Dýrt húsnæði og há gjöld ýta undir einsleitni

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar um að í Garðabæ eigi að vera tækifæri fyrir alla að velja sér búsetu, stofna fjölskyldu og nýta þau gæði sem þar er að finna því þau séu mikil:

Nýafgreidd fjárhagsáætlun Garðabæjar eykur álögur á barnafjölskyldur, án nokkurs sýnilegs tilefnis. Bæjarsjóður stendur vel og skuldastaðan er ekki með þeim hætti að þurfi að hafa áhyggjur af.

Meirihluti bæjarstjórnar ákvað að hækka leikskólagjöld um 3% með þeim rökum og sýn að það sé nánast óhuggulegt hve lágt hlutfall kostnaðar við rekstur leikskóla foreldrar borga og þeir sem þjónustuna nýta eigi að borga. Þar er ekki fyrir að fara þeirri sýn að styrkja þjónustu við börn og ungmenni án þess að fyrir það verði greitt eins hátt gjald og mögulegt er.

Aðferðarfræðin sem gengur út á að keyra álögur á barnafjölskyldur upp í hæstu hæðir með t.d. 3% hækkun á leikskólagjöldum hefur áhrif. Ekki bara á ungu barnafjölskyldurnar sem eru að koma sér upp heimili og hafa þar ekki úr mörgum kostum að velja. Húsnæði í boði er dýrt og efnaminni hópar ráða ekki við slík kaup, aðeins þeir sem eru betur efnum búnir. Hinn kosturinn fyrir ungt fólk sem byrjar búskap i Garðabæ er að koma sér fyrir í svokölluðum aukaíbúðum, sem eru hluti af húsnæði foreldra eða annarra sem yfir slíku húsnæði búa. Slíkt hefur víðtæk áhrif á fjölbreytileika samfélagsins. Og stuðlar að einsleitni sem er aldrei til góðs þegar til lengri tíma er litið.

Aðferðafræði sem felur í sér að takmarka aðgengi ákveðinna hópa að samfélaginu byggir markvisst upp einsleitt samfélag. Samfélag sem fer á mis við þann þroska sem fjölbreytileikinn felur í sér.

Veljum fjölbreytileikann!

Í samfélagi þar sem álögur á barnafjölskyldur eru í hæstu hæðum, húsnæði dýrara en gengur og gerist og stuðningur við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna takmarkaður, eru áhrifin skaðleg. Barnafjölskyldur hafa takmarkaða möguleika á að veita börnunum sínum aðgengi að íþróttum og tómstundum þar sem iðkendagjöld eru há og bæjaryfirvöld velja að beita ekki jöfnunartækifærum sem felast til dæmis í að bjóða upp á systkinaafslátt.

Það verður verðugt verkefni okkar í Garaðbæjarlistanum að tala fyrir mikilvægi fjölbreytileikans í uppbyggingu samfélagsins. Í Garðabæ eiga að vera tækifæri fyrir alla að velja sér búsetu, stofna fjölskyldu og nýta þau gæði sem þar er að finna því þau eru mikil.


Bæjarstjórnarfundur 6.des, fjárhagsáætlun 2019

6.desember fór fram ansi fjörugur bæjarstjórnarfundur sem stóð yfir í þrjá tíma enda voru mörg mál  á dagskrá auk þess sem seinni umræða um fjárhagsáætlun Garðabæjar fór fram. Fundinn sátu Sara Dögg, Ingvar og Harpa.

Fjár­hags­á­ætlun er stærsta árlega verk­efni sveit­ar­stjórna en í henni eru skattar og þjón­ustu­gjöld ákveð­in, fram­kvæmd­ir ogaðrar fjár­fest­ingar eru skipu­lagðar ásamt því að rekstr­arfé er úthlutað til allrar þjón­ustu Garða­bæj­ar. 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 í heild sinni er ekki alslæm. Skortur er þó á sýn og festu til framtíðar þegar kemur að því að fjárfesta í innviðum. Slíkt er gríðarlega mikilvægt til að halda velli sem stöndugt sveitarfélag þegar bæjarsjóður stendur eins vel og raun ber vitni. Að fjárfesta í innviðum til framtíðar skiptir máli og er mikilvægt til að tryggja stöðugleika samfélagsins og trausta þjónustu. Afgangur er af hinu góða en honum skal verja í innviði þegar tækifæri gefst.

