Tillögur og greinargerð Garðabæjarlistans inn í vinnu við fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir kjörtímabilið 2018-2022

forsidumynd.jpg

Þegar rýnt er í fjárhagsáætlun Garðabæjar sem lögð var fram til fyrstu umræðu á bæjarstjórnarfundi 1. nóvember síðastliðinn kemur fátt á óvart. Gert er ráð fyrir að halda áfram að hækka álögur á fjölskyldufólk með áherslu á hækkun þvert á allar gjaldskrár bæjarins. Í framkvæmdaráætlun ber hæst, eins og vitað var, kostnaður vegna byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri sem mun nema um 600 milljónum á hverju ári næstu fjögur árin. Þetta er þó bara byrjunin, en í áætlun kostar byggingin a.m.k. 5 milljarða. Heilt yfir má segja að áætlunin gangi út á óbreyttar áherslur að mestu.

Meirihlutinn talar fyrir ábyrgri fjármálastefnu og má vissulega sjá áhrif hennar í áætluninni sem er vel. En um leið fer lítið fyrir félagslegri ábyrgð í framkvæmdaráætluninni, t.d. er engin áhersla á að styrkja veg þeirra sem minna hafa á milli handanna og barnmargra fjölskyldna. Ekki virðist gert ráð fyrir fjármagni til þess að bæta aðbúnað fatlaðra barna og ungmenna eða barna af erlendu bergi brotnu þegar kemur að frístund, íþrótta- og tómstundastarfi.

Garðabæjarlistinn fagnar áherslu meirihlutans á íbúalýðræðið. Verja á 50 milljónum á hverju ári út kjörtímabilið í að framfylgja óskum íbúa um framkvæmdir í sínu nærumhverfi. Gert er ráð fyrir því að íbúar kjósi um verkefni og að auðvelt verði fyrir alla að taka þátt. Þetta verkefni rímar vel við áherslur Garðabæjarlistans um aukið íbúalýðræði með áherslu á að auðvelda þátttöku allra.

Garðabæjarlistinn saknar ákveðinna áherslna á aukna velferð í framkvæmdaráætluninni og leggur því fram eftirfarandi breytingartillögur. Ekki síst þegar ljóst er að sveitarfélagið stendur afar vel og getur því lagt meira af mörkum þegar kemur að velferð og þjónustu henni tengdri.

Eins og tæpt var á hér að ofan, er gert er ráð fyrir 4% hækkun á allar gjaldskrár. Þessi hækkun gerir það m.a. að verkum að há leikskólagjöld hækka enn frekar. Garðabæjarlistinn hafnar þessari hækkun þvert á allar gjaldskrár. Í ljósi ört vaxandi samfélags þar sem markvisst á að gera ráð fyrir ungu fólki og barnafjölskyldum í uppbyggingu nýrra hverfa þá skýtur skökku við að halda áfram að hækka álögur á barnafjölskyldur samhliða óbreyttri útsvarsprósentu sem mætti taka til hækkunar ef á þyrfti að halda frekar en að leggja álögur beint á fjölskyldufólk. Nágrannasveitarfélögin hafa heldur hærri útsvarsprósentu svo þau megi mæta samfélagslegum skyldum sínum enn frekar. Garðabæjarlistinn leggur til að leikskólagjöld haldist óbreytt, þar sem gert er ráð fyrir varasjóði til að mæta launahækkunum sem eru framundan vegna lausra kjarasamninga. Aðrar gjaldskrár hækki um 2,9%, sem er í samræmi við nágrannasveitarfélögin sem fara öllu jafna ekki upp fyrir 2,9% hækkun eða standa í stað með sínar gjaldskrár.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til frekari stuðnings við barnafjölskyldur í formi systkinaafsláttar. Hvatapeningar fyrir börn og ungmenni 5-18 ára haldast óbreyttir í 50.0000 kr. á barn þrátt fyrir skýrt ákvæði í framkvæmdaráætlun fjölskylduráðs um að tryggja eigi að öll börn fái notið þess að stunda íþróttir og tómstundir við hæfi óháð efnahag. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um hækkun hvatapeninga um 5.000 kr. og um leið að þeir gildi fyrir börn frá 3ja ára aldri.

Enn fremur leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að enn frekar verði stutt við lýðheilsu eldri borgara og að verkefnið Janus endurhæfing verði innleitt í bæjarfélaginu í beinni tengingu við sáttmálann um heilsueflandi samfélag.

Garðabæjarlistinn leggur fram frekari tillögur um bætta þjónustu við börn og ungmenni. Annars vegar börn af erlendum uppruna, þar sem m.a. tryggt verður að íþróttir og tómstundir bjóðist þessum börnum sem hluti af aðlögun í samfélagið. Hins vegar fötluð börn, þar sem íþrótta- og tómstundastarf fatlaðra barna og ungmenna frá 10 ára aldri verður tryggð innan sveitarfélagsins enda lögbundin þjónusta hvers sveitarfélags samkvæmt nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk. Garðabæjarlistinn leggur til að farið verði af stað með þróunarverkefni til fjögurra ára sem síðan verði endurmetið. 5 milljónir verði eyrnamerktar stuðningi við fötluð börn og börn af erlendum uppruna á ári. Innan þess kostnaðar er annars vegar rekstur frístundaheimilis fyrir fatlaða í samvinnu við önnur frístundaheimili og niðurgreiðsla fyrir börn af erlendum uppruna til frístundaþátttöku og íþrótta- og tómstundaþátttöku. TUFF verkefnið sem þegar hefur verið kynnt fyrir fyrri bæjarstjórn mætti skoða til hliðsjónar sem fyrirmynd af framkvæmd heildstæðrar áætlunar um jöfn tækfifæri allra barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundaiðkun.

