Tillaga á bæjarráðsfundi

Garðabæjarlistinn lagði fram tillögu á bæjarráðsfundi síðasta þriðjudag þar sem, áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, er mótmælt og hvatt til þess að Garðabær skili inn umsögn sem styður frumvarpið. Réttindi barna í fyrsta sæti. 
Erindið allt er til umsagnar í viðeigandi nefndum.

tillaga.jpg

Bæjarstjórnarfundur 4.10.2018

Fimmti bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 4.október og hann sátu Sara, Harpa og Valborg.

Skipulag fyrir Lyngás var samþykkt þar sem í fyrsta áfanga eiga að rísa 250-300 íbúðir með sérstakri áherslu á ungt fólk.

Garðabæjarlistinn hélt umræðunni um systkinaafsláttinn í íþróttum á lofti með tillögu sem vísað var til úrvinnslu í fjárhagsáætlunargerð.

Einnig studdi Garðabæjarlistinn ósk Miðflokksins til seturétts í nefndum en óskinni var hafnað af meirihlutanum.

Sameiginleg tillaga beggja framboða var lögð fram þess efnis að hefja átak í minni plastnotkun í bæjarfélaginu.

Sara Dögg ræddi stöðu fatlaðs fólks og hvatning, ásamt bókun til bæjarstjórnar um úttekt á ferðaþjónustu fatlaðra var lögð fram og tók meirihlutinni afar vel í þá hvatningu.

Tillaga Garðabæjarlistans:

Systkinaafsláttur til meðferðar inn í fjárhagsáætlunargerð

Flutningsmaður Harpa Þorsteinsdóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að það verði gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið Systkinaafsláttur í íþrótta- og tómstundastarf við fjárhagsáætlunargerðina og styðja þannig frekar við barnafjölskyldur til þess að mæta kostnaði við að innleiða systkinaaafslátt.

Greinagerð

Við leggjum áherslu á mikilvægi þess að sú tillaga sem áður hefur verið lögð fram um systkina- eða fjölgreinaafslátt verði tekin áfram til úrvinnslu. Það er mikilvægt að farið verði í þá vinnu að finna flöt á því með hvaða hætti er hægt að styðja við barnafjölskyldur sem og ekki síður að sýna í verki að Garðabær leggur metnað í að fylgja eftir sáttmála um heilsueflandi samfélag á sem flestum sviðum.

Það er ljóst að til að mynda Stjarnan ein og sér getur ekki staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af því að veita systkinaafslátt miðað við núverandi rekstrargrundvöll og því mikilvægt að það sé gert ráð fyrir að leitað verði leiða til þess að mæta barnafjölskyldum sem bera mikinn kostnað af íþrótta- og tómstundaiðkun barna sinna.

Með þessum hætti erum við að styrkja börnin í bænum við að iðka íþróttir, létta undir með barnafjölskyldum og vinna í að efna kosningaloforð sem var lagt fram af báðum þeim framboðum sem sitja hér við borðið. Þannig er ríkuleg ástæða að gera ráð fyrir þeim kostnaði sem það kann að hafa í för með sér.


Bæjarstjórnarfundur 20.9.2018

Fjórði bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 20.september og hann sátu Sara, Ingvar og Valborg.

Fulltrúar Garðabæjarlistans ítrekuðu beiðni listans um að minnihlutinn fái að koma að gerð fjárhagsáætlunar fyrr en vaninn er. Meirihlutinn hefur ólíka sýn á þörfinni fyrir því en Garðabæjarlistinn lagði fram eftirfarandi bókun:

Vegna vinnu við forsendur fjárhagsáætlunargerðar.

“Garðabæjarlistinn hafnar alfarið þeim vinnubrögðum meirihlutans sem viðhöfð eru við vinnu á forsendum fyrir fjárhagsáætlunar og þeim rökum um að lýðræðisegum vinnubrögðum se fullnægt með fyrrgreindu ferli og ítrekar ósk minnihlutans um aðkomu allra bæjarfulltrúa að þeirri vinnu þ.e. að allir fulltrúar bæjarstjórnar sameinist um þær forsendur sem lagðar eru fram við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni.”