Þar er einfaldlega þannig og við vitum það öll að það er alltaf hægt að gera betur hvort heldur sem er í velferð eða skólamálum. Helstu innviðum hvers samfélags, þar sem verðmætin liggja í fólkinu sjálfu ungu sem öldnu. En ekki síst æskunni. Þar söknum við tilrauna til þess að mæta barnafjölskyldum með t.d. systkinaafslætti.

Athyglisvert er að um leið og farið er fram með hærri álögur sem fylgja hækkun þvert á allar gjaldskrár sem hefur áhrif á útgjöld íbúa og þá ekki síst barnafjölskyldna hefur meirihlutinn í stefnu sinni að tryggja jöfn tækifæri allra til þátttöku í tómstund og íþróttastarfi. En gjaldskárhækkun nær jú yfir til að mynda leikskólagjöld jafnt sem frístund sem og innritun í tónlistarskólann svo dæmi séu tekin.

Hækkun almennrar gjaldskrár upp á 4% endurspeglar algjört viljaleysi til þess að búa barnafjölskyldum fjárhagslegan stöðugleika og umhverfi þar sem stutt er við fjölbreytileika í íbúasamsetningu til framtíðar.

Félagslegur stöðugleiki þar sem tryggð er uppbygging félagslegs húsnæðis til framtíðar er hvergi að finna. Garðabæjarlistinn getur engan veginn skrifað undir slíkt stefnuleysi. Garðabær á að vera samfélag fyrir alla. Aðgerðarleysið og almennt innlegg í alla umræðu um velferð fyrir alla gefur það til kynna því miður.

Fulltrúar Garðabæjarlistans kusu gegn fjárhagsáætluninni. Við hjá Garðabæjarlistanum föllumst ekki á þá sýn sem er að finna í fjárhagsáætlun Garðabæjar.

 Okkar bæjarfulltrúar, Harpa, Sara og Ingvar stóðu sig mjög vel í umræðu um fjárhagsáætlun Garðabæjar.

Okkar bæjarfulltrúar, Harpa, Sara og Ingvar stóðu sig mjög vel í umræðu um fjárhagsáætlun Garðabæjar.

Peningar og lýðræði

Guðlaugur Kristmundsson gjaldkeri Garðabæjarlistans skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum, um mikilvægi þess að fjárhagsáætlun Garðabæjar sé unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta.

Bæjarstjórn Garðabæjar mun í dag, 6. desember, fjalla um fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Að loknum umræðum verður áætlunin lögð fram til atkvæðagreiðslu allra bæjarfulltrúa.

Fjárhagsáætlun er stærsta árlega verkefni sveitarstjórna og hefur líklega mestu og áþreifanlegustu áhrifin á íbúa bæjarfélagsins. Í fjárhagsáætlun eru skattar og þjónustugjöld ákveðin, framkvæmdir, viðhald og aðrar fjárfestingar eru skipulagðar og rekstrarfé er úthlutað til allrar þjónustu Garðabæjar.

Það er misjafnt hvernig vinnan fer fram við gerð fjárhagsáætlana milli sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög hafa farið þá leið að fjárhagsáætlun er unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta. Með því næst breiðari sátt, ólíkar áherslur mætast í sameiginlegri niðurstöðu og ný verkefni, sem annars hefðu setið á hakanum, fá brautargengi. Önnur sveitarfélög, líkt og Garðabær, eru föst í gömlum vinnubrögðum þar sem meirihluti í bæjarstjórn vinnur fjárhagsáætlunina án aðkomu minnihlutans.

