málefni nærsamfélagsins sem þeir tilheyra. Valdefling íbúa á að vera leiðarljós þeirra sem hið pólitíska vald hafa. Með eflingu valds, sem þýðir að færa hið raunverulega vald meira yfir til íbúanna sjálfra má ná fram því besta sem völ er á hverju sinni fyrir samfélagið í heild. Á sama tíma er nauðsynlegt að stefna að fullu gagnsæi í ákvarðanatöku, framkvæmdum og öðrum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að bæjarbúar geti mótað sér upplýsta skoðun á málefnum og verkefnum.

Þátttaka íbúa

Garðabæjarlistinn óskar eftir og vill hvetja til þátttöku íbúa, aðkomu þeirra að litlum sem stórum málum sem varða okkur öll sem íbúa Garðabæjar. Það er ekkert málefni eða verkefni í sveitarfélagi sem ekki kallar á skoðanir ólíkra einstaklinga og mikilvægi sameiginlegrar niðurstöðu eftir samtal og þátttöku sem flestra. Þannig sköpum við rými og styðjum við enn frekari drifkraft, kraft sem kemur beint frá íbúunum.

Gagnsæi í stjórnsýslu

Garðabær á að sækja fram og vera leiðandi í lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem íbúalýðræðið er virkjað með fjölbreyttum leiðum gagngert til þess að ná til sem flestra. Íbúar eiga að hafa tök á að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Garðabær stendur fyrir valfrelsi íbúa sem er vel en um leið þarf að vera öflugt íbúalýðræði, þar sem gagnsæ stjórnsýsla er í fyrirrúmi með þjónustuhlutverkið í forgrunni. Rekstur sveitarfélags er ekkert annað en þjónusta við íbúa. Við viljum að Garðabær bjóði upp á framúrskarandi þjónustu fyrir alla.

Virkt lýðræði

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á virkt lýðræði á milli bæjarstjórnarkosninga þar sem fundir og ákvarðanir bæjarstjórnar eru aðgengilegar öllum en einnig með opnum íbúafundum, aðgengilegum tillöguvef og íbúakosningu um einstaka mál. Við viljum að sveitarfélagið sýni frumkvæði í upplýsingagjöf til íbúa og fjölmiðla.

Sækja skjal

Rekstur í þágu allra

Sækja skjal

Í Garðabæ er fjárhagstaðan góð, skuldahlutfallið er lágt og allar helstu lykiltölur í lagi. Tekjur hafa aukist á kjörtímabilinu sem skýrist að mestu af fjölgun íbúa umfram áætlanir og hækkun fasteignaverðs. Kostnaður hefur aukist í sama hlutfalli. Fjárhagsleg ábyrgð og ráðdeild hefur verið höfð að leiðarljósi og það mun Garðabæjarlistinn leggja mikla áherslu á.

Tækifæri til hagræðingar

Garðabæjarlistinn vill taka upp virka verkefnastjórnun í framkvæmdum og rekstri bæjarins til þess að tryggja enn betri nýtingu fjármuna og annarra verðmæta sveitarfélagsins. Með virkri verkefnastjórnun á vegum bæjarstjórnar má koma í veg fyrir töf við framkvæmdir, betri nýtingu og skilvirkari upplýsingagjöf. Með virkri verkefnastjórn tryggjum við að reynsla safnist upp í rekstri og uppbyggingu sveitarfélagsins og til þess að koma í veg fyrir að óhagkvæmni endurtaki sig. Með verkefnastýringu viljum við fylgjast með kostnaði, framkvæmdatíma og þjónustustigi sveitarfélagsins til þess að veita bæjarstjórn góð tæki til ákvarðanatöku og íbúum sveitarfélagsins góðar upplýsingar um stöðu mála til að veita bæjarstjórn aðhald.

