Samfélagsleg ábyrgð og þátttaka íbúa

Kæru Garðbæingar!

Garðabæ hefur borist beiðni um móttöku hinsegin flóttafólks. Um er að ræða 10 einstaklinga sem eru í lífshættu vegna kynhneigðar sinnar í heimalandi sínu.

Við í Garðabæjarlistanum höfum lýst yfir stuðningi við þetta verkefni og vonumst til þess að leitað verði alla leiða til þess að verða megi við þessari mikilvægu beiðni.

Fyrir Garðabæ yrði það mikill styrkur fyrir samfélagið að bjóða slíkan hóp velkominn í samfélagið með öllu sem því fylgir. Vitað er að flóttafólk þarfnast stuðnings af ýmsum toga og ólíkum eftir einstaklingum. Þann stuðning getur Garðabær svo sannarlega veitt enda öflugt samfélag með styrkar stoðir við alla grunnþjónustu.

En það er ekki bara það. Því það skiptir líka gríðarlega miklu máli að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og hér er svo sannarlega verðugt verkefni til að gera slíkt.

En er einhver fyrirstaða? Er slík móttaka ekki sjálfsagt mál og einfalt að leysa?

Fyrirvarinn er vissulega stuttur. En gert er ráð fyrir að móttaka geti átt sér stað innan þriggja mánaða. Því þarf að hafa hraðar hendur um leið og vanda þarf til verka og tryggja að allt gangi upp því að mörgu er að hyggja. Reynsla annarra sveitarfélaga er þó eitthvað sem leita má í og nágrannasveitarfélög öll að vilja gerð til þess að styðja og upplýsa.

Stóra hindrunin fyrir því að geta boðið þennan hóp velkominn er hins vegar skortur á húsnæði. Garðabær býr ekki svo vel að eiga mikið af íbúðarhúsnæði og því er ljóst að leita þarf m.a. annarra leiða til að leysa þann þátt.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi kom fram að verið væri að skoða allar leiðir og fagna ég því mjög. Ég trúi því að íbúar taki höndum saman og leysi þetta ótrúlega mikilvæga verkefni í þágu mannúðar.

Ein hugmynd er að halda íbúafund, kynna verkefnið og fá íbúa í lið með bæjaryfirvöldum til þess að megi verða við þessari beiðni. Það væri einfaldlega frábært og í mínum huga afar mikilvægt því  þannig yrði móttaka þessar 10 einstaklinega sameiginlegt verkefni okkar allra. Því það skiptir ekki síður máli að einhugur sé um slíka þátttöku og því mikilvægt að samfélagið allt sé meðvitað um verkefnið og sé upplýst um hvað það þýðir fyrir samfélag að taka þátt í slíku.

En fyrst og fremst trúi ég því að Garðbæingar yrðu stoltir af því að geta tekið þátt í samfélagslegri ábyrgð og mannúð með svo áþreifanlegum hætti og hvet íbúa til þess að láta sig málið varða.


sara.JPG