Bæjarstjórnarfundur 6.september 2018

Tillögur Garðabæjarlistans.

Þriðji bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 6.september og hann sátu Sara, Ingvar og Harpa.

Sara Dögg lagði fram tvær tillögur, sú fyrri snéri að víðtækara samráði og samvinnu milli meirihluta og minnihluta. Sú seinni var tillaga um að meirihlutinn myndi leggja fram áætlun um forrangsröðun stefnumála.

1. Tillaga Garðabæjarlistans um víðtækara samráð og samvinnu. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um aukið samráð og samvinnu meiri- og minnihluta í allri vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins. Þannig að fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn sitji alla vinnufundi allt frá upphafi ferlisins til loka þar með talið fundi með sviðsstjórum.

Greinargerð

Víðtækt samráð og samvinna eru þættir sem kallað er eftir í samfélaginu öllu. Að unnið sé að því markvisst að fá fram ólík sjónarhorn og áherslur í vinnu sem við kemur öllum íbúum telur Garðabæjarlistinn afar góða skýrskotun í slíkt ákall. En ekki síður að slík vinnubrögð séu afar farsæl leið til að skapa víðtækan samhljóm frá áætlunargerð kjörinna fulltrúa til stjórnsýslunnar þ.e. til þeirra sem leiða pólitískar áherslur til framkvæmda. Með því að hafa alla kjörna fulltrúa við borðið frá upphafi við vinnu eins og fjárhagsáætlunargerð sem snertir okkur öll þegar til framkvæmda kemur er frábært tækifæri til ennþá lýðræðislegri vinnubragða sem um leið ýtir enn frekar undir víðtæka sátt um þær áherslur sem liggja fyrir. Við erum öll kosin til þess að leiða Garðabæ áfram veginn. Slíkt skiptir máli þegar ráðstafa á fjármunum úr sameiginlegum sjóðum. Því hvetur Garðabæjarlistinn til þessarar nýbreytni í vinnulagi bæjarstjórnar í Garðabæ. Nútímalegri vinnubrögð þar sem ýtt er undir enn frekari sátt og forsendur til öflugs starfs í þágu allra íbúa í alvöru samvinnu allra kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn.

2. Tillaga Garðabæjarlistans um framsetningu forgangsröðunar stefnumála meirihlutans. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að meirihlutinn leggi fram áætlun um forgangsröðun stefnumála sinna fyrir hvert starfsár kjörtímabilsins.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á frekari samvinnu í bæjarstjórn. Einn liður í því er að leggja til að meirihlutinn leggi fram áætlun um forgangsröðun stefnumála sinna fyrir hvert starfsár kjörtímabilsins. Þannig má efla og treysta samstarf allra kjörinna fulltrúa en ekki síður gefa minnihluta meira svigrúm til þess að koma að þeim verkefnum sem fyrirhuguð eru og um leið nýta þá þekkingu og sýn sem fylgir því að fá fleiri að málum hverju sinni.  

Tillögum okkar var vísað í bæjarráð með þeim orðum að nú þegar væri víðtækt samráð allra og þar fyrir utan að lýðræði snérist ekki um hvernig bæjarstjórn ein og sér hagaði störfum sínum. Heldur einmitt að íbúar hefðu tækifæri til að hafa skoðun og leggja inn athugasemdir.

Hér sjáum við hvernig víðtækt samráð meirihlutans birtist.

mynd.jpg

Aðkoma minnihlutans er á seinni stigum þ.e. þegar búið er að teikna upp stóru myndina og meira og minna ákveða hvernig verði forgangsraðað. Lýðræðislega nálgunin er að minnihlutinn fær tækifæri til að koma með athugasemdir á seinni stigum sem er meira í líkingu við átakapólitík en nokkru sinni samráðspólitík.

Fulltrúar Garðabæjarlistans munu fylgja þessu eftir í bæjarráði.