Bæjarstjórnarfundur 16.ágúst 2018

Tillögur Garðabæjarlistans

Annar bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 16.ágúst og hann sátu Sara, Ingvar og Valborg.

Garðabæjarlistinn kemur vel undirbúinn eftir sumarfrí og lagði fram fjórar tillögur.

Sú fyrsta fjallaði um launakjör og bílahlunnindi bæjarstjóra. Ingvar talaði fyrir tilllögunni sem var felld af Meirihlutanum. Næstu þrjár tillögur Garðabæjarlistans voru samþykktar samhljóma af Bæjarstjórn og voru vísaðar til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar.

Hér fyrir neðan koma tillögur Garðabæjarlistans.

1. Breyting á ráðningarsamningi bæjarstjóra. Flutningsaðili: Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur til að 5. grein samnings sem fjallar um bifreiðahlunnindi bæjarstjóra verði felld út.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn telur að hér sé um óþarfa aukakostnað fyrir skattgreiðendur í Garðabæ og að launagreiðslur til bæjarstjóra dugi vel fyrir rekstri á bifreið.

Varatillaga ef fyrri tillaga er felld

Breyting á ráðningarsamningi bæjarstjóra

Garðabæjarlistinn leggur til að 5. grein samnings sem fjallar um bifreiðahlunnindi bæjarstjóra verði breytt í eftirfarandi: Garðabær lætur bæjarstjóra í té rafmagns bifreið vegna starfsins og greiðir af henni allan rekstrarkostnað. Bæjarstjóra eru heimil einkaafnot af bifreiðinni og greiðir skatta vegna þeirra samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um hlunnindamat.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn telur mikilvægt að fylgja umhverfisstefnu bæjarins og sé mikilvægt að breyta þessari grein. Við viljum að bæjarstjóri fari fyrir með góðu fordæmi og noti umhverfisvænan samgöngumáta.

 Garðabæjarlistinn leggur til að 9. grein samnings verði breytt í eftirfarandi: Laun samkvæmt 2. tl., skulu greidd í sex mánuði eftir að starfi lýkur.

Greinagerð:

Það er nokkuð ljóst að yfirvinnu þarf ekki að greiða eftir að starfi lýkur og teljum við í Garðabæjarlistanum að þarna sé óvarlega farið með skattpening Garðbæinga.

2. Gagnsærri stjórnsýsla. Flutningsaðili: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn feli yfirmönnum bæjarfélagsins alfarið um að taka ákvarðanir um launað námsleyfi almennra starfsmanna Garðabæjar í hvaða formi sem sótt er um slíkt í samráði við mannauðstjóra og fjármálasvið bæjarins.  

Þannig verði horfið frá því að kjörnir fulltrúar komi með beinum hætti að aðstöðu einstakra starfsmanna. Garðabæjarlistinn leggur því til samhliða þessari breytingu að í fjárlögum sé gert ráð fyrir fjármagni í endurmenntun almennra starfsmanna.

Garðabæjarlistinn leggur fram reikniaðgerð með tillögunni sem leiðir til þess að það liggi fyrir hvaða fjárveiting er í boði ár hvert til að mæta slíkum umsóknum og óþarft að ákvörðun um starfskjör einstaka starfsmanna fari fyrir kjörna fulltrúa.

Greinargerð

Tillaga Garðabæjarlistans er hluti af áherslu á gagnsærri og faglegri stjórnsýslu þar sem m.a. kjörnir fulltrúar eru ekki að fara með ákvarðanir sem auðvelt er að setja inn í ferla stjórnsýslunnar með skýrum reglum um framkvæmd. Þess vegna leggjur Garðabæjarlistinn til að bætt verði við núverandi reglur í starfsmannastefnu, um hvernig sí og endurmenntun er fjármögnuð og hvernig úthlutun fer fram. Það er mikilvægt að það sé gert með miðlægum hætti til að tryggja jafnræði milli starfsmanna óháð því hvar þeir starfa. Og um leið að gera beina aðkomu kjörinna fulltrúa óþarfa með sterkri og faglegri stjórnsýslu.

Framkvæmd og fjármögnun

Á fjárhagsáætlun hvers árs skal bæjarstjórn marka fjárheimildir til sí- og endurmenntunar starfsmanna. Stefnt skal á að sú fjárhæð nemi um 0,7% af áætluðum launum og launatengdum gjöldum sveitarfélagsins viðkomandi ár, að frádregnum lífeyrisskuldbindingum. Ákvörðun um hlutfallið skal bæjarstjórn taka árlega við gerð fjárhagsáætlunar og bóka í fundargerð.