Í Garðabæ eru skráðir 57 fatlaðir einstaklingar sem eiga rétt á að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra. Umfangið er þess vegna þess eðlis að auðvelt ætti að vera að halda utan um og bæta þjónustu við þennan hóp. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að ferðaþjónusta fatlaðra verði endurskoðuð með öryggi en síður skilvirkni að leiðarljósi. Þjónustan verði færð nær notendum og geti mögulega orðið skjótari með minni bið og meiri sveigjanleika. Að komast frjáls ferða sinna á milli staða eru mikil lífsgæði sem okkur ber að tryggja öllum. Garðabæjarlistinn leggur til að hugsað verði til lengri tíma um vaxandi þátt fólksbílaþjónustu þar sem tækifæri gefst til þess að komast á milli staða án fyrirvara. Fatlað fólk hefur mjög ólíkar þarfir. Einhverjir búa við þau lífsgæði að geta tekið ákvarðanir án mikils fyrirvara á meðan aðrir fatlaðir einstaklingar búa ekki yfir þeim lífsgæðum og því þarf að byggja upp ferðaþjónustu fatlaðra með hliðsjón af ólíkum þörfum notenda.

Garðabæjarlistinn fagnar áformum um uppbyggingu á Lyngássvæðinu þar sem húsnæði fyrir ungt fólk verður í forgrunni með áherslu á hagkvæmar lausnir þegar kemur að híbýlum. Einnig fagnar Garðabæjarlistinn þeirri vinnu sem nú er í gangi er varðar heildstæða húsnæðisstefnu fyrir bæjarfélagið, sem er í takti við fyrri tillögu Garðabæjarlistans þess efnis. Þar vill Garðabæjarlistinn leggja sínar áherslur á vogaskálarnar og leggur fram tillögu inn í vinnu húsnæðisstefnu Garðabæjar þess efnis að hlutfall félagslegra íbúða í bæjarfélaginu verði markvisst fært til betri vegar. Einstaklingar sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda eiga að hafa alvöru val um að geta búið í Garðabæ. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að allir geti valið að búa í Garðabæ óháð efnahag. Aldrei megi stilla fram stefnu sem markvisst fælir einn hóp fólks frá búsetu frekar en annan. Markmið tillögunnar er ekki síst að ýta undir virkari leigumarkað í sveitarfélaginu, byggingu minni og ódýrari íbúða og tryggja skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa að sækja slíka þjónustu til sveitarfélagsins. Því leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að Garðabær setji fram áætlun um kaup á félagslegu húsnæði við alla uppbyggingaraðila. Garðabær hafi forgang um kaup á 4,5% af öllum íbúðum. Samstarfi við Brynju hússjóð og Bjarg sömuleiðis verði tryggt. Samhliða þessu leggur Garðabæjarlistinn fram að sett verði inn í stefnuna að eignahlutfall bæjarfélagsins í hverju fjölbýlishúsi sé ekki meira en 10-15% Þannig skapast fjölbreytilegt samfélag og jafnvægi.

Loks ber að nefna sérstakt áhyggjuefni í leikskólamálum, en það er staða faghlutfalls í leikskólum bæjarins. Garðabæjarlistinn mun leggja áherslu á að þeim aðgerðum sem þegar hafa verið settar af stað verði fylgt vel eftir. Lægsta faghlutfall á leikskóla í Garðabæ fer niður í 15% og hæsta faghlutfallið nær einungis 55% á leikskóla. Í lögum er gert ráð fyrir að lágmarki 75% faghlutfalli í hverjum leikskóla. Þar er Garðabær langt undir og mikilvægt að grípa til aðgerða. Vinnuumhverfi leikskóla þarf að vera hvetjandi og eftirsóknarvert. Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar sem meirihlutinn felldi á haustmánuðum var viðleitni til þess að skapa slíkt umhverfi. Við hvetjum kjörna fulltrúa meirihlutans til þess að endurskoða afstöðu sína með faghlutfall á leikskólum í huga.

Það er einlæg von okkar sem stöndum að Garðabæjarlistanum að samtal okkar við meirihlutann um þessar áherslur leiði til góðs í þágu alls samfélagsins. Það þarf vissulega að tryggja stöðugan rekstur og leggja upp með ábyrga fjármálastefnu en um leið þarf að gæta jafnvægis og treysta innviðina með því að fjárfesta í velferð fyrir alla. Velferð íbúa hvar sem þeir standa óháð lífsgæðum má aldrei stefna í hættu því þar liggur jú skylda hvers sveitarfélags að tryggja öryggi og festu fyrir íbúa ekki síður en öryggi og festu í rekstri.