Fulltrúar Garðabæjarlistans lögðu fram 3 tillögur til fjárhagsáætlunar árið 2019. Tillaga um gjaldfrjálsan tómstundabíl og tillaga um stofnun Sköpunarmiðstöðvar voru samþykktar samhljóða og vísað til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Meirihlutinn er á því að frístundabíll eigi ekki að vera gjaldfrjáls um sé að ræða mikla þjónustu og umsvifamikila þar sem sífellt er verið að auka við þá þjónustu með því að bæta inn akstursleiðum. Tillögu var vísað inn í bæjarráð sömuleiðis var tillögu um menningarhús vísað áfram í bæjarráð til umfjöllunar og vilja til að tengja hana við þá vinnu sem þegar er verið að vinna um menningarhús. Þriðja tillagan var um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar. Sú tillaga var því miður felld með 8 atkvæðum gegn þremur.Tillögunni var hafnað með rökum um aukinn kostnað, vanköntum á slíku fyrirkomulagi sem er talinn liggja í minni sveigjanleika fyrir starfsfólk og ekki síst vegna þess að ennþá séu engin gögn því til staðfestingar að þau tilraunarverkefni sem hafa verið sett af stað séu að gefa öllum hlutaðilum góða niðurstöðu.  Það eru okkur mikil vonbrigði að Meirihlutinn hafi ekki viljað taka þessa tillögu lengra enda teljum við að stytting vinnuvikunnar ýti undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa tillögur Garðabæjarlistans.

Tillögur Garðabæjarlistans

Tillaga Garðabæjarlistans til fjárhagsáætlunar 2019 um gjaldfrjálsan tómstundabíl. Flutningsmaður: Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu til fjárhagsáætlunar þess efnis að Garðabær bjóði upp á gjaldfrjálsan tómstundaakstur fyrir börn.

Greinargerð

Miklilvægt er að tryggja öllum börnum í Garðabæ jafna aðgang að tómstundum sem eru í boði í bænum. Með því að hafa tómstundaakstur gjaldfrjálsan gefst börnum tækifæri á að sækja sem flestar tómstundir. Mikilvægt er í nútímasamfélagi að jafna aðgang fyrir börn að tómstundum og fækka ferðum foreldra á einkabílum eins g kostur er. Garðabæjarlistinn telur að með þessum hætti sé hægt að koma til móts við þarfir fjölskyldna í Garðabæ.

Tillaga Garðabæjarlistans um stofnun Sköpunarmiðstöðvar (Menningarhús)

Flutningsmaður: Valborg Ösp Árnadóttir Warén

Garðabæjarlistinn leggur til að komið verði á fót Sköpunarmiðstöð eða Menningarhúsi. Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni svo að hægt verði að hefja undirbúning fyrir byggingu húsnæðis undir starfsemina og á meðan verði fundin viðunandi aðstaða hið fyrsta.

Garðabær á að vera lifandi bær þar sem hugvit fær að blómstra og því er nauðsynlegt að viðunandi aðstaða sé í bænum þar sem  ungt fólk sem og aðrir geti nýtt sér til að sinna ný – og listsköpun.

Garðabæjarlistinn leggur til að Íþrótta-og tómstundaráð, ásamt menningarnefnd móti hugmyndir að sköpunarmiðstöðinni og njóti til þess fulltingis Ungmennaráðs Garðabæjar.

Greinagerð.

Fjölbreyttir valkostir í tómstundastarfi ýta undir vellíðan. Til þess að sem flestir finni áhugamál við sitt hæfi er nauðsynlegt að koma á fót miðstöð eða aðstöðu fyrir list og nýsköpun hér í bæjarfélaginu.

Tillaga Garðabæjarlistans um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki Garðabæjar

Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

 Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn samþykki að stefna að því að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins.

Garðabæjarlistinn gerir það að tillögu sinni að nú við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár verði gert ráð fyrir fjármagni til þess að setja af stað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að ná fram því markmiði að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins úr 40 klst vinnuviku niður í 35 klst vinnuviku eða 1 klst á hvern virkan vinnudag.

