Bæjarstjórnarfundur 21.júní 2018

Fyrsti fundur bæjarstjórnar var fimmtudaginn 21.júní og hann sátu Sara, Harpa og Valborg varabæjarfulltrúi.                                                                                                                           

Þar var fjallað um hin ýmsu mál, umræðan var áhugaverð og tónninn fyrir komandi kjörtímabili gefur okkur tækifæri til þess að vera bjartsýn um að við náum góðu samtali og samstarfi með meirihlutanum.

Bæjarstjóri var ráðinn en Garðabæjarlistinn lagði fram bókun þess efnis að laun bæjarstjóra ættu aðtaka mið af ráðherralaunum enda er mikilvægt að um laun bæjarstjóra ríki almenn sátt og sé í takt við almenna launaþróun í landinu. Einnig hefði Garðabæjarlistinn viljað að bæjarstjóri yrði ópólitískt ráðinn.                                                                                                        Fulltrúar Garðabæjarlistans sátu hjá við kosningu vegna ráðningar á bæjarstjóra.

Við niðurröðun í nefndir var sú tillaga lögð fram af meirihlutanum að sameina mannréttinda- og forvarnarnefnd inn í Íþrótta- og tómstundanefnd og svo nefnd um málefni eldri borgara myndi renna inn í Fjölskyldunefnd. Garðabæjarlistinn bókaði að ef þessar nefndir yrðu lagðar niður að þá myndi fulltrúi Garðabæjarlistans flytjast inn í þær nefndir sem málefni nefndanna falla undir. Sú breyting myndi ýta undir lýðræðislega umræðu og vinnubrögð.                                   

Fulltrúar Garðabæjarlistan greiddu atkvæði gegn þessari tillögu um breytingar á nefndum.

Systkina- og fjölgreinaafsláttur                                                                         Garðabæjarlistinn lagði fram þá tillögu að sett yrði á laggirnar starfshópur til að skoða systkina- og fjölgreinaafslætti. Garðabær er eftirbátur nágrannasveitarfélaga sinna í þessum málum og einnig gætir ekki jafnræðis milli Garðabæjar og Álftaness þó að sameining hafi verið fyrir nokkrum árum. Við teljum að með systkinaafslætti sé stigið mikilvægt skref í að minnka útgjöld barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er það í takt við fjölskylduvænar áherslur. Umræðan um tillöguna var áhugaverð og á jákvæðum nótum.                                                                                    Tillagan var send til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar.

Virkjum lýðræðið                                                                                                  Önnur tillaga sem Garðabæjarlistinn lagði fram var sú að jafna ætti hlutfall meirihlutans og minnihlutans í nefndum bæjarins. Með núverandi reiknireglu verður mikill lýðræðishalli þar sem fjöldi nefndarmanna sem hvor listi fær er ekki í samræmi við hlutfallslega skiptingu atkvæða. Með þessari tillögu Garðabæjarlistans er lögð áhersla á aukið lýðræði í samskiptum fulltrúa bæjarstjórnar í öllum nefndum og ráðum sveitarfélagsins.                                                         

Við þessa tillögu sköpuðust áhugaverðar umræður en einnig tónninn slegin fyrir samstarfinu og erum við bjartsýn á að samtal minnihlutans og meirihlutans verði á góðum og faglegum nótum. Við atkvæðagreiðslu var tillagan felld með 8 atkvæðum gegn 3.

Fjölnota knattspyrnuhús                                                                                            Samþykkt var að fara eftir mati nefndar um fjölnota knatthús í Vetrarmýrinni. Garðabæjarlistinn lagði fram bókun um að heppilegra hefði verið að fara í íbúakosningu um tvo valkosti, það er, það sem nefndin mælti með og svo um ódýrari leið sem hefði þó ekki allt sem fjölnota íþróttahús ætti að bjóða upp á.

Næsti bæjarstjórnarfundur verður 16.ágúst og erum við full tilhlökkunar fyrir komandi kjörtímabili og þeirri vinnu sem við ætlum að fara í til þess að koma okkar málum og áherslum á framfæri.

            Harpa, Sara og Valborg glaðar eftir sinn fyrsta bæjarstjórnafund.

            Harpa, Sara og Valborg glaðar eftir sinn fyrsta bæjarstjórnafund.