Peningar og lýðræði

Guðlaugur Kristmundsson gjaldkeri Garðabæjarlistans skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum, um mikilvægi þess að fjárhagsáætlun Garðabæjar sé unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta.

Bæjarstjórn Garðabæjar mun í dag, 6. desember, fjalla um fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Að loknum umræðum verður áætlunin lögð fram til atkvæðagreiðslu allra bæjarfulltrúa.

Fjárhagsáætlun er stærsta árlega verkefni sveitarstjórna og hefur líklega mestu og áþreifanlegustu áhrifin á íbúa bæjarfélagsins. Í fjárhagsáætlun eru skattar og þjónustugjöld ákveðin, framkvæmdir, viðhald og aðrar fjárfestingar eru skipulagðar og rekstrarfé er úthlutað til allrar þjónustu Garðabæjar.

Það er misjafnt hvernig vinnan fer fram við gerð fjárhagsáætlana milli sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög hafa farið þá leið að fjárhagsáætlun er unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta. Með því næst breiðari sátt, ólíkar áherslur mætast í sameiginlegri niðurstöðu og ný verkefni, sem annars hefðu setið á hakanum, fá brautargengi. Önnur sveitarfélög, líkt og Garðabær, eru föst í gömlum vinnubrögðum þar sem meirihluti í bæjarstjórn vinnur fjárhagsáætlunina án aðkomu minnihlutans.

Garðabæjarlistinn hefur frá fyrsta bæjarstjórnarfundi kallað eftir breyttum vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar og hefur viljað fá alla ellefu bæjarfulltrúana sem sitja í bæjarstjórn Garðarbæjar að gerð hennar. Í dag eru vinnubrögðin þannig að meirihlutinn mætir með fullbúna fjárhagsáætlun, en minnihlutinn fær á einum vinnufundi á milli umræðna tækifæri til þess að gera frekari grein fyrir framlögðum tillögum sínum. Þetta er eins langt frá samtali sem byggir á samráði og hugsast getur.

Garðabæjarlistinn mun áfram kalla eftir samtali og samvinnu í öllum verkefnum bæjarstjórnar. Við viljum taka upp breytt vinnubrögð og færa vinnuna við fjárhagsáætlun úr bakherbergjum valinna einstaklinga sem matreiða áætlunina á borð kjörinna fulltrúa til afgreiðslu. Við viljum að allir  lýðræðislega kjörnir fulltrúar í Garðabæ komi að gerð fjárhagsáætlunar með sameiginlegri vinnu.

Með því viljum við virkja lýðræðið og tryggja aðhald í rekstri bæjarfélagsins. Eins og jákvæð reynsla annarra sveitarfélaga gefur til kynna, þá er nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að taka upp lýðræðislegri vinnubrögð.

gk.jpg