Garðabæjarlistinn leggur til að forgangsraðað verði með þeim hætti að fyrst verði horft til starfsfólks á leikskólum bæjarins þar sem farið verði í samvinnu við stjórnendur að rýna í slíkt fyrirkomulag er varðar skipulag slíkrar aðgerðar.

 Greinargerð

Starfsumhverfi leikskóla er einn af þeim vinnustöðum þar sem áreitið er mikið og álag mikið á starfsfólki. Vinnumhverfið er þess eðlis að starfsfólk er mjög bundið við það mikilvæga verkefni að sinna börnum sem liggur í hlutarins eðli að gefur lítið sem ekkert svigrúm til þess að taka hlé frá störfum í amstri dagsins líkt og við getum ímyndað okkur að starfsfólk til að mynda sem vinnur við skrifstofustorf hefur tækifæri til.

Við viljum öll búa sem allra best að börnum á leikskólaaldri og í því felst að starfsumhverfið sé aðlaðandi og eftirsóknarvert. Stytting vinnuvikunnar hefur sýnt sig á fleiri en einum stað að kalli fram meiri starfsánægju en ekki síður virðist slík aðgerð skapa stöðugleika í viðveru sem skapar um leið festu og og öryggi fyrir börn og minni kostnað við afleysingar.

Að ýta undir betri aðbúnað kvennastétta er eitt af því sem Garðabæjarlistinn leggur ríka áherslu á í stefnu sinni samhliða áherslum þess efnis að leiðrétta kjör kvennastétta. Stytting vinnuvikunnar ýtir undir betri lífsgæði með tilliti til starfsánægju sem ýtir undir betri andlega líðan.

Styttum vinnuvikuna

Styttum vinnuvikuna í Garðabæ

Stytt­ing vinnu­vik­unnar hefur mikið verið til umfjöll­unar und­an­farin miss­eri og hafa t.d. Reykja­vík­ur­borg og Hjalla­stefnan á leik­skóla­stigi sett slíkar til­raunir af stað með starfs­fólki sínu. Þær hafa leitt í ljós að full ástæða er til að halda áfram á þeirri braut og festa í sessi slíkt fyr­ir­komu­lag.

Bæjarstjórnarfundur 6.september 2018

Tillögur Garðabæjarlistans.

Þriðji bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 6.september og hann sátu Sara, Ingvar og Harpa.

Sara Dögg lagði fram tvær tillögur, sú fyrri snéri að víðtækara samráði og samvinnu milli meirihluta og minnihluta. Sú seinni var tillaga um að meirihlutinn myndi leggja fram áætlun um forrangsröðun stefnumála.

1. Tillaga Garðabæjarlistans um víðtækara samráð og samvinnu. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu um aukið samráð og samvinnu meiri- og minnihluta í allri vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins. Þannig að fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn sitji alla vinnufundi allt frá upphafi ferlisins til loka þar með talið fundi með sviðsstjórum.

Greinargerð

Víðtækt samráð og samvinna eru þættir sem kallað er eftir í samfélaginu öllu. Að unnið sé að því markvisst að fá fram ólík sjónarhorn og áherslur í vinnu sem við kemur öllum íbúum telur Garðabæjarlistinn afar góða skýrskotun í slíkt ákall. En ekki síður að slík vinnubrögð séu afar farsæl leið til að skapa víðtækan samhljóm frá áætlunargerð kjörinna fulltrúa til stjórnsýslunnar þ.e. til þeirra sem leiða pólitískar áherslur til framkvæmda. Með því að hafa alla kjörna fulltrúa við borðið frá upphafi við vinnu eins og fjárhagsáætlunargerð sem snertir okkur öll þegar til framkvæmda kemur er frábært tækifæri til ennþá lýðræðislegri vinnubragða sem um leið ýtir enn frekar undir víðtæka sátt um þær áherslur sem liggja fyrir. Við erum öll kosin til þess að leiða Garðabæ áfram veginn. Slíkt skiptir máli þegar ráðstafa á fjármunum úr sameiginlegum sjóðum. Því hvetur Garðabæjarlistinn til þessarar nýbreytni í vinnulagi bæjarstjórnar í Garðabæ. Nútímalegri vinnubrögð þar sem ýtt er undir enn frekari sátt og forsendur til öflugs starfs í þágu allra íbúa í alvöru samvinnu allra kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn.

