Bæjarstjórnarfundur 18.10.2018

Sjötti bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 18.október og hann sátu Sara, Ingvar og Harpa.

Á bæjarstjórnarfundi lögðu fulltrúar Garðabæjarlistans fram nokkrar tillögur sem öllum var vísað áfram til bæjarráðs. Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögunar í heild sinni.

Athygli vakti að fulltrúar meirhlutans, þar á meðal bæjarstjóri hvatti sér hljóðs og flutti vangaveltur um tillögur. Almennt eins og hann orðaði það. Það virðist vera svo að tillögur Garðabæjarlistans séu farnar að trufla suma fulltrúa meirihlutans svo að ástæða þótti til að hafa orð á þeim lýðræðislega rétt kjörinna fulltrúa.

Fulltrúar Garðabæjarlistans munu halda ótrauð áfram.

Tillögur Garðabæjarlistans

Tillaga um bætt umferðaröryggi við Flataskóla

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn feli Tækni- og umhverfissviði að bæta umferðaröryggi við Flataskóla með skýrari merkingum og skiltum þar sem við á. Samhliða þessum úrbótum leggur Garðabæjarlistinn til að farið verði í markvissar aðgerðir til að ýta undir gangandi umferð til og frá skóla með t.d. að tryggja öryggi barna og ungmenna þegar farið er yfir þungar umferðagötur með til dæmis gangbrautarvörslu og styðja þannig um leið við samning um heilsueflandi samfélag í sínum víðasta skilningi.

Greinargerð

Umferðaröngþveiti við Flatarskóla hefur verið umkvörtunarefni foreldra sem og starfsfólks skólans að undanförnu. Vandinn lýsir sér í því að fólk virðir ekki umferðarreglur inni á bílaplaninu né við umferðarljósin.

Bílum er ítrekað lagt við hringtorgið sem og á víð og dreif á bílaplani við skólann til þess að koma börnum í skólann. Mikil hætta skapast vegna þessa á hverjum morgni þar sem umferðaröryggi er ekki tryggt eins og kostur er.

Samhliða þessum mætti fylgja fordæmi Álftaness og vera með gangbrautarstarfsfólk sem aðstoðar börn sem koma gangandi eða hjólandi til skóla og eykur töluvert öryggi um leið. Eins má benda á að sumir skólar hafa tekið upp á því að vera með starfsmenn á morgnana við skólann til að auka öryggi barna á leið í skólann.

Tillaga um eflingu Garðatorgs og vaxtamöguleika fyrir Hönnunarsafn Íslands

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu til eflingar Hönnunarsafns Íslands og styrkingu þjónustu og menningar á Garðatorgi.

Garðabæjarlistinn leggur til að Garðabær hefji viðræður við eigendur fasteignar að Garðatorgi 1, sem hýsir Hönnunarsafn Íslands og áður matvöruverslunina Víði, með það að leiðarljósi að að aukið rými skapist fyrir Hönnunarsafn Ísland og um leið atvinnutækifæri skapist fyrir kaffihús á Garðatorgi.

Greinargerð

Með því að nýta jarðhæð á fasteigninni sem snýr út að bílastæðum betur, mætti breyta húsnæðinu og skapa tækifæri fyrir kaffihús með mögulegu samstarfi eða tengingu við Hönnunarsafninu. Með nágrenni við hvort annað gætu skapast möguleikar í samstarfi og samlegð sem báðum aðilum væri verðmætt.

Á Garðatorgi er nú þegar fjölbreytt þjónusta og núverandi þjónustuaðilar myndu hagnast af því að þar myndi kaffihús ná að festa rætur. Við sjáum fyrir okkur að með samstarfi við húseigendur að Garðatorgi 1 og í góðu samstarfi við Hönnunarsafn Íslands gæti Garðatorg eflst enn frekar sem þjónustu- og menningarkjarni.

Garðabæjarlistinn telur að Hönnunarsafn Íslands geti leikið lykilhlutverk ásamt kaffihúsi í að efla núverandi verslun og þjónustu á Garðatorgi.

Tillaga um skýra verkferla varðandi styrkveitingar

Flutningsmaður Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að Garðabær setji fram skýra verkferla varðandi styrkveitingar úr bæjarsjóði, verkferla sem nefndir á vegum Garðabæjar geta fylgt þegar kemur að styrkveitingum sem ekki teljast til lögbundinna hlutverka sveitarfélaga. Einnig er lagt til að allar styrkveitingar séu aðgengilegir í opnu bókhaldi bæjarins.

Greinagerð

Með því að setja skýra verkferla á styrkveitingum og að útbúa gagnagrunn til að halda utan um allar styrkveitingar sem bæjarfélagið veitir verður auðveldara fyrir bæjarfulltrúa og nefndarmenn að fylgjast með og sjá hvað Garðabær er að styrkja. Einnig er mikilvægt að íbúar Garðabæjar hafi aðgang að þessum upplýsingum. Með aukni gagnsæi kemur einnig aukið aðhald.