Tillaga Garðabæjarlistans um aukna upplýsingatækni í grunnskólum bæjarins.

Tillaga lögð fram á bæjarstjórnarfundi 21.2.2019

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að unnið verði með markvissum hætti að því að efla enn frekar alla kennslu í upplýsingatækni með sérstaka áherslu á almenna tölvufærni og forritun. Garðabæjarlistinn leggur til að rýnt verði í miðlægar kennsluáætlanir grunnskólanna í upplýsingatækni af sérfræðingum og kennsluráðgjöfum bæjarins á sviði upplýsingatækni með það að markmiði að byggja ofan á og skapa frekari samfellu í þeim þáttum er varðar almenna tölvufærni og forritun frá yngsta stigi til loka grunnskólans.

Greinargerð

Garðabær hefur allt sem þarf til þess að geta skarað fram úr í faglegri kennslu þegar kemur að upplýsingatækni og forritun. Hraðar tæknibreytingar kalla sérstaklega á meiri þekkingu og færni komandi kynslóðar. Því skiptir máli að skólakerfið byggi upp þessa færniþætti með markvissum hætti. Grunnskólar

Garðabæjar búa nú þegar að ákveðnum grunni sem mikilvægt er að varðveita og halda áfram að styðja við til að efla kennara enn frekar til faglegri og meiri kunnáttu á sviði upplýsingatækni.

Miðlæg kennsluáætlun þar sem ákveðin upplýsingatækni er römmuð inn á árganga hefur þegar verið gerð og er góður grunnur til þess að gera enn betur og mæta þannig kröfunni sem m.a. framhaldsskólarnir kalla eftir og atvinnulífið sömuleiðis. Að við tryggjum þann grunn í grunnskóla þannig að framhaldsskólarnir geti af öryggi byggt ofan á og þannig skapað rými til enn frekari þekkingar og færni einstaklinga til að takast á við dagleg störf í miðri stafrænu byltingunni.

Tillögunni var vísað áfram til Bæjarráðs.

glogo.PNG