2. Tillaga Garðabæjarlistans um framsetningu forgangsröðunar stefnumála meirihlutans. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að meirihlutinn leggi fram áætlun um forgangsröðun stefnumála sinna fyrir hvert starfsár kjörtímabilsins.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á frekari samvinnu í bæjarstjórn. Einn liður í því er að leggja til að meirihlutinn leggi fram áætlun um forgangsröðun stefnumála sinna fyrir hvert starfsár kjörtímabilsins. Þannig má efla og treysta samstarf allra kjörinna fulltrúa en ekki síður gefa minnihluta meira svigrúm til þess að koma að þeim verkefnum sem fyrirhuguð eru og um leið nýta þá þekkingu og sýn sem fylgir því að fá fleiri að málum hverju sinni.  

Tillögum okkar var vísað í bæjarráð með þeim orðum að nú þegar væri víðtækt samráð allra og þar fyrir utan að lýðræði snérist ekki um hvernig bæjarstjórn ein og sér hagaði störfum sínum. Heldur einmitt að íbúar hefðu tækifæri til að hafa skoðun og leggja inn athugasemdir.

Hér sjáum við hvernig víðtækt samráð meirihlutans birtist.

mynd.jpg

Aðkoma minnihlutans er á seinni stigum þ.e. þegar búið er að teikna upp stóru myndina og meira og minna ákveða hvernig verði forgangsraðað. Lýðræðislega nálgunin er að minnihlutinn fær tækifæri til að koma með athugasemdir á seinni stigum sem er meira í líkingu við átakapólitík en nokkru sinni samráðspólitík.

Fulltrúar Garðabæjarlistans munu fylgja þessu eftir í bæjarráði.

Virkjum lýðræðið

Aukið samstarf - virkara lýðræði!

Eitt af lykil stefnu­málum Garða­bæj­ar­list­ans er að virkja lýð­ræðið og vinna að gagn­særri stjórn­sýslu. Við viljum að Garða­bær verði leið­andi í lýð­ræð­is­legum vinnu­brögðum með fjöl­breyttum hætti en ekki síður leggjum við áherslu á víð­tækt sam­ráð og aukna sam­vinnu, þar sem unnið er mark­vissar að því að tryggja aðkomu allra kjör­inna full­trúa að þeirri stefnu sem markar fram­kvæmd­ir.

Bæjarstjórnarfundur 16.ágúst 2018

Tillögur Garðabæjarlistans

Annar bæjarstjórnarfundur var fimmtudaginn 16.ágúst og hann sátu Sara, Ingvar og Valborg.

Garðabæjarlistinn kemur vel undirbúinn eftir sumarfrí og lagði fram fjórar tillögur.

Sú fyrsta fjallaði um launakjör og bílahlunnindi bæjarstjóra. Ingvar talaði fyrir tilllögunni sem var felld af Meirihlutanum. Næstu þrjár tillögur Garðabæjarlistans voru samþykktar samhljóma af Bæjarstjórn og voru vísaðar til Bæjarráðs til frekari umfjöllunar.

Hér fyrir neðan koma tillögur Garðabæjarlistans.

1. Breyting á ráðningarsamningi bæjarstjóra. Flutningsaðili: Ingvar Arnarson

Garðabæjarlistinn leggur til að 5. grein samnings sem fjallar um bifreiðahlunnindi bæjarstjóra verði felld út.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn telur að hér sé um óþarfa aukakostnað fyrir skattgreiðendur í Garðabæ og að launagreiðslur til bæjarstjóra dugi vel fyrir rekstri á bifreið.

Varatillaga ef fyrri tillaga er felld

Breyting á ráðningarsamningi bæjarstjóra

Garðabæjarlistinn leggur til að 5. grein samnings sem fjallar um bifreiðahlunnindi bæjarstjóra verði breytt í eftirfarandi: Garðabær lætur bæjarstjóra í té rafmagns bifreið vegna starfsins og greiðir af henni allan rekstrarkostnað. Bæjarstjóra eru heimil einkaafnot af bifreiðinni og greiðir skatta vegna þeirra samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um hlunnindamat.

