Tillögur og greinargerð Garðabæjarlistans inn í vinnu við fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir kjörtímabilið 2018-2022

forsidumynd.jpg

Þegar rýnt er í fjárhagsáætlun Garðabæjar sem lögð var fram til fyrstu umræðu á bæjarstjórnarfundi 1. nóvember síðastliðinn kemur fátt á óvart. Gert er ráð fyrir að halda áfram að hækka álögur á fjölskyldufólk með áherslu á hækkun þvert á allar gjaldskrár bæjarins. Í framkvæmdaráætlun ber hæst, eins og vitað var, kostnaður vegna byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri sem mun nema um 600 milljónum á hverju ári næstu fjögur árin. Þetta er þó bara byrjunin, en í áætlun kostar byggingin a.m.k. 5 milljarða. Heilt yfir má segja að áætlunin gangi út á óbreyttar áherslur að mestu.

Meirihlutinn talar fyrir ábyrgri fjármálastefnu og má vissulega sjá áhrif hennar í áætluninni sem er vel. En um leið fer lítið fyrir félagslegri ábyrgð í framkvæmdaráætluninni, t.d. er engin áhersla á að styrkja veg þeirra sem minna hafa á milli handanna og barnmargra fjölskyldna. Ekki virðist gert ráð fyrir fjármagni til þess að bæta aðbúnað fatlaðra barna og ungmenna eða barna af erlendu bergi brotnu þegar kemur að frístund, íþrótta- og tómstundastarfi.

Garðabæjarlistinn fagnar áherslu meirihlutans á íbúalýðræðið. Verja á 50 milljónum á hverju ári út kjörtímabilið í að framfylgja óskum íbúa um framkvæmdir í sínu nærumhverfi. Gert er ráð fyrir því að íbúar kjósi um verkefni og að auðvelt verði fyrir alla að taka þátt. Þetta verkefni rímar vel við áherslur Garðabæjarlistans um aukið íbúalýðræði með áherslu á að auðvelda þátttöku allra.

Garðabæjarlistinn saknar ákveðinna áherslna á aukna velferð í framkvæmdaráætluninni og leggur því fram eftirfarandi breytingartillögur. Ekki síst þegar ljóst er að sveitarfélagið stendur afar vel og getur því lagt meira af mörkum þegar kemur að velferð og þjónustu henni tengdri.

Eins og tæpt var á hér að ofan, er gert er ráð fyrir 4% hækkun á allar gjaldskrár. Þessi hækkun gerir það m.a. að verkum að há leikskólagjöld hækka enn frekar. Garðabæjarlistinn hafnar þessari hækkun þvert á allar gjaldskrár. Í ljósi ört vaxandi samfélags þar sem markvisst á að gera ráð fyrir ungu fólki og barnafjölskyldum í uppbyggingu nýrra hverfa þá skýtur skökku við að halda áfram að hækka álögur á barnafjölskyldur samhliða óbreyttri útsvarsprósentu sem mætti taka til hækkunar ef á þyrfti að halda frekar en að leggja álögur beint á fjölskyldufólk. Nágrannasveitarfélögin hafa heldur hærri útsvarsprósentu svo þau megi mæta samfélagslegum skyldum sínum enn frekar. Garðabæjarlistinn leggur til að leikskólagjöld haldist óbreytt, þar sem gert er ráð fyrir varasjóði til að mæta launahækkunum sem eru framundan vegna lausra kjarasamninga. Aðrar gjaldskrár hækki um 2,9%, sem er í samræmi við nágrannasveitarfélögin sem fara öllu jafna ekki upp fyrir 2,9% hækkun eða standa í stað með sínar gjaldskrár.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til frekari stuðnings við barnafjölskyldur í formi systkinaafsláttar. Hvatapeningar fyrir börn og ungmenni 5-18 ára haldast óbreyttir í 50.0000 kr. á barn þrátt fyrir skýrt ákvæði í framkvæmdaráætlun fjölskylduráðs um að tryggja eigi að öll börn fái notið þess að stunda íþróttir og tómstundir við hæfi óháð efnahag. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um hækkun hvatapeninga um 5.000 kr. og um leið að þeir gildi fyrir börn frá 3ja ára aldri.

Enn fremur leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að enn frekar verði stutt við lýðheilsu eldri borgara og að verkefnið Janus endurhæfing verði innleitt í bæjarfélaginu í beinni tengingu við sáttmálann um heilsueflandi samfélag.