Garðabæjarlistinn hefur frá fyrsta bæjarstjórnarfundi kallað eftir breyttum vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar og hefur viljað fá alla ellefu bæjarfulltrúana sem sitja í bæjarstjórn Garðarbæjar að gerð hennar. Í dag eru vinnubrögðin þannig að meirihlutinn mætir með fullbúna fjárhagsáætlun, en minnihlutinn fær á einum vinnufundi á milli umræðna tækifæri til þess að gera frekari grein fyrir framlögðum tillögum sínum. Þetta er eins langt frá samtali sem byggir á samráði og hugsast getur.

Garðabæjarlistinn mun áfram kalla eftir samtali og samvinnu í öllum verkefnum bæjarstjórnar. Við viljum taka upp breytt vinnubrögð og færa vinnuna við fjárhagsáætlun úr bakherbergjum valinna einstaklinga sem matreiða áætlunina á borð kjörinna fulltrúa til afgreiðslu. Við viljum að allir  lýðræðislega kjörnir fulltrúar í Garðabæ komi að gerð fjárhagsáætlunar með sameiginlegri vinnu.

Með því viljum við virkja lýðræðið og tryggja aðhald í rekstri bæjarfélagsins. Eins og jákvæð reynsla annarra sveitarfélaga gefur til kynna, þá er nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að taka upp lýðræðislegri vinnubrögð.

Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn

Valborg Ösp Árnadóttir Warén formaður Garðabæjarlistans skrifaði grein um starfsemi Garðabæjarlistans í grein sem birtist í Garðapóstinum þann 29.11.2018

Bæjarmálaaflið Garðabæjarlistinn var stofnað í apríl 2018. Fólkið sem að Garðabæjarlistanum stendur kemur úr ólíkum áttum, með ólíkar áherslur í stjórnmálum, kemur frá hægri armi stjórnmálanna, miðju og vinstri en á það þó sameiginlegt að vilja gera Garðabæ að enn betri bæ og aðlaðandi búsetukost fyrir alla, þá sérstaklega ungt fólk og barnafjölskyldur.

Kosningabarátta Garðabæjarlistans var lífleg og skemmtileg þar sem áhersla var lögð á virkara lýðræði, víðtækt samráð við íbúa og áherslubreytingar í félagslegum málefnum. Í fyrstu tilraun náðum við inn þremur bæjarfulltrúum og eigum öfluga og metnaðarfulla fulltrúa í öllum nefndum bæjarins.

Okkar fólk í bæjarstjórn hefur verið duglegt við að leggja fram tillögur á bæjarstjórnarfundum. Frá því í haust hafa 16 tillögur verið lagðar fram, flestar fengið góðar undirtektir og vísað áfram til frekari umræðu og  var, til að mynda, tillaga um hinsegin fræðslu fyrir starfsmenn grunnskóla samþykkt. Við höfum einnig talað fyrir frekara samráði á milli meirihluta og minnihluta, opnari stjórnsýslu, virkara íbúalýðræði og auknum áherslum á félagslega þáttinn.

Í haust var haldinn aðalfundur Garðabæjarlistans  og var þar kosin ný stjórn. Hlutverk stjórnar er að halda utan um allt starf listans og huga að innra skipulagi. Við viljum efla og styrkja Garðabæjarlistann og gera hann að framsæknu lýðræðisafli sem hefur mennskuna í fyrirrúmi og að hlustað verði á óskir og raddir bæjarbúa allt kjörtímabilið. Við sem stöndum að baki Garðabæjarlistanum erum spennt fyrir komandi árum og erum uppfull af hugmyndum, tillögum og eldmóði sem mun vonandi smita út í okkar góða bæjarfélag.

Stjórn Garðabæjarlistans vill hvetja alla þá sem vilja taka þátt í samfélagslegri umræðu að hafa samband. Vinnufundir eru haldnir einu sinni í mánuði og eru þeir opnir öllum þeim sem vilja koma og taka þátt í umræðunni. Einnig erum við dugleg að birta fréttir á samfélagsmiðlum og á heimasíðu okkar gardabaejarlistinn.is.

Treystum innviðina og gerum betur !

Sara Dögg Svanhildardóttir oddviti Garðabæjarlistans skrifaði grein í Garðapóstinn þann 29.11 um breytingartillögur Garðabæjarlistans við fjárhagsætlun Garðabæjar.