Greinargerð

Garðabæjarlistinn telur mikilvægt að fylgja umhverfisstefnu bæjarins og sé mikilvægt að breyta þessari grein. Við viljum að bæjarstjóri fari fyrir með góðu fordæmi og noti umhverfisvænan samgöngumáta.

 Garðabæjarlistinn leggur til að 9. grein samnings verði breytt í eftirfarandi: Laun samkvæmt 2. tl., skulu greidd í sex mánuði eftir að starfi lýkur.

Greinagerð:

Það er nokkuð ljóst að yfirvinnu þarf ekki að greiða eftir að starfi lýkur og teljum við í Garðabæjarlistanum að þarna sé óvarlega farið með skattpening Garðbæinga.

2. Gagnsærri stjórnsýsla. Flutningsaðili: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn feli yfirmönnum bæjarfélagsins alfarið um að taka ákvarðanir um launað námsleyfi almennra starfsmanna Garðabæjar í hvaða formi sem sótt er um slíkt í samráði við mannauðstjóra og fjármálasvið bæjarins.  

Þannig verði horfið frá því að kjörnir fulltrúar komi með beinum hætti að aðstöðu einstakra starfsmanna. Garðabæjarlistinn leggur því til samhliða þessari breytingu að í fjárlögum sé gert ráð fyrir fjármagni í endurmenntun almennra starfsmanna.

Garðabæjarlistinn leggur fram reikniaðgerð með tillögunni sem leiðir til þess að það liggi fyrir hvaða fjárveiting er í boði ár hvert til að mæta slíkum umsóknum og óþarft að ákvörðun um starfskjör einstaka starfsmanna fari fyrir kjörna fulltrúa.

Greinargerð

Tillaga Garðabæjarlistans er hluti af áherslu á gagnsærri og faglegri stjórnsýslu þar sem m.a. kjörnir fulltrúar eru ekki að fara með ákvarðanir sem auðvelt er að setja inn í ferla stjórnsýslunnar með skýrum reglum um framkvæmd. Þess vegna leggjur Garðabæjarlistinn til að bætt verði við núverandi reglur í starfsmannastefnu, um hvernig sí og endurmenntun er fjármögnuð og hvernig úthlutun fer fram. Það er mikilvægt að það sé gert með miðlægum hætti til að tryggja jafnræði milli starfsmanna óháð því hvar þeir starfa. Og um leið að gera beina aðkomu kjörinna fulltrúa óþarfa með sterkri og faglegri stjórnsýslu.

Framkvæmd og fjármögnun

Á fjárhagsáætlun hvers árs skal bæjarstjórn marka fjárheimildir til sí- og endurmenntunar starfsmanna. Stefnt skal á að sú fjárhæð nemi um 0,7% af áætluðum launum og launatengdum gjöldum sveitarfélagsins viðkomandi ár, að frádregnum lífeyrisskuldbindingum. Ákvörðun um hlutfallið skal bæjarstjórn taka árlega við gerð fjárhagsáætlunar og bóka í fundargerð.

Fjármagnið skal nýta til greiðslu beins kostnaðar vegna námsins, svo sem námskeiðs- og ráðstefnugjalda, kaupa á fræðsluefni og leigu á aðstöðu til námskeiðahalds. Utan við fjármögnun sjóðsins er kostnaður vegna ferða og gistingar starfsmanna.

3. Félagslegt húsnæði – stefnumótunarvinna. Flutningsaðili: Valborg Á Warén

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn setji af stað stefnumótunarvinnu varðandi félagslegt húsnæði og úr verði stefna Garðabæjar í vegna húsnæðisvanda fyrir fólk í almennum og sértækum úrræðum svipað og Reykjavíkurborg hefur þegar gert. Að Garðabær verði í fararbroddi og öðrum sveitarfélögum fyrirmynd er eitthvað sem ætti að stefna að. Lagt er til að fari fram greining á núverandi stöðu, þörfinni til framtíðar og hvernig forvarnir þurfa að vera til staðar og einnig þarf að vera til staðar neyðarúrræði þegar uppkoma aðstæður sem krefjast snöggrar afgreiðslu. Enn fremur að skoðuð verði markmið og framtíðarsýn og hvert sé lögbundin hlutverk Garðabæjar og að hvaða leiti bæjarfélagið vill ganga lengra sem og verði mótuð samskipti við önnur sveitarfélög við úrlausn mála utangarðsfólks og að skýrt sé tekið á hlutverki Garðabæjar í þessum málaflokki.