Garðabæjarlistinn leggur fram frekari tillögur um bætta þjónustu við börn og ungmenni. Annars vegar börn af erlendum uppruna, þar sem m.a. tryggt verður að íþróttir og tómstundir bjóðist þessum börnum sem hluti af aðlögun í samfélagið. Hins vegar fötluð börn, þar sem íþrótta- og tómstundastarf fatlaðra barna og ungmenna frá 10 ára aldri verður tryggð innan sveitarfélagsins enda lögbundin þjónusta hvers sveitarfélags samkvæmt nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk. Garðabæjarlistinn leggur til að farið verði af stað með þróunarverkefni til fjögurra ára sem síðan verði endurmetið. 5 milljónir verði eyrnamerktar stuðningi við fötluð börn og börn af erlendum uppruna á ári. Innan þess kostnaðar er annars vegar rekstur frístundaheimilis fyrir fatlaða í samvinnu við önnur frístundaheimili og niðurgreiðsla fyrir börn af erlendum uppruna til frístundaþátttöku og íþrótta- og tómstundaþátttöku. TUFF verkefnið sem þegar hefur verið kynnt fyrir fyrri bæjarstjórn mætti skoða til hliðsjónar sem fyrirmynd af framkvæmd heildstæðrar áætlunar um jöfn tækfifæri allra barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundaiðkun.

Í Garðabæ eru skráðir 57 fatlaðir einstaklingar sem eiga rétt á að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra. Umfangið er þess vegna þess eðlis að auðvelt ætti að vera að halda utan um og bæta þjónustu við þennan hóp. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að ferðaþjónusta fatlaðra verði endurskoðuð með öryggi en síður skilvirkni að leiðarljósi. Þjónustan verði færð nær notendum og geti mögulega orðið skjótari með minni bið og meiri sveigjanleika. Að komast frjáls ferða sinna á milli staða eru mikil lífsgæði sem okkur ber að tryggja öllum. Garðabæjarlistinn leggur til að hugsað verði til lengri tíma um vaxandi þátt fólksbílaþjónustu þar sem tækifæri gefst til þess að komast á milli staða án fyrirvara. Fatlað fólk hefur mjög ólíkar þarfir. Einhverjir búa við þau lífsgæði að geta tekið ákvarðanir án mikils fyrirvara á meðan aðrir fatlaðir einstaklingar búa ekki yfir þeim lífsgæðum og því þarf að byggja upp ferðaþjónustu fatlaðra með hliðsjón af ólíkum þörfum notenda.

Garðabæjarlistinn fagnar áformum um uppbyggingu á Lyngássvæðinu þar sem húsnæði fyrir ungt fólk verður í forgrunni með áherslu á hagkvæmar lausnir þegar kemur að híbýlum. Einnig fagnar Garðabæjarlistinn þeirri vinnu sem nú er í gangi er varðar heildstæða húsnæðisstefnu fyrir bæjarfélagið, sem er í takti við fyrri tillögu Garðabæjarlistans þess efnis. Þar vill Garðabæjarlistinn leggja sínar áherslur á vogaskálarnar og leggur fram tillögu inn í vinnu húsnæðisstefnu Garðabæjar þess efnis að hlutfall félagslegra íbúða í bæjarfélaginu verði markvisst fært til betri vegar. Einstaklingar sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda eiga að hafa alvöru val um að geta búið í Garðabæ. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að allir geti valið að búa í Garðabæ óháð efnahag. Aldrei megi stilla fram stefnu sem markvisst fælir einn hóp fólks frá búsetu frekar en annan. Markmið tillögunnar er ekki síst að ýta undir virkari leigumarkað í sveitarfélaginu, byggingu minni og ódýrari íbúða og tryggja skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa að sækja slíka þjónustu til sveitarfélagsins. Því leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að Garðabær setji fram áætlun um kaup á félagslegu húsnæði við alla uppbyggingaraðila. Garðabær hafi forgang um kaup á 4,5% af öllum íbúðum. Samstarfi við Brynju hússjóð og Bjarg sömuleiðis verði tryggt. Samhliða þessu leggur Garðabæjarlistinn fram að sett verði inn í stefnuna að eignahlutfall bæjarfélagsins í hverju fjölbýlishúsi sé ekki meira en 10-15% Þannig skapast fjölbreytilegt samfélag og jafnvægi.

