Birtir til í Garðabæ

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum.

Í Garðabæ dregur til tíð­inda í skipu­lags­málum sem varða íbúða­upp­bygg­ingu og þá kosti sem boðið er upp á til búsetu í bæj­ar­fé­lag­inu. Upp­bygg­ingin hefur áhrif á sam­fé­lagið til fram­tíðar þar sem sér­stak­lega er verið að koma til móts við þarfir ungs fólks og allra sem kjósa minni húsa­kost og ódýr­ari. Og um leið tekin hlið­sjón af fjöl­breyttum sam­göngu­máta þar sem einka­bíll­inn er ekki endi­lega í fyr­ir­rúmi. Með þessum upp­bygg­ing­ar­kjörn­um, þ.e. nýju hverfi á Lyng­ás­svæð­inu og úti á Álfta­nesi, er sér­stak­lega horft til þess að Garða­bær laði að sér ungt fólk til búsetu. Gert er ráð fyrir um 400 íbúðum á hvorum stað og ljóst að Garða­bær er að leggja í spenn­andi veg­ferð.  Ef ýta á mark­visst undir fjöl­breytt sam­fé­lag skiptir máli að horft sé til fram­tíð­ar. Til unga fólks­ins sem mun búa í sam­fé­lag­inu, taka þátt í upp­bygg­ing­unni og gera það að verkum að sam­fé­lagið vex og dafn­ar. Það skiptir máli og hefur áhrif á alla sam­fé­lags­gerð­ina.

Þétt­ing byggðar þar sem fók­us­inn er á ungt fólk, fjöl­breyttar sam­göngu­leiðir og ódýr­ara hús­næði gefur einmitt ungu fólki tæki­færi til þess að setj­ast að í Garða­bæ. Ungu fólki með ólíkan bak­grunn og ólíka sýn á lífið sem gefur sam­fé­lag­inu frek­ari tæki­færi til þroska og vaxt­ar. Við í Garða­bæj­ar­list­anum fögnum þessu mjög. Jafn­framt gefst tæki­færi til frek­ari vaxtar leigu­mark­aðar og verður spenn­andi að sjá hvort sam­starf verður tekið upp við leigu­fé­lög til þess að tryggja enn fleiri val­kosti, í takt við áherslur okkar í Garða­bæj­ar­list­an­um. Hér skiptir sam­staða um fjöl­breytt sam­fé­lag máli, hvar í flokki sem staðið er. Bæði upp­bygg­ing­ar­svæðin gefa fjöl­breytt­ari hópi ungs fólks tæki­færi til þess að velja Garðabæ sem sinn heimabæ og það er mikið fagn­að­ar­efni.

Við sem höfum fengið það hlut­verk að fara fyrir sveit­ar­fé­lag­inu berum skyldu til þess að vera ávalt á tánum og horfa til fram­tíð­ar. Þá getur það gerst að við­horf þeirra sem eldri eru þurfi að víkja fyrir fram­tíð­inni, unga fólk­inu. Garða­bær hefur haft þann blæ yfir sér hingað til að þar rísi  stærri og færri hús, þar sem ein­býli eru fleiri en fjöl­býli, byggt er lágt en ekki hátt og meira um víð­áttu en ann­ars væri. Því eru bygg­ing­ar­á­formin nú í raun mun meiri tíð­indi en ella og verður spenn­andi að sjá hvernig íbúa­sam­setn­ingin kemur til með að þró­ast næstu árin með þessa nýju íbúða­kjarna. Um leið er hér verið að gefa ungum Garð­bæ­ingum fær á að að flytja aftur í heima­bæ­inn sinn, en það höfum við í Garða­bæj­ar­list­anum lagt mikla áherslu á.  Sam­hliða ákvörð­unum sem þessum þá skiptir máli að öll grunn­þjón­usta sé með þeim hætti að allir njóti. Fyrir ungt fólk skiptir gott aðgengi að leik- og grunn­skól­um, sem og íþrótta- og tóm­stunda­starfi, miklu máli.