Garðabæjarlistinn leggur enn fremur til að samhliða stefnumótun fari fram greining á því hvers vegna þeir 44 einstaklingar sem hófu umsóknarferli fyrir félagslegu húsnæði á síðasta kjörtímabili fluttu úr sveitarfélaginu áður en umsóknarferli lauk. Að fari fram greining á því hversu langur biðtíminn er og hvernig hægt sé að stytta hann því skv. umboðsmanni er biðtími eftir félagslegu húsnæði of langur. Þó að efnið eigi að meginstefnu við um Reykjavíkurborg þá eigi það líka við um önnur sveitarfélög.

Greinargerð

Það er ótækt að ekki sé til stefna um hvernig eigi að bregðast við þeirri þörf sem er til staðar fyrir félagsleg húsnæði né framtíðarsýn. Biðlistinn eftir slíku úrræði er langt frá því að vera langur eða óyfirstíganlegur. Umfang slíks úrræðis eins og það er í dag í sveitarfélaginu getur seint talist Garðabæ til tekna. Garðabæjarlistinn telur mikilvægt að gera þar bragabót á sem allra fyrst. Nýútkomin umrædd skýrsla umboðsmanns Alþingis um stöðu heimilslausra í Garðabæ kallar ekki síður á skjót viðbrögð þess efnis að sett verði af stað vinna við að gera markvisst betur í húsnæðismálum þeirra sem þurfa á félagslegu úrræði að halda og um það megi finna stefnu og framkvæmdaráætlun til framtíðar. Slíkt getur komið fyrir okkur öll og Garðabæjarlistinn telur það vera forgangsmál fyrir Garðabæ sem og önnur sveitarfélög.

Mikilvægt er að viðunandi neyðarúrræði sé til staðar í bæjarfélaginu á meðan beðið er eftir varanlegu úrræði. Þessi aðstoð verður að fullnægja lágmarkskröfum stjórnarskrár og má ekki vera hugsuð til langtíma. Þetta á m.a. við þegar aðstoð felst í því að sá sem þess þarf eigi kost á húsnæðisúrræði til úrlausnar á húsnæðisvanda sínum. Hafi sveitarfélag ákveðið að nýta svigrúm sitt til að útfæra aðstoðina með öðrum hætti s.s. með fjárhagsaðstoð, lánveitingum eða framboði af félagslegum eignaríbúðum, verða úrræðin sem gripið er til einnig að vera til þess fallinn að tryggja efnislegan lágmarksrétt. Garðabæjarlistinn vill úttekt á því hvort allir íbúar sem þurfi á félagslegum úrræðum að halda hjá Garðabæ hafi tryggðan lágmarksrétt. Og stefna sett til framtíðar hvernig tryggja skal þann rétt.

Í áliti umboðsmanns segir ennfremur að sveitastjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf sé á, tryggja framboð á leiguhúsnæði, félagslegum kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrgðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Garðabæjarlistinn leggur til að gerð verði úttekt og greint fyrir stefnumótun fyrir málaflokkinn hvort Garðabær uppfylli þessi skilyrði.

4. Hinsegin fræðsla - heilsueflandi samfélag. Flutningsmaður: Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn óski eftir gerð þjónustusamnings við Samtökin ‘78 um hinsegin fræðslu sem nýtist sem flestu starfsfólki Garðabæjar og um leið börnum og ungmennum. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á tvenns konar inntak samnings. Annars vegar markvissa hinsegin fræðslu til ungmenna á grunnskólastigi og hins vegar almenna fræðslu fyrir starfsfólk Garðabæjar þar sem starfsfólki leik- og grunnskóla er veitt sérstök fræðsla en einnig þar sem boðið verður upp á hinsegin fræðslu fyrir allt starfsfólk. Uppræting fordóma er eina leiðin til þess að hinsegin fólk njóti öryggis í samfélaginu. Garðabæjarlistinn vill að markviss hinsegin fræðsla verði eitt þeirra markmiða sem falla undir heilsueflandi samfélag, enda er andleg líðan stór og mikilvægur þáttur góðrar heilsu.