Gagnsæi á milli lögbundinna og valkvæðra verkefna

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á gagnsæi í fjármálum Garðabæjar. Við leggjum m.a. áherslu á nýja nálgun í framsetningu á útgjöldum þannig að verkefni séu skilgreind annars vegar út frá þeim lögbundnu verkefnum sem tilheyra rekstri sveitarfélags og hins vegar út frá valkvæðum verkefnum. Valkvæð verkefni eru allt frá því að vera mjög nauðsynleg til þess að styðja við alla grunnþjónustu yfir í að vera sannkölluð gæluverkefni sem gaman gæti verið að framkvæma óháð nauðsyn þeirra. Stefnt skal að því að gera bókhald Garðabæjar öllum opið og að það verði uppfært eins reglulega og kostur er á.

Launastefna og jafnlaunavottun

Útgjöld Garðabæjar líkt og annarra sveitarfélaga eru að stórum hluta falin í launum og launatengdum gjöldum. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á jafnlaunavottun og um leið á að laun allra starfsmanna bæjarins taki almennt mið af markaðslaunum.

Ný nálgun

Með nýrri nálgun tryggjum við aukið gagnsæi í útgjöldum og ráðstöfun útsvars. Við búum til möguleika á að stilla útsvari í hóf út frá lögbundnum verkefnum og gagnsæi í útgjöldum tengdum öðrum verkefnum. Hægt væri að aðlaga útsvar að framkvæmdum hvers árs því ákvörðun þess er tekin í lok hvers árs við gerð fjárhagsáætlunar.Garðabæjarlistinn vill virkja lýðræðið á öllum sviðum og efla aðkomu íbúa að ákvarðanaferli um valkvæð verkefni og gera ferlið um leið gagnsærra. Íbúar koma í meira mæli að þátttöku í forgangsröðun verkefna.Garðabæjarlistinn vill að rekstur bæjarins sé í þágu allra íbúa þvert á flokkslínur.

Horft til framtíðar - frekari tekjumöguleikar

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að leita leiða til að auka tekjur frá lögaðilum sem hefja eða flytja starfsemi sína í bæjarfélagið. Til þess þarf að móta stefnu til framtíðar sem býður fyrirtæki velkomin í sveitarfélagið. Hraða þarf skipulagi fyrir húsnæði sem styður við þá þróun.

Sækja skjal

Menntun fyrir alla

Sækja skjal

Í Garðabæ eru reknir góðir leik- og grunnskólar þar sem boðið er upp á valfrelsi um skóla. Garðabæjarlistinn vill gera enn betur í menntamálum og tryggja að Garðabær bjóði raunverulega upp á menntun fyrir öll börn og ungmenni, fatlaða jafnt sem ófatlaða. Til þess að gera skólagöngu barna og ungmenna enn betri þarf að huga sérstaklega að velferð þar sem öllum er tryggð sú þjónusta sem þörf er á hvort heldur sem lýtur að andlegri líðan, námserfiðleikum eða öðrum þáttum. Auka þarf áherslu á jafnrétti og lýðræði í öllu skólastarfi með virkari þátttöku barna og ungmenna. Í Garðabæ er mikil reynsla og þekking af jafnrétti í skólastarfi sem má styrkja enn frekar svo fleiri njóti.

Stefnumótun um menntun án aðgreiningar er eitt af þeim verkefnum sem þarf að hefjast handa við að vinna.

Lærdómssamfélagið Garðabær

Gerum Garðabæ að framúrskarandi og leiðandi lærdómssamfélagi þar sem ýtt er með fjölbreyttum leiðum undir og stutt við starfsþróun og endurgjöf til kennara í leik- og grunnskólum. Starfsþróun er undirstaða lærdómssamfélags og á að vera aðalsmerki skólastarfsins. Þannig ýtum við undir vellíðan kennara í starfi sem leiðir til faglegra starfs og betri líðanar barna. Börnin verða þátttakendur í að nálgast nám með fjölbreyttum hætti þar sem frumkvæði og sköpun er í fyrirrúmi.