gardabaer.jpg

Gleðileg jól !

listinn.JPG

Jólin eru okkur flestum gleðileg vetrar- eða ljósahátíð sem við höfum skapað hefðir í kring um með fólkinu okkar. Það er sama hvernig við horfum til jólanna, þau eru viss tímamót fyrir okkur öll. Ekki aðeins fer daginn loksins að lengja, heldur skapast tækifæri til þess að líta til baka og sjá hvaða viðburðir standa upp úr. Við horfum líka fram á við til nýrra tíma og þeirra áskorana og viðfangsefna sem nýtt ár færir okkur.

Við í Garðabæjarlistanum getum ekki verið annað en auðmjúk yfir því tækifæri að fá að taka þátt í móta samfélag okkar og að fjölbreyttari raddir heyrist við mótun framtíðarsýnar fyrir bæjarfélagið okkar. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt í kosningunum í vor og þökkum fyrir samtalið sem við höfum átt við meirihlutann og bæjarbúa sem eru duglegir að halda okkur við efnið.

Á þessum tímamótum er mikilvægt að við lítum öll vel í kringum okkur og gætum þess að enginn verði eftir. Gleymum því ekki að við stöndum misvel á þessum tímamótum á hverju ári. Fyrir marga geta jólin verið erfiður tími, en jólin eru ekki síður sá tími sem minnir okkur á mikilvægi og fegurð samkenndarinnar. Sem samfélag verðum við að huga vel hvert að öðru og rétta þeim sem þess þurfa hjálparhönd.

Það er einlæg ósk okkar að jólahátíðin verði sem allra best hjá íbúum Garðabæjar. Við í Garðabæjarlistanum horfum með tilhlökkun til þeirra verkefna sem nýtt ár mun færa okkur.


Að lokum óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fulltrúar Garðabæjarlistans


Bæjarstjórnarfundur 20.desember 2018

á síðasta fundir bæjarstjórnar fyrir jól var meðal annars rætt um húsnæðisstefnu Garðabæjar sem er í vinnslu.

Efirfarandi tillaga var lögð fram:

Tillaga Garðabæjarlistans inn í áframhaldandi vinnu við húsnæðisstefnu Garðabæjar. Bæjarstjórnarfundur 20. desember 2018

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að skýrt sé kveðið á um það í húsnæðisstefnu hvaða leiðir verða farnar til þess að mæta eftirspurn aldurshópsins 20 - 39 ára. Garðabæjarlistinn ítrekar mikilvægi þess að lagt verði upp með alveg skýra valkosti til búsetu þessa aldurshóps. Annars vegar í formi leiguhúsnæðis og hins vegar húsnæðis til kaups með sérstaka áherslu á greiðslubyrgði ungs fólks.

Greinargerð

Í drögum um húsnæðisstefnu Garðabæjar er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að mæta yngsta aldurshópi þeirra sem stofna til eigin heimilis eða hópsins frá 20 - 39 ára. Hins vegar er hvergi staf að finna um stefnu Garðabæjar í þeim efnum. Húsnæðisstefna er gríðarlega mikilvægt plagg sem mótar stefnu til framtíðar um íbúaþróun og samsetningu íbúanna til framtíðar. Því skiptir máli að skýrt sé tekið fram hvaða leiðir á að fara í þeirri uppbyggingu sem framundan er. En í drögunum er einungis að finna þann fjölda íbúða sem liggur fyrir að muni rísa á næstu árum.

Að styðja undir almennan leigumarkað er hvetjandi fyrir ungt fólk sem er að stofna til heimilis í fyrsta skipti. Að hafa val um ódýrt húsnæði til kaups skiptir líka máli en eitt á ekki að útiloka annað. En um þessa tvo valkosti þarf að liggja fyrir áætlun sem ákveðið er að fylgja eftir með markvissum og skilvirkum hætti.

