Bæjarstjórnarfundur 4.10.2018

Fimmti bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 4.október og hann sátu Sara, Harpa og Valborg.

Skipulag fyrir Lyngás var samþykkt þar sem í fyrsta áfanga eiga að rísa 250-300 íbúðir með sérstakri áherslu á ungt fólk.

Garðabæjarlistinn hélt umræðunni um systkinaafsláttinn í íþróttum á lofti með tillögu sem vísað var til úrvinnslu í fjárhagsáætlunargerð.

Einnig studdi Garðabæjarlistinn ósk Miðflokksins til seturétts í nefndum en óskinni var hafnað af meirihlutanum.

Sameiginleg tillaga beggja framboða var lögð fram þess efnis að hefja átak í minni plastnotkun í bæjarfélaginu.

Sara Dögg ræddi stöðu fatlaðs fólks og hvatning, ásamt bókun til bæjarstjórnar um úttekt á ferðaþjónustu fatlaðra var lögð fram og tók meirihlutinni afar vel í þá hvatningu.

Tillaga Garðabæjarlistans:

Systkinaafsláttur til meðferðar inn í fjárhagsáætlunargerð

Flutningsmaður Harpa Þorsteinsdóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að það verði gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið Systkinaafsláttur í íþrótta- og tómstundastarf við fjárhagsáætlunargerðina og styðja þannig frekar við barnafjölskyldur til þess að mæta kostnaði við að innleiða systkinaaafslátt.

Greinagerð

Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að sú tillaga sem áður hefur verið lögð fram um systkina- eða fjölgreinaafslátt verði tekin áfram til úrvinnslu. Það er mikilvægt að farið verði í þá vinnu að finna flöt á því með hvaða hætti er hægt að styðja við barnafjölskyldur sem og ekki síður að sýna í verki að Garðabær leggur metnað í að fylgja eftir sáttmála um heilsueflandi samfélag á sem flestum sviðum.

Það er ljóst að til að mynda Stjarnan ein og sér getur ekki staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita systkinaafslátt miðað við núverandi rekstrargrundvöll og því mikilvægt að það sé gert ráð fyrir að leitað verði leiða til þess að mæta barnafjölskyldum sem bera mikinn kostnað af íþrótta- og tómstundaiðkun barna sinna.

Með þessum hætti erum við að styrkja börnin í bænum við að iðka íþróttir, létta undir með barnafjölskyldum og vinna í að efna kosningaloforð sem var lagt fram af báðum þeim framboðum sem sitja hér við borðið. Þannig er ríkuleg ástæða að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem það kann að hafa í för með sér.