Loks ber að nefna sérstakt áhyggjuefni í leikskólamálum, en það er staða faghlutfalls í leikskólum bæjarins. Garðabæjarlistinn mun leggja áherslu á að þeim aðgerðum sem þegar hafa verið settar af stað verði fylgt vel eftir. Lægsta faghlutfall á leikskóla í Garðabæ fer niður í 15% og hæsta faghlutfallið nær einungis 55% á leikskóla. Í lögum er gert ráð fyrir að lágmarki 75% faghlutfalli í hverjum leikskóla. Þar er Garðabær langt undir og mikilvægt að grípa til aðgerða. Vinnuumhverfi leikskóla þarf að vera hvetjandi og eftirsóknarvert. Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar sem meirihlutinn felldi á haustmánuðum var viðleitni til þess að skapa slíkt umhverfi. Við hvetjum kjörna fulltrúa meirihlutans til þess að endurskoða afstöðu sína með faghlutfall á leikskólum í huga.

Það er einlæg von okkar sem stöndum að Garðabæjarlistanum að samtal okkar við meirihlutann um þessar áherslur leiði til góðs í þágu alls samfélagsins. Það þarf vissulega að tryggja stöðugan rekstur og leggja upp með ábyrga fjármálastefnu en um leið þarf að gæta jafnvægis og treysta innviðina með því að fjárfesta í velferð fyrir alla. Velferð íbúa hvar sem þeir standa óháð lífsgæðum má aldrei stefna í hættu því þar liggur jú skylda hvers sveitarfélags að tryggja öryggi og festu fyrir íbúa ekki síður en öryggi og festu í rekstri.

Ný stjórn Garðabæjarlistans kosin á Aðalfundi

Aðalfundur Garðabæjarlistans var haldinn 27.október 2018. Þar var farið yfir viðburðaríkt upphafstímabil framboðsins og starfið í nefndum, bæjarstjórn og bæjarráði.

Ný stjórn Garðabæjarlistans var einnig kosin. Stjórnina skipar öflugur hópur fólk sem hefur tekið þátt í að móta stefnu listans frá upphafi. Verkefni nýrrar stjórna er að leiða starfið áfram með það að markmiði að Garðabæjarlistinn haldi áfram að vaxa og tryggi þá stöðu sem hann hefur í dag sem öflugt, trúverðugt afl sem vill gera gott samfélag enn betra með gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð að leiðarljósi.

 Ný stjórn: Gunnar, Valborg, Guðlaugur, Þorbjörg og Baldur.

Ný stjórn: Gunnar, Valborg, Guðlaugur, Þorbjörg og Baldur.

Hinsegin fræðsla samþykkt

Tillaga Garðabbæjarlistans um hinsegin fræðslu hefur verið afgreidd með þeim hætti að fræðslusvið mun bjóða öllum grunnskólakennurum upp á faglega fræðslu um málefni hinsegin fólks.

Við fögnum afgreiðslu málsins með von um útvíkkun á útfærslunni þannig að fræðsla nái til leikskólakennara sömuleiðis en það er ekki ólíklegt að af því verði.

Betri þjónustu

Betri þjónusta - betra samfélag

Betri þjón­usta við íbúa er eitt af stóru mál­unum sem Garða­bæj­ar­list­inn hefur sett í for­gang í sinni stefnu og áherslu í bæj­ar­stjórn við upp­haf þessa kjör­tíma­bils. Nú fer fyrri umræða um fjár­hags­á­ætl­un­ar­gerð þessa kjör­tíma­bils að hefjast, en hingað til hafa full­trúar Garða­bæj­ar­list­ans ekki átt full­trúa við und­ir­bún­ing­inn.

Bæjarstjórnarfundur 18.10.2018

Sjötti bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 18.október og hann sátu Sara, Ingvar og Harpa.

Á bæjarstjórnarfundi lögðu fulltrúar Garðabæjarlistans fram nokkrar tillögur sem öllum var vísað áfram til bæjarráðs. Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögunar í heild sinni.

Athygli vakti að fulltrúar meirhlutans, þar á meðal bæjarstjóri hvatti sér hljóðs og flutti vangaveltur um tillögur. Almennt eins og hann orðaði það. Það virðist vera svo að tillögur Garðabæjarlistans séu farnar að trufla suma fulltrúa meirihlutans svo að ástæða þótti til að hafa orð á þeim lýðræðislega rétt kjörinna fulltrúa.

Fulltrúar Garðabæjarlistans munu halda ótrauð áfram.