Skólasamfella frá 12 mánaða aldri

Leikskóli fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er mikið og brýnt mál fyrir allar fjölskyldur og ekki síður mikið jafnréttismál. Garðabær á að setja sér það markmið að bjóða upp á metnaðarfulla skólagöngu barna og ungmenna þar sem faglegt innra starf og velferð barna er ávallt haft að leiðarljósi. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fötluðum börnum og ungmennum sé tryggð menntun við hæfi frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla í heimabyggð. Garðabæjarlistinn vill samfellu á milli skólastiga með samvinnu á milli grunn- og framhaldsskóla.

Nýsköpun í námi og skapandi skólastarf

Áhersla á tækniþróun og nýsköpun þarf að haldast í hendur og styðja þarf við uppfærslu á kerfum og faglegan stuðning við þróunarstarf. Búnaði sem nemendum er færður þarf að fylgja faglegur stuðningur fyrir kennara til að tækin nýtist sem skyldi.Skapa þarf rými fyrir breytingar til framtíðar og rýna til gagns í skólaumhverfið í samvinnu við kennara, stjórnendur og foreldra.Námstími barna er langur og það er mikilvægt að endurskoða allan ramma sem settur er utan um viðveru barna í skóla og horfa til nútímalegri námsaðstöðu barna og ungmenna.Grunnskólinn verður að gera öllu námi jafnhátt undir höfði. Tengja þarf betur möguleikann á verk- og iðnnámi inn í grunnskólanám með sérstakri áherslu á aðkomu náms- og starfsráðgjafa um námsval, svo tryggja megi ungmennum áfram leiðir til að taka áfanga á framhaldsskólastigi samhliða efstu bekkjum grunnskólans.

Tónlistarskóli

Mikilvægt er að efla og styðja við tónlistarnám fyrir Garðbæinga. Garðabæjarlistinn styður við nýsköpun í kennslu og tengingu á milli tónlistarskóla, grunnskóla og leikskóla, þannig að nemendur geti stundað sitt tónlistarnám í samfellu með sínu námi. Einnig er mikilvægt að stuðla að jafnrétti til tónlistarnáms og að sem flestir Garðbæingar hafi möguleika á tónlistarnámi.

Frístundir, tómstundir og íþróttir

Garðabæjarlistinn vill sjá frekari uppbygging á öflugu og faglegu frístundastarfi eftir skóla fyrir öll börn og ungmenni til 18 ára aldurs. Til að styðja vellíðan allra þarf að vinna að fjölbreyttum valkostum í tómstundastarfi. Garðabæjarlistinn vill koma á sköpunarmiðstöð unga fólksins, með framúrskarandi aðstöðu fyrir list- og nýsköpun. Þannig má efla tengsl á milli grunn- og framhaldsskóla í formi samstarfs um þróunarverkefni sem tengjast nýsköpun ungs fólks.

Samfella og sameiginleg ábyrgð mennta- velferðar- og fjölskyldusviðs

Tryggja þarf gott og traust samstarf á milli mennta- velferðar- og fjölskyldusviðs. Móta þarf heildarstefnu þvert á sviðin með það að leiðarljósi að sameiginleg ábyrgð kerfisins leiði til þess að vandi sé greindur snemma, hvort heldur sem hann er félagslegur eða námslegur. Efla þarf enn frekar starfs- og námsráðgjöf sem og sálfræðiþjónustu við skólana til að styðja við betri líðan og velferð barna.Garðabæjarlistinn vill endurskoða úthlutunarreglur vegna sérkennslu, svo að það fjármagn nýtist sem best. Við viljum að fagfólki sé treyst betur til að meta þörfina fyrir stuðningsþjónustu og draga úr valdi greininga á stýringu fjármagns.