1.-sara_dogg-sh.jpg

Þegar rýnt er í fjárhagsáætlun Garðabæjar kemur fátt á óvart. Gert er ráð fyrir að halda áfram að hækka álögur á fjölskyldufólk með áherslu á hækkun þvert á allar gjaldskrár bæjarins. Meirihlutinn talar fyrir ábyrgri fjármálastefnu og má vissulega sjá áhrif  hennar í áætluninni sem er vel. En um leið fer lítið fyrir félagslegri ábyrgð í framkvæmdaráætluninni, t.d. er engin áhersla á  að styrkja veg þeirra sem minna hafa á milli handanna og barnmargra fjölskyldna. Garðabæjarlistinn saknar ákveðinna áherslna á aukna velferð í framkvæmdaráætluninni og leggur því fram breytingartillögur. Ekki síst þegar ljóst er að sveitarfélagið stendur afar vel og getur því lagt meira af mörkum þegar kemur að velferð og þjónustu henni tengdri.

Gert er ráð fyrir 4% hækkun á allar gjaldskrár. Þessi hækkun gerir það m.a. að verkum að há leikskólagjöld hækka enn frekar. Garðabæjarlistinn hafnar þessari hækkun þvert á allar gjaldskrár. Í ljósi ört vaxandi samfélags þar sem markvisst á að  gera ráð fyrir ungu fólki og barnafjölskyldum í uppbyggingu nýrra hverfa þá skýtur skökku við að halda áfram að hækka álögur á barnafjölskyldur samhliða óbreyttri útsvarsprósentu. Garðabæjarlistinn leggur til að leikskólagjöld haldist óbreyt.. Aðrar gjaldskrár hækki um 2,9%, sem er í samræmi við nágrannasveitarfélögin sem fara öllu jafna ekki upp fyrir 2,9% hækkun eða standa í stað með sínar gjaldskrár.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til frekari stuðnings við barnafjölskyldur í formi systkinaafsláttar. Hvatapeningar fyrir börn og ungmenni 5-18 ára haldast óbreyttir í 50.0000 kr. á barn þrátt fyrir skýrt ákvæði í framkvæmdaráætlun fjölskylduráðs um að tryggja eigi að öll börn fái notið þess að stunda íþróttir og tómstundir við hæfi óháð efnahag.

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um hækkun hvatapeninga um 5000 kr. og um leið að þeir gildi fyrir börn frá 3ja ára aldri.

Enn fremur leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að enn frekar verði stutt við lýðheilsu eldri borgara og að verkefnið Janus endurhæfing verði innleitt í bæjarfélaginu í beinni tengingu við sáttmálann um heilsueflandi samfélag.

Garðabæjarlistinn leggur fram frekari tillögur um bætta þjónustu við börn og ungmenni. Annars vegar börn af erlendum uppruna, þar sem m.a. tryggt verður að íþróttir og tómstundir bjóðist þessum börnum sem hluti af aðlögun í samfélagið. Hins vegar fötluð börn, þar sem íþrótta- og tómstundastarf fatlaðra barna og ungmenna frá 10 ára aldri verður tryggð innan sveitarfélagsins enda lögbundin þjónusta hvers sveitarfélags samkvæmt nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk. Garðabæjarlistinn leggur til að farið verði af stað með þróunarverkefni til fjögurra ára sem síðan verði endurmetið þar sem 5 milljónum verði varið í stuðningi við fötluð börn og börn af erlendum uppruna á ári.

Í Garðabæ eru skráðir 57 fatlaðir einstaklingar sem eiga rétt á að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra. Umfangið er þess vegna þess eðlis að auðvelt ætti að vera að halda utan um og bæta þjónustu við þennan hóp.

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að ferðaþjónusta fatlaðra verði endurskoðuð með öryggi en síður skilvirkni að leiðarljósi. Þjónustan verði færð nær notendum og geti mögulega orðið skjótari með minni bið og meiri sveigjanleika.

