Tillaga um umhverfisvænni bifreiðar samþykkt

Ingvar Arnarson lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 17.janúar sl.

Tillaga Garðabæjarlistans um að Garðabær taki í notkun umhverfisvænni bifreiðar.

Flutningsmaður: Ingvar Arnarson

Bæjarstjórn Garðabæjar leggur til að bifreiðum í eigu bæjarins sem brenna jarðefnaeldsneyti verði í áföngum skipt út fyrir bifreiðar sem teljast umhverfisvænni. Á árinu 2019 verði 2-4 bifreiðum í eigu Garðabæjar skipt út fyrir umhverfisvænni og í framhaldinu gerð áætlun um hvernig best sé að skipta út öllum bifreiðum í eigu bæjarins.

Greinagerð

Það er eitt af markmiðum umhverfisstefnu Garðabæjar að Garðabær verði vistvænt bæjarfélag og umhverfið heilnæmt og aðlaðandi. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru í umhverfisstefnu Garðabæjar til að ná því markmiði er að stuðla að notkun minna mengandi farartækja og vistvænna orkugjafa. Með því að skipta út bifreiðum sem brenna jarðefnaeldsneyti er Garðabær að sýna vilja í verki og fara fyrir með góðu fordæmi.

Tillögunni var vísað til Bæjarráðs og þaðan til Umhverfisnefndar sem samþykkti hana á fundi nefndarinnar 12.febrúar.

ingvar_.JPG