Starfsumhverfi og kjör kennara í forgang

Garðabær á að taka forystu í að bæta vinnuumhverfi og kjör kennara. Garðabær á að sýna þor til þess að taka málin áfram og vera þannig fyrirmynd annarra sveitarfélaga í að gera betur fyrir sitt starfsfólk, mannauðinn sem er grunnstoð gæða samfélags. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á minni miðstýringu og vill færa valdið aftur inn í skólana og til kennara þannig að sjálfstæði skóla styrkist enn frekar.

Fjórða iðnbyltingin og störfin sem aldrei hverfa

Í samfélagi sem sífellt vex og breytist með nýrri tækni og framþróun vísinda er mikilvægt að huga að grunnstoð hvers samfélags, en það eru störfin sem aldrei munu hverfa. Mikill mannauður sveitarfélaga felst í kennara- og umönnunarstéttum. Þessar stéttir vinna störf sem munu alltaf vera til staðar og að þeim þarf að hlúa sérstaklega til að þau megi eflast í þágu enn betri menntunar og velferðar allra bæjarbúa.

 

Umhverfi fyrir alla

Umhverfi fyrir alla

Í Garðabæ búa íbúar við einstakt tækifæri til að komast í snertingu við náttúruna og njóta  útivistar. Innan bæjarlandsins er einstök flóra jurta og dýralífs. Við þurfum að tryggja að allir íbúar búi við heilnæmt umhverfi og geti auðveldlega notið náttúru og útivistar. Til þess að sem flestir geti notið þessara gæða þurfa allar áætlanir og ákvarðanir að hafa hagsmuni og velferð íbúa að leiðarljósi. Jafnframt verður að tryggja að ekki sé gengið á möguleika komandi kynslóða til að njóta náttúru og umhverfisgæða. Því skal stuðlað að vernd og viðhaldi náttúru- og menningarminja.

Útivistarbærinn

Við viljum að íbúum verði auðveldað að temja sér umhverfisvænan og heilbrigðan lífsstíl. Tryggja þarf að allir geti notið grænna svæða í og við bæinn. Græn svæði bæjarins þarf að hirða vel og lýsa þau upp til að tryggja vellíðan og öryggi. Garðabæjarlistinn vill að útbúin verði hundasvæði á nokkrum stöðum í bænum. Við viljum gera grænu svæðin aðgengileg til dæmis fyrir útikennslu og hreyfingu. Garðabæjarlistinn vill fjölga svæðum til hvers kyns grænmetisræktunar inni í hverfum. Við viljum byggja upp útilífsmiðstöð í upplandinu (útivistarsvæði í nágrenni bæjarins) með salernum og bættu aðgengi fyrir bæjarbúa.

Heilnæmt umhverfi

Samspil byggðar og náttúru hefur áhrif á líðan og heilsu bæjarbúa. Við verðum að vanda skipulag og umhirðu mikilvægra svæða eins og strandlengjunnar og Heiðmerkur. Við viljum að Garðabær og stofnanir bæjarins verði í fararbroddi við að minnka sóun og taki upp starfshætti sem hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Það er m.a. gert með innkaupastefnu sem miðar að góðri nýtingu hráefna, með því að sniðganga efni sem hafa skaðleg áhrif á umhverfið, s.s. plastpoka, notkun á umhverfisvænum samgöngum og með flokkun og endurvinnslu. Bæjarbúar og fyrirtæki í bænum verða hvött til umhverfisverndar og gert það auðveldara, m.a. með snyrtilegum og aðgengilegum gámasvæðum.

Vistvænar samgöngur

Við viljum að Garðabær stuðli að umhverfisvænum samgöngumáta m.a. með því að farartæki í eigu bæjarins verði knúin umhverfisvænum orkugjöfum og með eflingu almenningssamgangna. Garðabæjarlistinn vill að gerður verði samgöngusamningur fyrir þá starfsmenn Garðabæjar sem vilja nota almenningssamgöngur eða aðrar umhverfisvænar samgöngur. Við viljum að Garðabær styðji við notkun rafmagnsbíla og komi upp hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla við helstu stofnanir bæjarins.