Garðabæjarlistinn fagnar áformum um uppbyggingu á Lyngássvæðinu þar sem húsnæði fyrir ungt fólk verður í forgrunni með áherslu á hagkvæmar lausnir þegar kemur að híbýlum. Einnig fagnar Garðabæjarlistinn þeirri vinnu sem nú er í gangi er varðar heildstæða húsnæðisstefnu fyrir bæjarfélagið, sem er í takti við fyrri tillögu Garðabæjarlistans þess efnis.

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um að Garðabær setji fram markvissa áætlun um kaup á félagslegu húsnæði við alla uppbyggingaraðila. Garðabær hafi forgang um kaup á 4,5% af öllum íbúðum og um leið að sett verði inn í stefnuna að eignahlutfall bæjarfélagsins í hverju fjölbýlishúsi sé ekki meira en 10-15% Þannig skapast fjölbreytilegt samfélag og jafnvægi.

Að undanförnu höfum við átt ágætis samtal við meirihlutann um áherslur og forgangsröðun og er það einlæg von okkar sem stöndum að Garðabæjarlistanum það komi til með að leiða til góðs í þágu alls samfélagsins. Það þarf vissulega að tryggja stöðugan rekstur og leggja upp með ábyrga fjármálastefnu en um leið þarf að gæta jafnvægis og treysta innviðina með því að fjárfesta í velferð fyrir alla. Velferð íbúa hvar sem þeir standa óháð lífsgæðum má aldrei stefna í hættu því þar liggur jú skylda hvers sveitarfélags að tryggja öryggi og festu fyrir íbúa ekki síður en öryggi og festu í rekstri.

Bæjarstjórnarfundur 15. nóvember 2018

Tillögurnar sem fulltrúar Garðabæjarlistans lögð fram, fengu ágæta umræðu á fundinum þó að fulltrúar meirihlutans voru óvanir svona framsetningu á tillögunum og lýstu undrun sinni á þessum vinnubrögðum auk þess að láta nokkur velvalin orð falla. Að þessu sinni voru tillögur lagðar fram í ræðuformi en þetta þykir nýbreytni og aldrei sést áður á bæjarstjórnarfundur í Garðabæ.

Tillögur Garðabæjarlistans fjölluðu til að mynda um að fjárfesta í innviðum eins og félagslegu húsnæði. Meðlimir meirihlutans fannst það vera skattpíning á bæjarbúa og ýta undir að fólk sækist frekar í félagsleg húsnæði. Við erum nú ekki sammála því og viljum frekar leysa vandamálin heldur en að líta fram hjá þeim.

Aðrar tillögur fengu góðan hljómgrunn - ekki var amast við tillögum um betri þjónustu við börn og ungmenni af erlendum uppruna eða fötluðum börnum og ungmennum þegar kemur að því að búa svo um að þessi hópur fái notið frístundar og tómstundar og íþróttaiðkunar í bæjarfélaginu sínu - svo það lofar að minnsta kosti góðu.

Garðarbæjarlistinn vill að leikskólagjöld haldist óbreytt  og aðrar gjaldskrár muni ekki hækka jafn mikið líkt og meirihlutinn hefur lagt fram (4 % hækkun). Þessar hugmyndir vöktu ekki lukku meirihlutans en Við höldum ótrauð áfram. Tillögurnar voru færðar áfram inn í bæjarráð og svo eigum við vinnufund með meirihlutanum í næstu viku þar sem kröfurnar, en það er nafnið sem sett er á tillögur þeirra sem hafa aðra sýn en valdið, verða ræddar frekar.

Áherslur á velferð skortir í fjárhagsáætlun Garðabæjar

"Garða­bær er öfl­ugt sveit­ar­fé­lag á stærð við úthverfi Reykja­vík­ur, enda hefur verið litið svo á að sveit­ar­fé­lagið hafi efni á margra millj­arða fram­kvæmd við bygg­ingu fjöl­nota íþrótta­húss. Við hlið slíkrar stór­fram­kvæmdar bliknar föst pró­senta í félags­legar íbúð­ir, þar sem farið verður í að byggja upp hverfi. Og við hlið slíkrar millj­arða­fram­kvæmdar er aumt að bjóða upp á 5 millj­ónir króna til að tryggja öryggi, festu og vel­ferð fatl­aðra barna og ung­menna og barna og ung­menna af erlendum upp­runa með þátt­töku í frí­stund, íþrótta- og tóm­stunda­starfi innan bæj­ar­fé­lags­ins." #virkjumlýðræðið

