Bæjarstjórnarfundur 20.9.2018

Fjórði bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 20.september og hann sátu Sara, Ingvar og Valborg.

Fulltrúar Garðabæjarlistans ítrekuðu beiðni listans um að minnihlutinn fái að koma að gerð fjárhagsáætlunar fyrr en vaninn er. Meirihlutinn hefur ólíka sýn á þörfinni fyrir því en Garðabæjarlistinn lagði fram eftirfarandi bókun:

Vegna vinnu við forsendur fjárhagsáætlunargerðar.

“Garðabæjarlistinn hafnar alfarið þeim vinnubrögðum meirihlutans sem viðhöfð eru við vinnu á forsendum fyrir fjárhagsáætlunar og þeim rökum um að lýðræðisegum vinnubrögðum se fullnægt með fyrrgreindu ferli og ítrekar ósk minnihlutans um aðkomu allra bæjarfulltrúa að þeirri vinnu þ.e. að allir fulltrúar bæjarstjórnar sameinist um þær forsendur sem lagðar eru fram við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni.”

Fulltrúar Garðabæjarlistans lögðu fram 3 tillögur til fjárhagsáætlunar árið 2019. Tillaga um gjaldfrjálsan tómstundabíl og tillaga um stofnun Sköpunarmiðstöðvar voru samþykktar samhljóða og vísað til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Meirihlutinn er á því að frístundabíll eigi ekki að vera gjaldfrjáls um sé að ræða mikla þjónustu og umsvifamikila þar sem sífellt er verið að auka við þá þjónustu með því að bæta inn akstursleiðum. Tillögu var vísað inn í bæjarráð sömuleiðis var tillögu um menningarhús vísað áfram í bæjarráð til umfjöllunar og vilja til að tengja hana við þá vinnu sem þegar er verið að vinna um menningarhús. Þriðja tillagan var um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar. Sú tillaga var því miður felld með 8 atkvæðum gegn þremur.Tillögunni var hafnað með rökum um aukinn kostnað, vanköntum á slíku fyrirkomulagi sem er talinn liggja í minni sveigjanleika fyrir starfsfólk og ekki síst vegna þess að ennþá séu engin gögn því til staðfestingar að þau tilraunarverkefni sem hafa verið sett af stað séu að gefa öllum hlutaðilum góða niðurstöðu.  Það eru okkur mikil vonbrigði að Meirihlutinn hafi ekki viljað taka þessa tillögu lengra enda teljum við að stytting vinnuvikunnar ýti undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögur Garðabæjarlistans.

Tillögur Garðabæjarlistans

Tillaga Garðabæjarlistans til fjárhagsáætlunar 2019 um gjaldfrjálsan tómstundabíl. Flutningsmaður: Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu til fjárhagsáætlunar þess efnis að Garðabær bjóði upp á gjaldfrjálsan tómstundaakstur fyrir börn.

Greinargerð

Miklilvægt er að tryggja öllum börnum í Garðabæ jafna aðgang að tómstundum sem eru í boði í bænum. Með því að hafa tómstundaakstur gjaldfrjálsan gefst börnum tækifæri á að sækja sem flestar tómstundir. Mikilvægt er í nútímasamfélagi að jafna aðgang fyrir börn að tómstundum og fækka ferðum foreldra á einkabílum eins g kostur er. Garðabæjarlistinn telur að með þessum hætti sé hægt að koma til móts við þarfir fjölskyldna í Garðabæ.

Tillaga Garðabæjarlistans um stofnun Sköpunarmiðstöðvar (Menningarhús)

Flutningsmaður: Valborg Ösp Árnadóttir Warén

Garðabæjarlistinn leggur til að komið verði á fót Sköpunarmiðstöð eða Menningarhúsi. Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni svo að hægt verði að hefja undirbúning fyrir byggingu húsnæðis undir starfsemina og á meðan verði fundin viðunandi aðstaða hið fyrsta.

Garðabær á að vera lifandi bær þar sem hugvit fær að blómstra og því er nauðsynlegt að viðunandi aðstaða sé í bænum þar sem  ungt fólk sem og aðrir geti nýtt sér til að sinna ný – og listsköpun.

Garðabæjarlistinn leggur til að Íþrótta-og tómstundaráð, ásamt menningarnefnd móti hugmyndir að sköpunarmiðstöðinni og njóti til þess fulltingis Ungmennaráðs Garðabæjar.

Greinagerð.

Fjölbreyttir valkostir í tómstundastarfi ýta undir vellíðan. Til þess að sem flestir finni áhugamál við sitt hæfi er nauðsynlegt að koma á fót miðstöð eða aðstöðu fyrir list og nýsköpun hér í bæjarfélaginu.

Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

 Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn samþykki að stefna að því að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins.

Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni til þess að setja af stað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að ná fram því markmiði að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins úr 40 klst vinnuviku niður í 35 klst vinnuviku eða 1 klst á hvern virkan vinnudag.

Garðabæjarlistinn leggur til að forgangsraðað verði með þeim hætti að fyrst verði horft til starfsfólks á leikskólum bæjarins þar sem farið verði í samvinnu við stjórnendur að rýna í slíkt fyrirkomulag er varðar skipulag slíkrar aðgerðar.

 Greinargerð

Starfsumhverfi leikskóla er einn af þeim vinnustöðum þar sem áreitið er mikið og álag mikið á starfsfólki. Vinnumhverfið er þess eðlis að starfsfólk er mjög bundið við það mikilvæga verkefni að sinna börnum sem liggur í hlutarins eðli að gefur lítið sem ekkert svigrúm til þess að taka hlé frá störfum í amstri dagsins líkt og við getum ímyndað okkur að starfsfólk til að mynda sem vinnur við skrifstofustorf hefur tækifæri til.

Við viljum öll búa sem allra best að börnum á leikskólaaldri og í því felst að starfsumhverfið sé aðlaðandi og eftirsóknarvert. Stytting vinnuvikunnar hefur sýnt sig á fleiri en einum stað að kalli fram meiri starfsánægju en ekki síður virðist slík aðgerð skapa stöðugleika í viðveru sem skapar um leið festu og og öryggi fyrir börn og minni kostnað við afleysingar.

Að ýta undir betri aðbúnað kvennastétta er eitt af því sem Garðabæjarlistinn leggur ríka áherslu á í stefnu sinni samhliða áherslum þess efnis að leiðrétta kjör kvennastétta. Stytting vinnuvikunnar ýtir undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.