Bókun

Garðabæjarlistinn leggur fram bókun sem hljóðar svo.

Garðabæjarlistinn hafnar því alfarið að svokallaðar aukaíbúðir eins og skilgreindar eru í drögum um húsnæðisstefnu Garðabæjar verði skilgreindar sem valkostur um búsetu í opinberri stefnu bæjarins. Aukaíbúðir eru að megninu til nýttar af fjölskyldumeðlimum og er það vel þar sem því er við komið. En sem hluti af opinberri húsnæðisstefnu gengur það ekki upp í stóra samhenginu þ.e. að tryggja öllum þann valkost að búa í Garðabæ. Því markmiði verður ekki náð með aukaíbúðum stórfjölskyldunnar. Slíkt ýtir fyrst og fremst undir einsleitt samfélag og því hafnar Garðabæjarlistinn

Gres.jpg

Kæru Garðbæingar

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifaði grein í Garðapóstinn 20.desember.

Í Garðapóstinum í dag.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og gæfu á nýju ári vil ég þakka sérstaklega fyrir þann stuðning sem Garðabæjarlistinn fékk í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor. Það er ekki sjálfgefið að nýtt og ferskt framboð hljóti þann stuðning sem raun ber vitni. Ég er í hjarta mínu afar þakklát fyrir það traust og það tækifæri sem það gefur mér og mínu fólki til þess að hafa áhrif.

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans eru hópur sem hefur það eitt að leiðarljósi að leggja sitt af mörkum til að efla bæinn okkar enn frekar. Fullir af eldmóði, samheldni og krafti til að hafa áhrif, með framtíðarsýn og velferð að vopni.

Það skiptir máli að hafa stefnu og sýn til framtíðar, því þannig gefum við samfélaginu okkar svigrúm til að þroskast og dafna. Fjölbreytileikinn vegur þar einna þyngst í mínum huga, því einsleitt samfélag kallar aldrei fram það besta sem samfélag getur boðið upp á. Þess vegna leggjum við áherslu á að ræða öll mál til hlítar, víkka sýnina og leggja áherslu á fjölbreytileikann í sinni víðustu mynd. Við höfum talað mikið fyrir fjölbreyttri íbúabyggð, þar sem allir sem stofni heimili hafi tækifæri til þess að velja Garðabæ. Ekki síst ungt fólk, hvort heldur sem það kýs að leigja eða kaupa eigin húsnæði. Unga fólkið þarf að eiga val og eiga þess kost að þroskast í samfélagi okkar. Við tölum fyrir því að gera betur fyrir barnafjölskyldur, svo velferð þeirra verði sem mest og best.

Það er gott að búa í Garðabæ og þannig á það að vera fyrir alla, óháð stétt og stöðu.

Skipulagsmálin vega þar einna þyngst því skipulagið stýrir íbúabyggðinni og hverjir ná að búa sér framtíð í bænum.

Það er einlæg ósk mín og okkar allra í Garðabæjarlistanum að okkur farnist þetta verkefni vel. Með samtali, samráði og víðsýni náum við bestu niðurstöðunni fyrir alla. Tækifærin eru núna, þar sem verið er að skipuleggja ný svæði og jafnframt þétta þá byggð sem fyrir er. Þá skiptir máli að horfa til allra þátta. Fólk er alls konar og við viljum að það sé allskonar. Líka í Garðabæ.

Megi gleði og friður fylgja ykkur inn í nýtt ár.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Oddviti Garðabæjarlistans

sara.jpg

Dýrt húsnæði og há gjöld ýta undir einsleitni

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar um að í Garðabæ eigi að vera tækifæri fyrir alla að velja sér búsetu, stofna fjölskyldu og nýta þau gæði sem þar er að finna því þau séu mikil:

Nýafgreidd fjárhagsáætlun Garðabæjar eykur álögur á barnafjölskyldur, án nokkurs sýnilegs tilefnis. Bæjarsjóður stendur vel og skuldastaðan er ekki með þeim hætti að þurfi að hafa áhyggjur af.

Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að hækka leikskólagjöld um 3% með þeim rökum og sýn að það sé nánast óhuggulegt hve lágt hlutfall kostnaðar við rekstur leikskóla foreldrar borga og þeir sem þjónustuna nýta eigi að borga. Þar er ekki fyrir að fara þeirri sýn að styrkja þjónustu við börn og ungmenni án þess að fyrir það verði greitt eins hátt gjald og mögulegt er.

Aðferðarfræðin sem gengur út á að keyra álögur á barnafjölskyldur upp í hæstu hæðir með t.d. 3% hækkun á leikskólagjöldum hefur áhrif. Ekki bara á ungu barnafjölskyldurnar sem eru að koma sér upp heimili og hafa þar ekki úr mörgum kostum að velja. Húsnæði í boði er dýrt og efnaminni hópar ráða ekki við slík kaup, aðeins þeir sem eru betur efnum búnir. Hinn kosturinn fyrir ungt fólk sem byrjar búskap i Garðabæ er að koma sér fyrir í svokölluðum aukaíbúðum, sem eru hluti af húsnæði foreldra eða annarra sem yfir slíku húsnæði búa. Slíkt hefur víðtæk áhrif á fjölbreytileika samfélagsins. Og stuðlar að einsleitni sem er aldrei til góðs þegar til lengri tíma er litið.

Aðferðafræði sem felur í sér að takmarka aðgengi ákveðinna hópa að samfélaginu byggir markvisst upp einsleitt samfélag. Samfélag sem fer á mis við þann þroska sem fjölbreytileikinn felur í sér.

Veljum fjölbreytileikann!

Í samfélagi þar sem álögur á barnafjölskyldur eru í hæstu hæðum, húsnæði dýrara en gengur og gerist og stuðningur við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna takmarkaður, eru áhrifin skaðleg. Barnafjölskyldur hafa takmarkaða möguleika á að veita börnunum sínum aðgengi að íþróttum og tómstundum þar sem iðkendagjöld eru há og bæjaryfirvöld velja að beita ekki jöfnunartækifærum sem felast til dæmis í að bjóða upp á systkinaafslátt.

Það verður verðugt verkefni okkar í Garaðbæjarlistanum að tala fyrir mikilvægi fjölbreytileikans í uppbyggingu samfélagsins. Í Garðabæ eiga að vera tækifæri fyrir alla að velja sér búsetu, stofna fjölskyldu og nýta þau gæði sem þar er að finna því þau eru mikil.


Gres.jpg

Bæjarstjórnarfundur 6.des, fjárhagsáætlun 2019

6.desember fór fram ansi fjörugur bæjarstjórnarfundur sem stóð yfir í þrjá tíma enda voru mörg mál  á dagskrá auk þess sem seinni umræða um fjárhagsáætlun Garðabæjar fór fram. Fundinn sátu Sara Dögg, Ingvar og Harpa.

Fjár­hags­á­ætlun er stærsta árlega verk­efni sveit­ar­stjórna en í henni eru skattar og þjón­ustu­gjöld ákveð­in, fram­kvæmd­ir ogaðrar fjár­fest­ingar eru skipu­lagðar ásamt því að rekstr­arfé er úthlutað til allrar þjón­ustu Garða­bæj­ar. 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 í heild sinni er ekki alslæm. Skortur er þó á sýn og festu til framtíðar þegar kemur að því að fjárfesta í innviðum. Slíkt er gríðarlega mikilvægt til að halda velli sem stöndugt sveitarfélag þegar bæjarsjóður stendur eins vel og raun ber vitni. Að fjárfesta í innviðum til framtíðar skiptir máli og er mikilvægt til að tryggja stöðugleika samfélagsins og trausta þjónustu. Afgangur er af hinu góða en honum skal verja í innviði þegar tækifæri gefst.