Fjármagnið skal nýta til greiðslu beins kostnaðar vegna námsins, svo sem námskeiðs- og ráðstefnugjalda, kaupa á fræðsluefni og leigu á aðstöðu til námskeiðahalds. Utan við fjármögnun sjóðsins er kostnaður vegna ferða og gistingar starfsmanna.

3. Félagslegt húsnæði – stefnumótunarvinna. Flutningsaðili: Valborg Á Warén

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn setji af stað stefnumótunarvinnu varðandi félagslegt húsnæði og úr verði stefna Garðabæjar í vegna húsnæðisvanda fyrir fólk í almennum og sértækum úrræðum svipað og Reykjavíkurborg hefur þegar gert. Að Garðabær verði í fararbroddi og öðrum sveitarfélögum fyrirmynd er eitthvað sem ætti að stefna að. Lagt er til að fari fram greining á núverandi stöðu, þörfinni til framtíðar og hvernig forvarnir þurfa að vera til staðar og einnig þarf að vera til staðar neyðarúrræði þegar uppkoma aðstæður sem krefjast snöggrar afgreiðslu. Enn fremur að skoðuð verði markmið og framtíðarsýn og hvert sé lögbundin hlutverk Garðabæjar og að hvaða leiti bæjarfélagið vill ganga lengra sem og verði mótuð samskipti við önnur sveitarfélög við úrlausn mála utangarðsfólks og að skýrt sé tekið á hlutverki Garðabæjar í þessum málaflokki.

Garðabæjarlistinn leggur enn fremur til að samhliða stefnumótun fari fram greining á því hvers vegna þeir 44 einstaklingar sem hófu umsóknarferli fyrir félagslegu húsnæði á síðasta kjörtímabili fluttu úr sveitarfélaginu áður en umsóknarferli lauk. Að fari fram greining á því hversu langur biðtíminn er og hvernig hægt sé að stytta hann því skv. umboðsmanni er biðtími eftir félagslegu húsnæði of langur. Þó að efnið eigi að meginstefnu við um Reykjavíkurborg þá eigi það líka við um önnur sveitarfélög.

Greinargerð

Það er ótækt að ekki sé til stefna um hvernig eigi að bregðast við þeirri þörf sem er til staðar fyrir félagsleg húsnæði né framtíðarsýn. Biðlistinn eftir slíku úrræði er langt frá því að vera langur eða óyfirstíganlegur. Umfang slíks úrræðis eins og það er í dag í sveitarfélaginu getur seint talist Garðabæ til tekna. Garðabæjarlistinn telur mikilvægt að gera þar bragabót á sem allra fyrst. Nýútkomin umrædd skýrsla umboðsmanns Alþingis um stöðu heimilslausra í Garðabæ kallar ekki síður á skjót viðbrögð þess efnis að sett verði af stað vinna við að gera markvisst betur í húsnæðismálum þeirra sem þurfa á félagslegu úrræði að halda og um það megi finna stefnu og framkvæmdaráætlun til framtíðar. Slíkt getur komið fyrir okkur öll og Garðabæjarlistinn telur það vera forgangsmál fyrir Garðabæ sem og önnur sveitarfélög.

Mikilvægt er að viðunandi neyðarúrræði sé til staðar í bæjarfélaginu á meðan beðið er eftir varanlegu úrræði. Þessi aðstoð verður að fullnægja lágmarkskröfum stjórnarskrár og má ekki vera hugsuð til langtíma. Þetta á m.a. við þegar aðstoð felst í því að sá sem þess þarf eigi kost á húsnæðisúrræði til úrlausnar á húsnæðisvanda sínum. Hafi sveitarfélag ákveðið að nýta svigrúm sitt til að útfæra aðstoðina með öðrum hætti s.s. með fjárhagsaðstoð, lánveitingum eða framboði af félagslegum eignaríbúðum, verða úrræðin sem gripið er til einnig að vera til þess fallinn að tryggja efnislegan lágmarksrétt. Garðabæjarlistinn vill úttekt á því hvort allir íbúar sem þurfi á félagslegum úrræðum að halda hjá Garðabæ hafi tryggðan lágmarksrétt. Og stefna sett til framtíðar hvernig tryggja skal þann rétt.

