Gleðileg jól !

listinn.JPG

Jólin eru okkur flestum gleðileg vetrar- eða ljósahátíð sem við höfum skapað hefðir í kring um með fólkinu okkar. Það er sama hvernig við horfum til jólanna, þau eru viss tímamót fyrir okkur öll. Ekki aðeins fer daginn loksins að lengja, heldur skapast tækifæri til þess að líta til baka og sjá hvaða viðburðir standa upp úr. Við horfum líka fram á við til nýrra tíma og þeirra áskorana og viðfangsefna sem nýtt ár færir okkur.

Við í Garðabæjarlistanum getum ekki verið annað en auðmjúk yfir því tækifæri að fá að taka þátt í móta samfélag okkar og að fjölbreyttari raddir heyrist við mótun framtíðarsýnar fyrir bæjarfélagið okkar. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt í kosningunum í vor og þökkum fyrir samtalið sem við höfum átt við meirihlutann og bæjarbúa sem eru duglegir að halda okkur við efnið.

Á þessum tímamótum er mikilvægt að við lítum öll vel í kringum okkur og gætum þess að enginn verði eftir. Gleymum því ekki að við stöndum misvel á þessum tímamótum á hverju ári. Fyrir marga geta jólin verið erfiður tími, en jólin eru ekki síður sá tími sem minnir okkur á mikilvægi og fegurð samkenndarinnar. Sem samfélag verðum við að huga vel hvert að öðru og rétta þeim sem þess þurfa hjálparhönd.

Það er einlæg ósk okkar að jólahátíðin verði sem allra best hjá íbúum Garðabæjar. Við í Garðabæjarlistanum horfum með tilhlökkun til þeirra verkefna sem nýtt ár mun færa okkur.


Að lokum óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fulltrúar Garðabæjarlistans