Greinagerð

Mannréttindi eru ekki sjálfsögð. Þetta veit hinsegin fólk, sem hefur barist fyrir réttindum sínum áratugum saman. Á Íslandi hefur mikill árangur náðst í þeirri baráttu, þótt enn sé langt í land á mörgum sviðum. Þrátt fyrir breytta tíma mætir hinsegin fólk enn fordómum og jafnvel andúð í samfélaginu. Nýlegar rannsóknir, m.a. á Íslandi, sýna að hinsegin ungmenni eru líklegri til þess að glíma við kvíða og þunglyndi auk þess sem þau íhuga frekar að skaða sig og að stytta sér aldur. Þessi staða er óásættanleg og Garðabær er í góðri aðstöðu til þess að leggja sitt af mörkum til þess að bæta líðan barna og ungmenna í bænum og jafnframt stuðla að opnara, fordómalausara og heilbrigðara samfélagi.

Fræðsla upprætir fordóma. Hinsegin fólk sem fær eindreginn stuðning frá fjölskyldu og nærsamfélagi á mun auðveldara uppdráttar en þau sem mæta mótlæti. Fræðsla um hinsegin mál er mikilvæg fyrir allt samfélagið, en ekki síst fyrir hinsegin ungmenni, hinsegin foreldra, börn hinsegin fólks og aðra aðstandendur, kennara, leiðbeinendur og aðra sem þjónusta þessa hópa. Hinsegin fræðsla kemur öllum þessum hópum vel. Bæði eykur það lífsgæði hinsegin fólks að það sé almenn meðvitund um málefni þeirra í nærsamfélaginu, en jafnframt eykur það öryggi fagfólks til þess að takast á við málefni sem eru þeim e.t.v. framandi.

Hinsegin málefni eru flókin og margslungin auk þess sem þau eru síbreytileg. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að þau sem koma að fræðslu um hinsegin mál séu sérfræðingar. Garðabæjarlistinn leggur einnig áherslu á það að hinsegin fræðsla þarf að eiga sér stað óháð viðhorfum einstaka stjórnenda. Það má ekki vera minnsti möguleiki á því að fordómar nái að leita sér skjóls. Hinsegin fræðsla hefur hingað til verið valkvæð í skólum Garðabæjar, en það þýðir að færri fá notið hennar en ella. Við teljum að hinsegin fræðsla eigi erindi við öll ungmenni og allt starfsfólk bæjarins. Garðabæjarlistinn vill að Garðabær lýsi yfir fullum stuðningi yfir réttindabaráttu hinsegin fólks og sýni í verki að við tökum hinsegin fræðslu alvarlega. Með því að óska eftir þjónustusamningi við Samtökin ‘78 sendum við skýr skilaboð um að Garðabær sé upplýst samfélag þar sem öllum manneskjum er sýnd virðing.

 

Við erum þakklát fyrir stuðninginn sem okkar tillögur hafa fengið og hlökkum til að vinna þær enn frekar í nefndum og ráðum Garðabæjar.

 

Hinsegin fræðslu Í Garðabæ

Betra hinsegin líf - vilji er allt sem þarf - Vísir

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar 40 ára afmæli Samtakanna 78 er fagnað í ár. Samtökin - og allir þeir einstaklingar sem þar hafa lagt hönd á plóginn - hafa unnið þrotlausa vinnu í þágu hinsegin fólks, til betri lífsgæða til framtíðar. Umhverfið var Samtökunum 78 oft andstætt í því starfi, en þau héldu ótrauð áfram.

Tölum um lýðræðið

Með lýðræðið fara þeir sem valdið hafa - Vísir

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar Það er alltaf áhugavert viðfangsefni að fjalla um lýðræðið og þær fjölbreyttu aðferðir sem við sem samfélag getum beitt í nafni lýðræðisins. Frá fyrsta bæjarstjórnarfundi nýrrar bæjarstjórnar Garðabæjar er ýmislegt sem bendir til þess að mikill vilji sé fyrir öflugu samráði allra bæjarfulltrúa.