Kæru Garðbæingar

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifaði grein í Garðapóstinn 20.desember.

Í Garðapóstinum í dag.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og gæfu á nýju ári vil ég þakka sérstaklega fyrir þann stuðning sem Garðabæjarlistinn fékk í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor. Það er ekki sjálfgefið að nýtt og ferskt framboð hljóti þann stuðning sem raun ber vitni. Ég er í hjarta mínu afar þakklát fyrir það traust og það tækifæri sem það gefur mér og mínu fólki til þess að hafa áhrif.

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans eru hópur sem hefur það eitt að leiðarljósi að leggja sitt af mörkum til að efla bæinn okkar enn frekar. Fullir af eldmóði, samheldni og krafti til að hafa áhrif, með framtíðarsýn og velferð að vopni.

Það skiptir máli að hafa stefnu og sýn til framtíðar, því þannig gefum við samfélaginu okkar svigrúm til að þroskast og dafna. Fjölbreytileikinn vegur þar einna þyngst í mínum huga, því einsleitt samfélag kallar aldrei fram það besta sem samfélag getur boðið upp á. Þess vegna leggjum við áherslu á að ræða öll mál til hlítar, víkka sýnina og leggja áherslu á fjölbreytileikann í sinni víðustu mynd. Við höfum talað mikið fyrir fjölbreyttri íbúabyggð, þar sem allir sem stofni heimili hafi tækifæri til þess að velja Garðabæ. Ekki síst ungt fólk, hvort heldur sem það kýs að leigja eða kaupa eigin húsnæði. Unga fólkið þarf að eiga val og eiga þess kost að þroskast í samfélagi okkar. Við tölum fyrir því að gera betur fyrir barnafjölskyldur, svo velferð þeirra verði sem mest og best.

Það er gott að búa í Garðabæ og þannig á það að vera fyrir alla, óháð stétt og stöðu.

Skipulagsmálin vega þar einna þyngst því skipulagið stýrir íbúabyggðinni og hverjir ná að búa sér framtíð í bænum.

Það er einlæg ósk mín og okkar allra í Garðabæjarlistanum að okkur farnist þetta verkefni vel. Með samtali, samráði og víðsýni náum við bestu niðurstöðunni fyrir alla. Tækifærin eru núna, þar sem verið er að skipuleggja ný svæði og jafnframt þétta þá byggð sem fyrir er. Þá skiptir máli að horfa til allra þátta. Fólk er alls konar og við viljum að það sé allskonar. Líka í Garðabæ.

Megi gleði og friður fylgja ykkur inn í nýtt ár.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Oddviti Garðabæjarlistans

sara.jpg