Tillögur Garðabæjarlistans

Tillaga um bætt umferðaröryggi við Flataskóla

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn feli Tækni- og umhverfissviði að bæta umferðaröryggi við Flataskóla með skýrari merkingum og skiltum þar sem við á. Samhliða þessum úrbótum leggur Garðabæjarlistinn til að farið verði í markvissar aðgerðir til að ýta undir gangandi umferð til og frá skóla með t.d. að tryggja öryggi barna og ungmenna þegar farið er yfir þungar umferðagötur með til dæmis gangbrautarvörslu og styðja þannig um leið við samning um heilsueflandi samfélag í sínum víðasta skilningi.

Greinargerð

Umferðaröngþveiti við Flatarskóla hefur verið umkvörtunarefni foreldra sem og starfsfólks skólans að undanförnu. Vandinn lýsir sér í því að fólk virðir ekki umferðarreglur inni á bílaplaninu né við umferðarljósin.

Bílum er ítrekað lagt við hringtorgið sem og á víð og dreif á bílaplani við skólann til þess að koma börnum í skólann. Mikil hætta skapast vegna þessa á hverjum morgni þar sem umferðaröryggi er ekki tryggt eins og kostur er.

Samhliða þessum mætti fylgja fordæmi Álftaness og vera með gangbrautarstarfsfólk sem aðstoðar börn sem koma gangandi eða hjólandi til skóla og eykur töluvert öryggi um leið. Eins má benda á að sumir skólar hafa tekið upp á því að vera með starfsmenn á morgnana við skólann til að auka öryggi barna á leið í skólann.

Tillaga um eflingu Garðatorgs og vaxtamöguleika fyrir Hönnunarsafn Íslands

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu til eflingar Hönnunarsafns Íslands og styrkingu þjónustu og menningar á Garðatorgi.

Garðabæjarlistinn leggur til að Garðabær hefji viðræður við eigendur fasteignar að Garðatorgi 1, sem hýsir Hönnunarsafn Íslands og áður matvöruverslunina Víði, með það að leiðarljósi að að aukið rými skapist fyrir Hönnunarsafn Ísland og um leið atvinnutækifæri skapist fyrir kaffihús á Garðatorgi.

Greinargerð

Með því að nýta jarðhæð á fasteigninni sem snýr út að bílastæðum betur, mætti breyta húsnæðinu og skapa tækifæri fyrir kaffihús með mögulegu samstarfi eða tengingu við Hönnunarsafninu. Með nágrenni við hvort annað gætu skapast möguleikar í samstarfi og samlegð sem báðum aðilum væri verðmætt.

Á Garðatorgi er nú þegar fjölbreytt þjónusta og núverandi þjónustuaðilar myndu hagnast af því að þar myndi kaffihús ná að festa rætur. Við sjáum fyrir okkur að með samstarfi við húseigendur að Garðatorgi 1 og í góðu samstarfi við Hönnunarsafn Íslands gæti Garðatorg eflst enn frekar sem þjónustu- og menningarkjarni.

Garðabæjarlistinn telur að Hönnunarsafn Íslands geti leikið lykilhlutverk ásamt kaffihúsi í að efla núverandi verslun og þjónustu á Garðatorgi.

Tillaga um skýra verkferla varðandi styrkveitingar

Flutningsmaður Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að Garðabær setji fram skýra verkferla varðandi styrkveitingar úr bæjarsjóði, verkferla sem nefndir á vegum Garðabæjar geta fylgt þegar kemur að styrkveitingum sem ekki teljast til lögbundinna hlutverka sveitarfélaga. Einnig er lagt til að allar styrkveitingar séu aðgengilegir í opnu bókhaldi bæjarins.

Greinagerð

Með því að setja skýra verkferla á styrkveitingum og að útbúa gagnagrunn til að halda utan um allar styrkveitingar sem bæjarfélagið veitir verður auðveldara fyrir bæjarfulltrúa og nefndarmenn að fylgjast með og sjá hvað Garðabær er að styrkja. Einnig er mikilvægt að íbúar Garðabæjar hafi aðgang að þessum upplýsingum. Með aukni gagnsæi kemur einnig aukið aðhald.


Tillaga á bæjarráðsfundi

Garðabæjarlistinn lagði fram tillögu á bæjarráðsfundi síðasta þriðjudag þar sem, áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, er mótmælt og hvatt til þess að Garðabær skili inn umsögn sem styður frumvarpið. Réttindi barna í fyrsta sæti. 
Erindið allt er til umsagnar í viðeigandi nefndum.

tillaga.jpg

Bæjarstjórnarfundur 4.10.2018

Fimmti bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 4.október og hann sátu Sara, Harpa og Valborg.