Lýðheilsa og velferð fyrir alla

Sækja skjal

Lýðheilsa og velferð er mikilvægur þáttur í lífsgæðum hvers einstaklings. Garðabæjarlistinn ætlar að sækja fram í lýðheilsu- og velferðarmálum og leggur áherslu á að Garðabær verði leiðandi í að stuðla að því að allir íbúar búi við góða heilsu.

Forvarnir eru ekki síður undirstaða velferðar og því er afar farsælt að samþætta lýðheilsu og forvarnir. Lýðheilsa byggir á að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Samþætting þessara þátta gerir það að verkum að hægt er að byggja upp öflugt heilsueflandi samfélag og þar vill Garðabæjarlistinn leggja sitt af mörkum í þágu allra íbúa.

Velferðarþjónustan

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að velferðarþjónusta bæjarins verði framúrskarandi og til eftirbreytni. Við viljum að Garðabær móti sér öfluga velferðarstefnu þar sem tekið er utan um alla einstaklinga sem á þjónustunni þurfa að halda. Taka þarf betur utan um þörfina fyrir  umönnunarþjónustu sem og framboð á félagslegu húsnæði. Við viljum að Garðabær horfi til framtíðar og sé viðbúinn því að meðal íbúa er alls konar fólk með fjölbreyttar og afar ólíkar þarfir þegar kemur að velferðarþjónustu sem þarf að mæta með faglegum hætti.

Við viljum sjá stjórnsýsluna taka frumkvæði í allri þjónustu þar sem lögð er áhersla á upplýsingagjöf um þá þjónustu sem í boði er sem og réttindi hvers og eins til að sækja þá velferðarþjónustu sem sveitarfélaginu er skylt að veita.

Virkar forvarnir allt árið um kring

Mikilvægi forvarnarstarfs er gríðarlegt og leggur Garðabæjarlistinn áherslu á virkar og öflugar forvarnir allt árið um kring þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt forvarnarstarf, t.d. vegna fíknivanda hvers konar, netnotkunar, veðmála, eineltis, ofbeldis, áreitni, hefndarkláms og andlegrar líðanar. Við viljum að staðið sé fyrir jafnréttisfræðslu í sinni fjölbreyttustu mynd þar sem tekið er á klámvæðingu, jafnrétti kynja, hinsegin fræðslu og rétti hvers einstaklings á tilvist sinni hver sem hann er. Garðabæjarlistinn leggur auk þess sérstaka áherslu á forvarnir fyrir eldri borgara sem taka til andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Jafnrétti er mikilvæg forsenda þess að einstaklingurinn njóti sín í nærsamfélagi sínu. Við munum beita okkur sérstaklega fyrir jafnrétti hinsegin fólks sem og fyrir jöfnum rétti fatlaðra til þátttöku í samfélaginu.

Mikilvægar áherslur til að styðja við lýðheilsu og velferð

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á heilsueflandi aðgerðir sem koma til móts við alla í samfélaginu. Dæmi um slíkar aðgerðir eru systkinaafsláttur í íþróttum, fjölskyldukort til íþróttaiðkunar og bætt aðgengi að skipulögðum útivistarsvæðum með sérstöku tilliti til líkamsræktunar og markvissrar heilsueflingar eldri borgara. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á mikilvægi hvatapeninga fyrir ungmenni að 18 ára aldri og eldri borgara til að styðja enn frekar við hvers konar heilsueflandi iðkun. Við viljum bjóða upp á nýtingu íþróttamannvirka á þeim tímum sem ekki fara fram skipulagðar æfingar. Við viljum að bæjaryfirvöld leggi sig fram við að stuðla að góðri andlegri og líkamlegri heilsu allra íbúa, en í því felast ómetanleg lífsgæði.  Það er okkur mikilvægt að unnið sé að því að auka jöfnuð sem stuðlar að vellíðan allra íbúa bæjarins. Garðabær hefur alla burði til þess að vera fyrirmyndarbær þegar kemur að lýðheilsumálum og velferð en til þess þarf að huga að þessum málaflokki þvert á þær nefndir sem starfa nú innan stjórnsýslunnar.