Þar er einfaldlega þannig og við vitum það öll að það er alltaf hægt að gera betur hvort heldur sem er í velferð eða skólamálum. Helstu innviðum hvers samfélags, þar sem verðmætin liggja í fólkinu sjálfu ungu sem öldnu. En ekki síst æskunni. Þar söknum við tilrauna til þess að mæta barnafjölskyldum með t.d. systkinaafslætti.

Athyglisvert er að um leið og farið er fram með hærri álögur sem fylgja hækkun þvert á allar gjaldskrár sem hefur áhrif á útgjöld íbúa og þá ekki síst barnafjölskyldna hefur meirihlutinn í stefnu sinni að tryggja jöfn tækifæri allra til þátttöku í tómstund og íþróttastarfi. En gjaldskárhækkun nær jú yfir til að mynda leikskólagjöld jafnt sem frístund sem og innritun í tónlistarskólann svo dæmi séu tekin.

Hækkun almennrar gjaldskrár upp á 4% endurspeglar algjört viljaleysi til þess að búa barnafjölskyldum fjárhagslegan stöðugleika og umhverfi þar sem stutt er við fjölbreytileika í íbúasamsetningu til framtíðar.

Félagslegur stöðugleiki þar sem tryggð er uppbygging félagslegs húsnæðis til framtíðar er hvergi að finna. Garðabæjarlistinn getur engan veginn skrifað undir slíkt stefnuleysi. Garðabær á að vera samfélag fyrir alla. Aðgerðarleysið og almennt innlegg í alla umræðu um velferð fyrir alla gefur það til kynna því miður.

Fulltrúar Garðabæjarlistans kusu gegn fjárhagsáætluninni. Við hjá Garðabæjarlistanum föllumst ekki á þá sýn sem er að finna í fjárhagsáætlun Garðabæjar.

Okkar bæjarfulltrúar, Harpa, Sara og Ingvar stóðu sig mjög vel í umræðu um fjárhagsáætlun Garðabæjar.

Okkar bæjarfulltrúar, Harpa, Sara og Ingvar stóðu sig mjög vel í umræðu um fjárhagsáætlun Garðabæjar.

Peningar og lýðræði

Guðlaugur Kristmundsson gjaldkeri Garðabæjarlistans skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum, um mikilvægi þess að fjárhagsáætlun Garðabæjar sé unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta.

Bæjarstjórn Garðabæjar mun í dag, 6. desember, fjalla um fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Að loknum umræðum verður áætlunin lögð fram til atkvæðagreiðslu allra bæjarfulltrúa.

Fjárhagsáætlun er stærsta árlega verkefni sveitarstjórna og hefur líklega mestu og áþreifanlegustu áhrifin á íbúa bæjarfélagsins. Í fjárhagsáætlun eru skattar og þjónustugjöld ákveðin, framkvæmdir, viðhald og aðrar fjárfestingar eru skipulagðar og rekstrarfé er úthlutað til allrar þjónustu Garðabæjar.

Það er misjafnt hvernig vinnan fer fram við gerð fjárhagsáætlana milli sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög hafa farið þá leið að fjárhagsáætlun er unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta. Með því næst breiðari sátt, ólíkar áherslur mætast í sameiginlegri niðurstöðu og ný verkefni, sem annars hefðu setið á hakanum, fá brautargengi. Önnur sveitarfélög, líkt og Garðabær, eru föst í gömlum vinnubrögðum þar sem meirihluti í bæjarstjórn vinnur fjárhagsáætlunina án aðkomu minnihlutans.