Áherslur á velferð skortir í fjárhagsáætlun Garðabæjar

Í fjár­hags­á­ætlun Garða­bæjar gengur meiri­hlut­inn út frá óbreyttri þjón­ustu. Garða­bæj­ar­list­inn saknar auk­ins fjár­magns í þágu barna og ung­menna, barna­fjöl­skyldna og aldr­aðra. Garða­bæj­ar­list­inn vill gera miklu betur á þessum sviðum og leggur því fram breyt­ing­ar­til­lög­ur. Sveit­ar­fé­lagið stendur afar vel og getur lagt meira af mörkum til vel­ferðar íbúa sinna.

Tillögur og greinargerð Garðabæjarlistans inn í vinnu við fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir kjörtímabilið 2018-2022

forsidumynd.jpg

Þegar rýnt er í fjárhagsáætlun Garðabæjar sem lögð var fram til fyrstu umræðu á bæjarstjórnarfundi 1. nóvember síðastliðinn kemur fátt á óvart. Gert er ráð fyrir að halda áfram að hækka álögur á fjölskyldufólk með áherslu á hækkun þvert á allar gjaldskrár bæjarins. Í framkvæmdaráætlun ber hæst, eins og vitað var, kostnaður vegna byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri sem mun nema um 600 milljónum á hverju ári næstu fjögur árin. Þetta er þó bara byrjunin, en í áætlun kostar byggingin a.m.k. 5 milljarða. Heilt yfir má segja að áætlunin gangi út á óbreyttar áherslur að mestu.

Meirihlutinn talar fyrir ábyrgri fjármálastefnu og má vissulega sjá áhrif hennar í áætluninni sem er vel. En um leið fer lítið fyrir félagslegri ábyrgð í framkvæmdaráætluninni, t.d. er engin áhersla á að styrkja veg þeirra sem minna hafa á milli handanna og barnmargra fjölskyldna. Ekki virðist gert ráð fyrir fjármagni til þess að bæta aðbúnað fatlaðra barna og ungmenna eða barna af erlendu bergi brotnu þegar kemur að frístund, íþrótta- og tómstundastarfi.

Garðabæjarlistinn fagnar áherslu meirihlutans á íbúalýðræðið. Verja á 50 milljónum á hverju ári út kjörtímabilið í að framfylgja óskum íbúa um framkvæmdir í sínu nærumhverfi. Gert er ráð fyrir því að íbúar kjósi um verkefni og að auðvelt verði fyrir alla að taka þátt. Þetta verkefni rímar vel við áherslur Garðabæjarlistans um aukið íbúalýðræði með áherslu á að auðvelda þátttöku allra.

Garðabæjarlistinn saknar ákveðinna áherslna á aukna velferð í framkvæmdaráætluninni og leggur því fram eftirfarandi breytingartillögur. Ekki síst þegar ljóst er að sveitarfélagið stendur afar vel og getur því lagt meira af mörkum þegar kemur að velferð og þjónustu henni tengdri.