Skipulag fyrir Lyngás var samþykkt þar sem í fyrsta áfanga eiga að rísa 250-300 íbúðir með sérstakri áherslu á ungt fólk.

Garðabæjarlistinn hélt umræðunni um systkinaafsláttinn í íþróttum á lofti með tillögu sem vísað var til úrvinnslu í fjárhagsáætlunargerð.

Einnig studdi Garðabæjarlistinn ósk Miðflokksins til seturétts í nefndum en óskinni var hafnað af meirihlutanum.

Sameiginleg tillaga beggja framboða var lögð fram þess efnis að hefja átak í minni plastnotkun í bæjarfélaginu.

Sara Dögg ræddi stöðu fatlaðs fólks og hvatning, ásamt bókun til bæjarstjórnar um úttekt á ferðaþjónustu fatlaðra var lögð fram og tók meirihlutinni afar vel í þá hvatningu.

Tillaga Garðabæjarlistans:

Systkinaafsláttur til meðferðar inn í fjárhagsáætlunargerð

Flutningsmaður Harpa Þorsteinsdóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að það verði gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið Systkinaafsláttur í íþrótta- og tómstundastarf við fjárhagsáætlunargerðina og styðja þannig frekar við barnafjölskyldur til þess að mæta kostnaði við að innleiða systkinaaafslátt.

Greinagerð

Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að sú tillaga sem áður hefur verið lögð fram um systkina- eða fjölgreinaafslátt verði tekin áfram til úrvinnslu. Það er mikilvægt að farið verði í þá vinnu að finna flöt á því með hvaða hætti er hægt að styðja við barnafjölskyldur sem og ekki síður að sýna í verki að Garðabær leggur metnað í að fylgja eftir sáttmála um heilsueflandi samfélag á sem flestum sviðum.

Það er ljóst að til að mynda Stjarnan ein og sér getur ekki staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita systkinaafslátt miðað við núverandi rekstrargrundvöll og því mikilvægt að það sé gert ráð fyrir að leitað verði leiða til þess að mæta barnafjölskyldum sem bera mikinn kostnað af íþrótta- og tómstundaiðkun barna sinna.

Með þessum hætti erum við að styrkja börnin í bænum við að iðka íþróttir, létta undir með barnafjölskyldum og vinna í að efna kosningaloforð sem var lagt fram af báðum þeim framboðum sem sitja hér við borðið. Þannig er ríkuleg ástæða að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem það kann að hafa í för með sér.


Bæjarstjórnarfundur 20.9.2018

Fjórði bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 20.september og hann sátu Sara, Ingvar og Valborg.

Fulltrúar Garðabæjarlistans ítrekuðu beiðni listans um að minnihlutinn fái að koma að gerð fjárhagsáætlunar fyrr en vaninn er. Meirihlutinn hefur ólíka sýn á þörfinni fyrir því en Garðabæjarlistinn lagði fram eftirfarandi bókun:

Vegna vinnu við forsendur fjárhagsáætlunargerðar.

“Garðabæjarlistinn hafnar alfarið þeim vinnubrögðum meirihlutans sem viðhöfð eru við vinnu á forsendum fyrir fjárhagsáætlunar og þeim rökum um að lýðræðisegum vinnubrögðum se fullnægt með fyrrgreindu ferli og ítrekar ósk minnihlutans um aðkomu allra bæjarfulltrúa að þeirri vinnu þ.e. að allir fulltrúar bæjarstjórnar sameinist um þær forsendur sem lagðar eru fram við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni.”

Fulltrúar Garðabæjarlistans lögðu fram 3 tillögur til fjárhagsáætlunar árið 2019. Tillaga um gjaldfrjálsan tómstundabíl og tillaga um stofnun Sköpunarmiðstöðvar voru samþykktar samhljóða og vísað til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Meirihlutinn er á því að frístundabíll eigi ekki að vera gjaldfrjáls um sé að ræða mikla þjónustu og umsvifamikila þar sem sífellt er verið að auka við þá þjónustu með því að bæta inn akstursleiðum. Tillögu var vísað inn í bæjarráð sömuleiðis var tillögu um menningarhús vísað áfram í bæjarráð til umfjöllunar og vilja til að tengja hana við þá vinnu sem þegar er verið að vinna um menningarhús. Þriðja tillagan var um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar. Sú tillaga var því miður felld með 8 atkvæðum gegn þremur.Tillögunni var hafnað með rökum um aukinn kostnað, vanköntum á slíku fyrirkomulagi sem er talinn liggja í minni sveigjanleika fyrir starfsfólk og ekki síst vegna þess að ennþá séu engin gögn því til staðfestingar að þau tilraunarverkefni sem hafa verið sett af stað séu að gefa öllum hlutaðilum góða niðurstöðu.  Það eru okkur mikil vonbrigði að Meirihlutinn hafi ekki viljað taka þessa tillögu lengra enda teljum við að stytting vinnuvikunnar ýti undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögur Garðabæjarlistans.