Garðabæjarlistinn hefur frá fyrsta bæjarstjórnarfundi kallað eftir breyttum vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar og hefur viljað fá alla ellefu bæjarfulltrúana sem sitja í bæjarstjórn Garðarbæjar að gerð hennar. Í dag eru vinnubrögðin þannig að meirihlutinn mætir með fullbúna fjárhagsáætlun, en minnihlutinn fær á einum vinnufundi á milli umræðna tækifæri til þess að gera frekari grein fyrir framlögðum tillögum sínum. Þetta er eins langt frá samtali sem byggir á samráði og hugsast getur.

Garðabæjarlistinn mun áfram kalla eftir samtali og samvinnu í öllum verkefnum bæjarstjórnar. Við viljum taka upp breytt vinnubrögð og færa vinnuna við fjárhagsáætlun úr bakherbergjum valinna einstaklinga sem matreiða áætlunina á borð kjörinna fulltrúa til afgreiðslu. Við viljum að allir  lýðræðislega kjörnir fulltrúar í Garðabæ komi að gerð fjárhagsáætlunar með sameiginlegri vinnu.

Með því viljum við virkja lýðræðið og tryggja aðhald í rekstri bæjarfélagsins. Eins og jákvæð reynsla annarra sveitarfélaga gefur til kynna, þá er nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að taka upp lýðræðislegri vinnubrögð.

gk.jpg

Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn

Valborg Ösp Árnadóttir Warén formaður Garðabæjarlistans skrifaði grein um starfsemi Garðabæjarlistans í grein sem birtist í Garðapóstinum þann 29.11.2018

Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn var stofnað í apríl 2018. Fólkið sem að Garðabæjarlistanum stendur kemur úr ólíkum áttum, með ólíkar áherslur í stjórnmálum, kemur frá hægri armi stjórnmálanna, miðju og vinstri en á það þó sameiginlegt að vilja gera Garðabæ að enn betri bæ og aðlaðandi búsetukost fyrir alla, þá sérstaklega ungt fólk og barnafjölskyldur.

Kosningabarátta Garðabæjarlistans var lífleg og skemmtileg þar sem áhersla var lögð á virkara lýðræði, víðtækt samráð við íbúa og áherslubreytingar í félagslegum málefnum. Í fyrstu tilraun náðum við inn þremur bæjarfulltrúum og eigum öfluga og metnaðarfulla fulltrúa í öllum nefndum bæjarins.

Okkar fólk í bæjarstjórn hefur verið duglegt við að leggja fram tillögur á bæjarstjórnarfundum. Frá því í haust hafa 16 tillögur verið lagðar fram, flestar fengið góðar undirtektir og vísað áfram til frekari umræðu og  var, til að mynda, tillaga um hinsegin fræðslu fyrir starfsmenn grunnskóla samþykkt. Við höfum einnig talað fyrir frekara samráði á milli meirihluta og minnihluta, opnari stjórnsýslu, virkara íbúalýðræði og auknum áherslum á félagslega þáttinn.

Í haust var haldinn aðalfundur Garðabæjarlistans  og var þar kosin ný stjórn. Hlutverk stjórnar er að halda utan um allt starf listans og huga að innra skipulagi. Við viljum efla og styrkja Garðabæjarlistann og gera hann að framsæknu lýðræðisafli sem hefur mennskuna í fyrirrúmi og að hlustað verði á óskir og raddir bæjarbúa allt kjörtímabilið. Við sem stöndum að baki Garðabæjarlistanum erum spennt fyrir komandi árum og erum uppfull af hugmyndum, tillögum og eldmóði sem mun vonandi smita út í okkar góða bæjarfélag.

Stjórn Garðabæjarlistans vill hvetja alla þá sem vilja taka þátt í samfélagslegri umræðu að hafa samband. Vinnufundir eru haldnir einu sinni í mánuði og eru þeir opnir öllum þeim sem vilja koma og taka þátt í umræðunni. Einnig erum við dugleg að birta fréttir á samfélagsmiðlum og á heimasíðu okkar gardabaejarlistinn.is.

vw.jpg