Í áliti umboðsmanns segir ennfremur að sveitastjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf sé á, tryggja framboð á leiguhúsnæði, félagslegum kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrgðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Garðabæjarlistinn leggur til að gerð verði úttekt og greint fyrir stefnumótun fyrir málaflokkinn hvort Garðabær uppfylli þessi skilyrði.

4. Hinsegin fræðsla - heilsueflandi samfélag. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn óski eftir gerð þjónustusamnings við Samtökin ‘78 um hinsegin fræðslu sem nýtist sem flestu starfsfólki Garðabæjar og um leið börnum og ungmennum. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á tvenns konar inntak samnings. Annars vegar markvissa hinsegin fræðslu til ungmenna á grunnskólastigi og hins vegar almenna fræðslu fyrir starfsfólk Garðabæjar þar sem starfsfólki leik- og grunnskóla er veitt sérstök fræðsla en einnig þar sem boðið verður upp á hinsegin fræðslu fyrir allt starfsfólk. Uppræting fordóma er eina leiðin til þess að hinsegin fólk njóti öryggis í samfélaginu. Garðabæjarlistinn vill að markviss hinsegin fræðsla verði eitt þeirra markmiða sem falla undir heilsueflandi samfélag, enda er andleg líðan stór og mikilvægur þáttur góðrar heilsu.

Greinagerð

Mannréttindi eru ekki sjálfsögð. Þetta veit hinsegin fólk, sem hefur barist fyrir réttindum sínum áratugum saman. Á Íslandi hefur mikill árangur náðst í þeirri baráttu, þótt enn sé langt í land á mörgum sviðum. Þrátt fyrir breytta tíma mætir hinsegin fólk enn fordómum og jafnvel andúð í samfélaginu. Nýlegar rannsóknir, m.a. á Íslandi, sýna að hinsegin ungmenni eru líklegri til þess að glíma við kvíða og þunglyndi auk þess sem þau íhuga frekar að skaða sig og að stytta sér aldur. Þessi staða er óásættanleg og Garðabær er í góðri aðstöðu til þess að leggja sitt af mörkum til þess að bæta líðan barna og ungmenna í bænum og jafnframt stuðla að opnara, fordómalausara og heilbrigðara samfélagi.

Fræðsla upprætir fordóma. Hinsegin fólk sem fær eindreginn stuðning frá fjölskyldu og nærsamfélagi á mun auðveldara uppdráttar en þau sem mæta mótlæti. Fræðsla um hinsegin mál er mikilvæg fyrir allt samfélagið, en ekki síst fyrir hinsegin ungmenni, hinsegin foreldra, börn hinsegin fólks og aðra aðstandendur, kennara, leiðbeinendur og aðra sem þjónusta þessa hópa. Hinsegin fræðsla kemur öllum þessum hópum vel. Bæði eykur það lífsgæði hinsegin fólks að það sé almenn meðvitund um málefni þeirra í nærsamfélaginu, en jafnframt eykur það öryggi fagfólks til þess að takast á við málefni sem eru þeim e.t.v. framandi.

Hinsegin málefni eru flókin og margslungin auk þess sem þau eru síbreytileg. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að þau sem koma að fræðslu um hinsegin mál séu sérfræðingar. Garðabæjarlistinn leggur einnig áherslu á það að hinsegin fræðsla þarf að eiga sér stað óháð viðhorfum einstaka stjórnenda. Það má ekki vera minnsti möguleiki á því að fordómar nái að leita sér skjóls. Hinsegin fræðsla hefur hingað til verið valkvæð í skólum Garðabæjar, en það þýðir að færri fá notið hennar en ella. Við teljum að hinsegin fræðsla eigi erindi við öll ungmenni og allt starfsfólk bæjarins. Garðabæjarlistinn vill að Garðabær lýsi yfir fullum stuðningi yfir réttindabaráttu hinsegin fólks og sýni í verki að við tökum hinsegin fræðslu alvarlega. Með því að óska eftir þjónustusamningi við Samtökin ‘78 sendum við skýr skilaboð um að Garðabær sé upplýst samfélag þar sem öllum manneskjum er sýnd virðing.

 

Við erum þakklát fyrir stuðninginn sem okkar tillögur hafa fengið og hlökkum til að vinna þær enn frekar í nefndum og ráðum Garðabæjar.