Eins og tæpt var á hér að ofan, er gert er ráð fyrir 4% hækkun á allar gjaldskrár. Þessi hækkun gerir það m.a. að verkum að há leikskólagjöld hækka enn frekar. Garðabæjarlistinn hafnar þessari hækkun þvert á allar gjaldskrár. Í ljósi ört vaxandi samfélags þar sem markvisst á að gera ráð fyrir ungu fólki og barnafjölskyldum í uppbyggingu nýrra hverfa þá skýtur skökku við að halda áfram að hækka álögur á barnafjölskyldur samhliða óbreyttri útsvarsprósentu sem mætti taka til hækkunar ef á þyrfti að halda frekar en að leggja álögur beint á fjölskyldufólk. Nágrannasveitarfélögin hafa heldur hærri útsvarsprósentu svo þau megi mæta samfélagslegum skyldum sínum enn frekar. Garðabæjarlistinn leggur til að leikskólagjöld haldist óbreytt, þar sem gert er ráð fyrir varasjóði til að mæta launahækkunum sem eru framundan vegna lausra kjarasamninga. Aðrar gjaldskrár hækki um 2,9%, sem er í samræmi við nágrannasveitarfélögin sem fara öllu jafna ekki upp fyrir 2,9% hækkun eða standa í stað með sínar gjaldskrár.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til frekari stuðnings við barnafjölskyldur í formi systkinaafsláttar. Hvatapeningar fyrir börn og ungmenni 5-18 ára haldast óbreyttir í 50.0000 kr. á barn þrátt fyrir skýrt ákvæði í framkvæmdaráætlun fjölskylduráðs um að tryggja eigi að öll börn fái notið þess að stunda íþróttir og tómstundir við hæfi óháð efnahag. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um hækkun hvatapeninga um 5.000 kr. og um leið að þeir gildi fyrir börn frá 3ja ára aldri.

Enn fremur leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að enn frekar verði stutt við lýðheilsu eldri borgara og að verkefnið Janus endurhæfing verði innleitt í bæjarfélaginu í beinni tengingu við sáttmálann um heilsueflandi samfélag.

Garðabæjarlistinn leggur fram frekari tillögur um bætta þjónustu við börn og ungmenni. Annars vegar börn af erlendum uppruna, þar sem m.a. tryggt verður að íþróttir og tómstundir bjóðist þessum börnum sem hluti af aðlögun í samfélagið. Hins vegar fötluð börn, þar sem íþrótta- og tómstundastarf fatlaðra barna og ungmenna frá 10 ára aldri verður tryggð innan sveitarfélagsins enda lögbundin þjónusta hvers sveitarfélags samkvæmt nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk. Garðabæjarlistinn leggur til að farið verði af stað með þróunarverkefni til fjögurra ára sem síðan verði endurmetið. 5 milljónir verði eyrnamerktar stuðningi við fötluð börn og börn af erlendum uppruna á ári. Innan þess kostnaðar er annars vegar rekstur frístundaheimilis fyrir fatlaða í samvinnu við önnur frístundaheimili og niðurgreiðsla fyrir börn af erlendum uppruna til frístundaþátttöku og íþrótta- og tómstundaþátttöku. TUFF verkefnið sem þegar hefur verið kynnt fyrir fyrri bæjarstjórn mætti skoða til hliðsjónar sem fyrirmynd af framkvæmd heildstæðrar áætlunar um jöfn tækfifæri allra barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundaiðkun.

Í Garðabæ eru skráðir 57 fatlaðir einstaklingar sem eiga rétt á að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra. Umfangið er þess vegna þess eðlis að auðvelt ætti að vera að halda utan um og bæta þjónustu við þennan hóp. Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að ferðaþjónusta fatlaðra verði endurskoðuð með öryggi en síður skilvirkni að leiðarljósi. Þjónustan verði færð nær notendum og geti mögulega orðið skjótari með minni bið og meiri sveigjanleika. Að komast frjáls ferða sinna á milli staða eru mikil lífsgæði sem okkur ber að tryggja öllum. Garðabæjarlistinn leggur til að hugsað verði til lengri tíma um vaxandi þátt fólksbílaþjónustu þar sem tækifæri gefst til þess að komast á milli staða án fyrirvara. Fatlað fólk hefur mjög ólíkar þarfir. Einhverjir búa við þau lífsgæði að geta tekið ákvarðanir án mikils fyrirvara á meðan aðrir fatlaðir einstaklingar búa ekki yfir þeim lífsgæðum og því þarf að byggja upp ferðaþjónustu fatlaðra með hliðsjón af ólíkum þörfum notenda.