Stytting vinnuvikunnar

Við viljum kanna þann möguleika að stytta vinnuviku starfsmanna Garðabæjar til þess að lækka rekstrarkostnað og auka starfsánægju. Með því viljum við auka lífsgæði og lýðheilsu með auknum samverustundum fjölskyldunnar, auknu starfsþreki og þar með fyrirbyggja kulnun í starfi. Við viljum taka þátt í og byggja á þeirri vinnu sem Reykjavíkurborg, Hjallastefnan og aðrir hafa tekið upp og hefur gengið vel.

Skipulag fyrir alla

Sækja skjal

Í Garðabæ líkt og í öðrum sveitarfélögum hafa samgöngu og skipulagsmál mikil áhrif á daglegt líf íbúa. Samgöngur í og úr íbúahverfum til skóla og vinnu hafa áhrif á val fólks um búsetu. Aðgengi barna og ungmenna að samgöngum er stórt hagsmunamál sem Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að unnið verði með þeim hætti að auka lífsgæði fjölskyldna. Við viljum styðja við umhverfisvænni lífsstíl og gera börnum og ungmennum kleift að ferðast með öruggum hætti.

Fjölbreytt íbúabyggð er okkar húsnæðisstefna

Fjölbreytt íbúabyggð er ein forsenda grósku og líflegs bæjarbrags. Fjölbreytt val um húsnæði skiptir máli og taka þarf sérstakt tillit til ungra fjölskyldna við uppbyggingu hverfa.

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á fjölbreytt framboð á húsnæði til eigu eða leigu í öllum stærðum og gerðum. Þetta viljum við gera með því að stýra framboði lóða og ná samstarfi við leigufélög og verktaka.

Samgöngur

Garðabæjarlistinn vill að Hafnarfjarðarvegur fari í stokk.

Við viljum bæta stígakerfið, gera sérstaka hjólreiðastíga sem eru aðskildir frá öðrum stígum og tryggja að þessir stígar séu færir allt árið. Hringtengingu þarf að koma á hjólastíga utan um Garðabæ og betri tengingu við önnur sveitarfélög. Mikilvægt er að leita álits hagsmunaaðila s.s. Landssamtaka hjólreiðamanna við slíkar framkvæmdir.

Auðvelda þarf bæjarbúum að nýta sér almenningssamgöngur sem ferðamáta bæði innan bæjar sem og milli sveitarfélaga. Til að stuðla að notkun almenningssamgangna viljum við að samgöngur innanbæjar verði gjaldfrjálsar fyrir börn og ungmenni til 18 ára aldurs og eldri borgara. Sérstaklega verði hugað að samgöngum barna í tómstundir í samstarfi tómstundavagns og strætó þannig að samgöngur í og úr tómstundum nýtist öllum börnum í öllum hverfum. Mikilvægt er að tryggja öryggi allra vegfarenda óháð samgöngumáta.

Þétting byggðar

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að hækkað verði nýtingarhlutfall þeirra svæða sem eftir eru innan bæjarmarkanna. Mikilvægt er að vinna allt skipulag í samvinnu við fagaðila til að mæta heildarsýn svæðiskipulags höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægt er að taka tillit til ábendinga Skipulagsstofnunar við gerð aðalskipulags.

Öryggi

Öryggi barna á leið til og frá skóla eða tómstundum skal vera í forgangi við alla ákvarðanatöku vega- og skipulagsframkvæmda. Bæjarbúum skal kynna ítarlega allar tillögur og halda skal fundi með íbúum þar sem hægt er að koma fram athugasemdum og taka þátt í umræðunni. Ekki verðar teknar bindandi ákvarðanir án aðkomu þeirra sem málið varða. Umdeildar ákvarðanir varðandi skipulagsmál skal setja í íbúakosningu.