Tillögur Garðabæjarlistans

Tillaga Garðabæjarlistans til fjárhagsáætlunar 2019 um gjaldfrjálsan tómstundabíl. Flutningsmaður: Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu til fjárhagsáætlunar þess efnis að Garðabær bjóði upp á gjaldfrjálsan tómstundaakstur fyrir börn.

Greinargerð

Miklilvægt er að tryggja öllum börnum í Garðabæ jafna aðgang að tómstundum sem eru í boði í bænum. Með því að hafa tómstundaakstur gjaldfrjálsan gefst börnum tækifæri á að sækja sem flestar tómstundir. Mikilvægt er í nútímasamfélagi að jafna aðgang fyrir börn að tómstundum og fækka ferðum foreldra á einkabílum eins g kostur er. Garðabæjarlistinn telur að með þessum hætti sé hægt að koma til móts við þarfir fjölskyldna í Garðabæ.

Tillaga Garðabæjarlistans um stofnun Sköpunarmiðstöðvar (Menningarhús)

Flutningsmaður: Valborg Ösp Árnadóttir Warén

Garðabæjarlistinn leggur til að komið verði á fót Sköpunarmiðstöð eða Menningarhúsi. Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni svo að hægt verði að hefja undirbúning fyrir byggingu húsnæðis undir starfsemina og á meðan verði fundin viðunandi aðstaða hið fyrsta.

Garðabær á að vera lifandi bær þar sem hugvit fær að blómstra og því er nauðsynlegt að viðunandi aðstaða sé í bænum þar sem  ungt fólk sem og aðrir geti nýtt sér til að sinna ný – og listsköpun.

Garðabæjarlistinn leggur til að Íþrótta-og tómstundaráð, ásamt menningarnefnd móti hugmyndir að sköpunarmiðstöðinni og njóti til þess fulltingis Ungmennaráðs Garðabæjar.

Greinagerð.

Fjölbreyttir valkostir í tómstundastarfi ýta undir vellíðan. Til þess að sem flestir finni áhugamál við sitt hæfi er nauðsynlegt að koma á fót miðstöð eða aðstöðu fyrir list og nýsköpun hér í bæjarfélaginu.

Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

 Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn samþykki að stefna að því að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins.

Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni til þess að setja af stað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að ná fram því markmiði að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins úr 40 klst vinnuviku niður í 35 klst vinnuviku eða 1 klst á hvern virkan vinnudag.

Garðabæjarlistinn leggur til að forgangsraðað verði með þeim hætti að fyrst verði horft til starfsfólks á leikskólum bæjarins þar sem farið verði í samvinnu við stjórnendur að rýna í slíkt fyrirkomulag er varðar skipulag slíkrar aðgerðar.

 Greinargerð

Starfsumhverfi leikskóla er einn af þeim vinnustöðum þar sem áreitið er mikið og álag mikið á starfsfólki. Vinnumhverfið er þess eðlis að starfsfólk er mjög bundið við það mikilvæga verkefni að sinna börnum sem liggur í hlutarins eðli að gefur lítið sem ekkert svigrúm til þess að taka hlé frá störfum í amstri dagsins líkt og við getum ímyndað okkur að starfsfólk til að mynda sem vinnur við skrifstofustorf hefur tækifæri til.

Við viljum öll búa sem allra best að börnum á leikskólaaldri og í því felst að starfsumhverfið sé aðlaðandi og eftirsóknarvert. Stytting vinnuvikunnar hefur sýnt sig á fleiri en einum stað að kalli fram meiri starfsánægju en ekki síður virðist slík aðgerð skapa stöðugleika í viðveru sem skapar um leið festu og og öryggi fyrir börn og minni kostnað við afleysingar.

Að ýta undir betri aðbúnað kvennastétta er eitt af því sem Garðabæjarlistinn leggur ríka áherslu á í stefnu sinni samhliða áherslum þess efnis að leiðrétta kjör kvennastétta. Stytting vinnuvikunnar ýtir undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.