Leikskólagjöld

Ákvörðun leikskólagjalda

Um áramótin voru leikskólagjöld hækkuð í Garðabæ þannig að núna eru þau orðin hæst á öllu landinu. Munurinn er 146 þúsund krónur á ári þegar við berum saman gjaldskrá Garðabæjar við þá lægstu. Upphaflegar hugmyndir núverandi meirihluta var skarpari hækkun en Garðabæjarlistinn lagði til óbreytta verðskrá á milli ára.

Við teljum þessa hækkun andstæða bókun bæjarstjóra við samþykkt fjárhagsáætlunar 2019 þann 6. desember 2018, sem segir að áætlunin beri vott um ábyrga fjármálastjórn þar sem íbúum er áfram boðin góð þjónusta og lækkun álagna. Við viljum ábyrga fjármálastjórn bæjarsjóðs, en hækkun leikskólagjalda ásamt öðrum gjaldskrárhækkunum í landinu er ekki í anda þeirrar lækkunar álagna sem bæjarstjóri vísaði til heldur leggur hún auknar álögur á fjölskyldufólk umfram aðra notendur þjónustu Garðabæjar.

Rök meirihlutans fyrir háum leikskólagjöldum hafa verið að þjónusta leikskólanna í Garðabæ sé mun meiri en leikskóla í öðrum sveitarfélögum. Í því samhengi hefur aðallega verið bent á að yngri börn, allt frá 12 mánaða aldri, eru tekin í leikskólana, sumaropnanir eru í boði á öllum leikskólum og að gæði kennslu séu betri, til dæmis með snemmtækri íhlutun. Við fögnum þessari auknu þjónustu og viljum halda áfram að þróa starf leikskólanna, en gjaldskrá leikskóla verður að taka mið af því að leikskólar í dag eru hluti af stærra samhengi. Þeir undirbúa börnin okkar fyrir 10 ára grunnskólanám, tryggja jöfn tækifæri foreldra til þátttöku á vinnumarkaði og skapa samfélag barna og foreldra í sveitarfélaginu. Þannig viðhöldum við og tryggjum áfram gott samfélag í Garðabæ þar sem mikilvægustu íbúarnir okkar, börnin, fá jafnan aðgang að grunnþjónustu sveitarfélagsins.

Fáum tölurnar

Garðabæjarlistinn hefur kallað eftir því að fá sundurliðun á því hvað það kostar raunverulega að taka börn inn við 12 mánaða aldur, að sinna aukinni þjónustu líkt og snemmtækri íhlutun og hvað það kostar að bjóða upp á sumaropnun leikskóla.

Leikskólinn sem hluti af skólagöngu allra barna

Garðabæjarlistinn lítur á kennslu í leikskóla sem undirbúning fyrir grunnskólann og mikilvægt að við meðhöndlum starf leikskólanna á þann hátt að börnin séu sem best búin fyrir grunnskólana. Þannig miðar allt starf leikskóla við að auka færni og félagslegan þroska, en starf stjórnmálamanna er að sjá heildarmyndina, horfa til samfélagsins sem heildar og viðurkenna að leikskólinn er ein af grunnstoðum fjölskyldna í sveitarfélaginu.

Guðlaugur Kristmundsson og Valborg Warén

Fulltrúar Garðabæjarlistans í Leikskólanefnd Garðabæjar


IMG_3937.jpg