Garðabæjarlistinn fagnar áformum um uppbyggingu á Lyngássvæðinu þar sem húsnæði fyrir ungt fólk verður í forgrunni með áherslu á hagkvæmar lausnir þegar kemur að híbýlum. Einnig fagnar Garðabæjarlistinn þeirri vinnu sem nú er í gangi er varðar heildstæða húsnæðisstefnu fyrir bæjarfélagið, sem er í takti við fyrri tillögu Garðabæjarlistans þess efnis. Þar vill Garðabæjarlistinn leggja sínar áherslur á vogaskálarnar og leggur fram tillögu inn í vinnu húsnæðisstefnu Garðabæjar þess efnis að hlutfall félagslegra íbúða í bæjarfélaginu verði markvisst fært til betri vegar. Einstaklingar sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda eiga að hafa alvöru val um að geta búið í Garðabæ. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að allir geti valið að búa í Garðabæ óháð efnahag. Aldrei megi stilla fram stefnu sem markvisst fælir einn hóp fólks frá búsetu frekar en annan. Markmið tillögunnar er ekki síst að ýta undir virkari leigumarkað í sveitarfélaginu, byggingu minni og ódýrari íbúða og tryggja skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa að sækja slíka þjónustu til sveitarfélagsins. Því leggur Garðabæjarlistinn fram tillögu þess efnis að Garðabær setji fram áætlun um kaup á félagslegu húsnæði við alla uppbyggingaraðila. Garðabær hafi forgang um kaup á 4,5% af öllum íbúðum. Samstarfi við Brynju hússjóð og Bjarg sömuleiðis verði tryggt. Samhliða þessu leggur Garðabæjarlistinn fram að sett verði inn í stefnuna að eignahlutfall bæjarfélagsins í hverju fjölbýlishúsi sé ekki meira en 10-15% Þannig skapast fjölbreytilegt samfélag og jafnvægi.

Loks ber að nefna sérstakt áhyggjuefni í leikskólamálum, en það er staða faghlutfalls í leikskólum bæjarins. Garðabæjarlistinn mun leggja áherslu á að þeim aðgerðum sem þegar hafa verið settar af stað verði fylgt vel eftir. Lægsta faghlutfall á leikskóla í Garðabæ fer niður í 15% og hæsta faghlutfallið nær einungis 55% á leikskóla. Í lögum er gert ráð fyrir að lágmarki 75% faghlutfalli í hverjum leikskóla. Þar er Garðabær langt undir og mikilvægt að grípa til aðgerða. Vinnuumhverfi leikskóla þarf að vera hvetjandi og eftirsóknarvert. Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar sem meirihlutinn felldi á haustmánuðum var viðleitni til þess að skapa slíkt umhverfi. Við hvetjum kjörna fulltrúa meirihlutans til þess að endurskoða afstöðu sína með faghlutfall á leikskólum í huga.

Það er einlæg von okkar sem stöndum að Garðabæjarlistanum að samtal okkar við meirihlutann um þessar áherslur leiði til góðs í þágu alls samfélagsins. Það þarf vissulega að tryggja stöðugan rekstur og leggja upp með ábyrga fjármálastefnu en um leið þarf að gæta jafnvægis og treysta innviðina með því að fjárfesta í velferð fyrir alla. Velferð íbúa hvar sem þeir standa óháð lífsgæðum má aldrei stefna í hættu því þar liggur jú skylda hvers sveitarfélags að tryggja öryggi og festu fyrir íbúa ekki síður en öryggi og festu í rekstri.

Ný stjórn Garðabæjarlistans kosin á Aðalfundi

Aðalfundur Garðabæjarlistans var haldinn 27.október 2018. Þar var farið yfir viðburðaríkt upphafstímabil framboðsins og starfið í nefndum, bæjarstjórn og bæjarráði.

Ný stjórn Garðabæjarlistans var einnig kosin. Stjórnina skipar öflugur hópur fólk sem hefur tekið þátt í að móta stefnu listans frá upphafi. Verkefni nýrrar stjórna er að leiða starfið áfram með það að markmiði að Garðabæjarlistinn haldi áfram að vaxa og tryggi þá stöðu sem hann hefur í dag sem öflugt, trúverðugt afl sem vill gera gott samfélag enn betra með gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð að leiðarljósi.

 Ný stjórn: Gunnar, Valborg, Guðlaugur, Þorbjörg og Baldur.

Ný stjórn: Gunnar, Valborg, Guðlaugur, Þorbjörg og Baldur.