Blómlegur bær, nærsamfélag fyrir alla

Garðabæjarlistinn vill að íbúahverfi byggist upp með það að leiðarljósi að auðvelt sé að sækja alla nærþjónustu með almenningssamgöngum. Við viljum að nærumhverfið sé aðlaðandi og staður sem eftirsóknarvert er að sækja. Kaffihús og söfn bæjarins sem og bókasafn séu auðsótt og skapi þannig lifandi og litríkan bæ.

 

Yngri Garðabær

Sækja skjal

Lifandi og skemmtilegt mannlíf byggir á fjölbreyttri íbúasamsetningu. Þar er ungt fólk í lykilhlutverki. Garðabæjarlistinn vill stuðla að fjölbreyttari búsetukostum í bænum, ekki síst þeim sem henta ungu fólki. Garðabæjarlistinn leggur einnig áherslu á að efla ungmennastarf fólks á framhaldsskólaaldri, en Garðabær á að vera lifandi bær þar sem hugvit unga fólksins fær að blómstra samhliða almennri tómstunda- og íþróttaiðkun. Jafnrétti er okkar hjartans mál og okkur finnst mikilvægt að ungt fólk hafi tækifæri til að stunda nám eftir áhugasviði. Við viljum virkja lýðræðið í bænum, t.d. með því að efla ungmennaráð og efna til samstarfs við ungt fólk. Loks viljum við bæta almenningssamgöngur bæjarins.

Unga fólkið heim

Við munum leggja fram hugmyndir að leiðum til að auka framboð af fjölbreyttari búsetukostum en nú bjóðast, m.a. með því að styðja við uppbyggingu á leiguhúsnæði. Ungt fólk á ekki að þurfa að flytja úr bænum þótt það flytji úr foreldrahúsum.

Sköpunarmiðstöð ungs fólks

Við viljum koma upp aðstöðu sem ýtir undir tækifæri ungs fólks í Garðabæ til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Við viljum koma á fót öflugu ungmennahúsi, sköpunarmiðstöð þar sem ungt fólk getur fengið aðstöðu til nýsköpunar og listsköpunar í víðum skilningi.

Ungmennaráð

Við ætlum að efla ungmennaráð Garðabæjar til muna og virkja ungt fólk til athafna, en það er mikilvægur liður í að virkja lýðræðið í bænum. Við viljum einnig efna til hugmyndasamkeppni unga fólksins í samvinnu við grunn- og framhaldsskóla varðandi nærumhverfi og skapa þannig líflegri Garðabæ fyrir alla.

Jafnrétti

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á jafnrétti í sínum víðasta skilningi og mikilvægi þess nær ekki síst til ungs fólks. Við munum beita okkur sérstaklega fyrir jafnrétti hinsegin fólks með því að tryggja markvissa fræðslu í samstarfi við Samtökin ‘78. Við leggjum áherslu á jafnan rétt fatlaðra ungmenna til þátttöku í samfélaginu og að þau fái nám við hæfi alla skólagönguna.

Samstarf grunn- og framhaldsskóla

Við viljum að námsval í efstu bekkjum grunnskóla ýti undir fjölbreyttar námsleiðir á framhaldsskólastigi og styðji við ólík áhugasvið. Garðabæjarlistinn vill auka sveigjanleika í námi innan bæjarins og styðja betur við að hægt sé að sækja áfanga á framhaldsskólastigi í efstu bekkjum grunnskólans, meðal annars til að tryggja möguleika þeirra á að stunda nám eftir áhugasviði.

Bættar almenningssamgöngur

Það á að vera valkostur að búa í Garðabæ án þess að eiga bíl. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á bættar almenningssamgöngur og að umhverfisvænum ferðamátum sé gert hátt undir höfði.

 

Sækja skjal