Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn

Valborg Ösp Árnadóttir Warén formaður Garðabæjarlistans skrifaði grein um starfsemi Garðabæjarlistans í grein sem birtist í Garðapóstinum þann 29.11.2018

Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn var stofnað í apríl 2018. Fólkið sem að Garðabæjarlistanum stendur kemur úr ólíkum áttum, með ólíkar áherslur í stjórnmálum, kemur frá hægri armi stjórnmálanna, miðju og vinstri en á það þó sameiginlegt að vilja gera Garðabæ að enn betri bæ og aðlaðandi búsetukost fyrir alla, þá sérstaklega ungt fólk og barnafjölskyldur.

Kosningabarátta Garðabæjarlistans var lífleg og skemmtileg þar sem áhersla var lögð á virkara lýðræði, víðtækt samráð við íbúa og áherslubreytingar í félagslegum málefnum. Í fyrstu tilraun náðum við inn þremur bæjarfulltrúum og eigum öfluga og metnaðarfulla fulltrúa í öllum nefndum bæjarins.

Okkar fólk í bæjarstjórn hefur verið duglegt við að leggja fram tillögur á bæjarstjórnarfundum. Frá því í haust hafa 16 tillögur verið lagðar fram, flestar fengið góðar undirtektir og vísað áfram til frekari umræðu og  var, til að mynda, tillaga um hinsegin fræðslu fyrir starfsmenn grunnskóla samþykkt. Við höfum einnig talað fyrir frekara samráði á milli meirihluta og minnihluta, opnari stjórnsýslu, virkara íbúalýðræði og auknum áherslum á félagslega þáttinn.

Í haust var haldinn aðalfundur Garðabæjarlistans  og var þar kosin ný stjórn. Hlutverk stjórnar er að halda utan um allt starf listans og huga að innra skipulagi. Við viljum efla og styrkja Garðabæjarlistann og gera hann að framsæknu lýðræðisafli sem hefur mennskuna í fyrirrúmi og að hlustað verði á óskir og raddir bæjarbúa allt kjörtímabilið. Við sem stöndum að baki Garðabæjarlistanum erum spennt fyrir komandi árum og erum uppfull af hugmyndum, tillögum og eldmóði sem mun vonandi smita út í okkar góða bæjarfélag.

Stjórn Garðabæjarlistans vill hvetja alla þá sem vilja taka þátt í samfélagslegri umræðu að hafa samband. Vinnufundir eru haldnir einu sinni í mánuði og eru þeir opnir öllum þeim sem vilja koma og taka þátt í umræðunni. Einnig erum við dugleg að birta fréttir á samfélagsmiðlum og á heimasíðu okkar gardabaejarlistinn.is.

vw.jpg