Grunnskólinn og framtíðin

Sara Dögg skrifar um grunnskólana:

Um leið og ég fylgist með því hvernig ýmsar greinar atvinnulífsins takast á við þá byltingu í þróun starfa skima ég eftir fréttum af því hvernig grunnskólinn er að undirbúa nemendur sína undir þann veruleika sem blasir við þegar grunnskólanum sleppir. Af grunnskólanum virðist hins vegar fátt að frétta, þar virðist fólk ekki enn fagna komandi byltingu með eftirvæntingu og nýjum námsleiðum. Kerfið fetar áfram sinn varfærnislega veg.

Við sjáum þó einstaka frumkvöðla, ákafa einstaklinga, sem láta sig málið varða fullir ástríðu og trú á að það sé hægt að breyta nútímanum og teygja sig inn í framtíðina án ótta við hið óþekkta. Þeir gefa okkur von um og trú á að það sé hægt að gera betur og grunnskólinn þurfi ekki að vera sú stofnun sem alltaf hreyfist hægast og síðast allra í glímunni við nútímann og framtíðina.

En hvers vegna höfum við eingöngu val um að starfa innan kerfis sem hreyfist svo hægt sem raun ber vitni og hræðist svo hið óþekkta? Hvers vegna gerum við kerfið ekki þannig úr garði að þar séu fleiri valkostir um leiðir í uppbyggingu menntunar á grunnskólastigi? Ýtum undir nýsköpunina og byggjum upp eftirsóknarverðan starfsvettvang þar sem augljóst er að ýtt er undir nýsköpun og framþróun menntunar. Eitthvað sem laðar ungt og skapandi fólk að til starfa.

Hvers vegna gerum við frumkvöðlum ekki hærra undir höfði og vinnum að því að stækka hópinn og styrkjum þannig stoðirnar undir faglega þekkingu til þess að takast á við nútímann, að ekki sé talað um blessaða framtíðina? Um leið og við horfum til eldhuganna horfum við upp á grunnskólann, sem leggur ofuráherslu á að börn skuli draga rétt til stafs og ná réttu gripi á blýantinn, á meðan eldri kynslóðir eru svo til hættar að nýta blýantsfærnina, nema þá einna helst til að setja krafs á blað sem seinna er yfirfært á tölvutækt form. Vélritunarfærnin sem æfð hefur verið í grunnskólum um mannsaldra er hins vegar eitthvað sem nýtist okkur öllum sem lifum í nútímanum.

Það væri svo ótrúlega spennandi og hvetjandi fyrir svo marga ef við brettum upp ermar, fáum fleiri á vagninn, sköpum raunverulegt val í námi og tökum markvissa stefnu inn í framtíðina með þeim sem þar verða í forsvari, börnum og ungmennum nútímans.

Áfram veginn - til framtíðar.

sara.JPG

Bæjarstjórnarfundur 2.febrúar 2019

Það var nóg að gera hjá okkar fólki á bæjarstjórnarfundinum 2.febrúar.

Harpa Þorsteinsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

“Tillaga um að gerð verði könnun meðal eldri borgara varðandi nýtingu á þeirri heilsurækt sem er í boði í Garðabæ.

Við í Garðabæjarlistanum leggjum til að gerð verði könnun á því hvernig eldri borgarar í Garðabæ eru að nýta sér þá heilsurækt sem í boði er með það að markmiði að fá betri yfirsýn yfir það hvernig hægt sé að mæta þörfum allra íbúa. Markmiðið væri að greina hvaða hópur eldri borgara er að nýta þá þjónustu sem nú þegar er til staðar, hversu hátt hlutfall kýs að leita annað og borga þá þjónustu að fullu og þá er mikilvægt að greina þann hóp sem ekki nýtir sér nein úrræði og af hverju.
Greinargerð
Heilsurækt fyrir eldri borgara þarf að vera fjölþætt, hvetjandi og aðgengileg fyrir íbúa 65 ára og eldri. Um er að ræða stækkandi hóp samfélagsins og má gera ráð fyrir aukinni eftirspurn og öðrum útfærslum sem þarft er að bregðast við. Með því að greina notkunina á þeirri heilsurækt sem stendur íbúum til boða og þann hóp sem ekki nýtir sér þau úrræði fáum við skýrari mynd af því hvernig hægt er að svara eftirspurn og þannig stuðla að heilsueflingu og aukinni virkni eldra fólks. Það er ábyrgð þeirra sem fara með stjórn í sveitarfélögum að finna leiðir til þess að sem flestir íbúar geti viðhaldið góðri heilsu “

Tillagan fékk góða umræðu og var vísað áfram til frekari umræðu hjá Íþrótta - og tómstundaráði.

Ingvar Arnarson lagði fram fyrirspurn þar sem óskað er eftir upplýsingum um kaup á vöru og þjónustu frá stærstu birgjum á árinu 2018.

Valborg Ösp Á. Warén lagði fram fyrirspurn um niðurgreiðsla á mat til eldri borgara

Óskað er eftir upplýsingum er varðar fyrirkomulag um niðurgreiðslu á fæði til eldri borgara í Garðabæ.

-       Hversu há er niðurgreiðsla á fæði til eldri borgara í Garðabæ ?

-       Ef niðurgreiðslan er engin, hver er ástæða þess ?

Bæjarstjóri svaraði báðum fyrirspurnum munnlega. Sú fyrri þótti góð enda nauðsynlegt að fara í úttekt reglulega þó að hlutirnir væru allir í stakasta lagi.

Seinni fyrirspurnin þótti undarleg þar sem stóra spurningin væri sú, samkvæmt bæjarstjóra, “af hverju ætti að greiða niður mat til eldri borgara ?”. það verður áhugavert að fá svör og bera saman við nágrannasveitarfélögin.

glogo.PNG

Leikskólagjöld

Ákvörðun leikskólagjalda

Um áramótin voru leikskólagjöld hækkuð í Garðabæ þannig að núna eru þau orðin hæst á öllu landinu. Munurinn er 146 þúsund krónur á ári þegar við berum saman gjaldskrá Garðabæjar við þá lægstu. Upphaflegar hugmyndir núverandi meirihluta var skarpari hækkun en Garðabæjarlistinn lagði til óbreytta verðskrá á milli ára.

Við teljum þessa hækkun andstæða bókun bæjarstjóra við samþykkt fjárhagsáætlunar 2019 þann 6. desember 2018, sem segir að áætlunin beri vott um ábyrga fjármálastjórn þar sem íbúum er áfram boðin góð þjónusta og lækkun álagna. Við viljum ábyrga fjármálastjórn bæjarsjóðs, en hækkun leikskólagjalda ásamt öðrum gjaldskrárhækkunum í landinu er ekki í anda þeirrar lækkunar álagna sem bæjarstjóri vísaði til heldur leggur hún auknar álögur á fjölskyldufólk umfram aðra notendur þjónustu Garðabæjar.

Rök meirihlutans fyrir háum leikskólagjöldum hafa verið að þjónusta leikskólanna í Garðabæ sé mun meiri en leikskóla í öðrum sveitarfélögum. Í því samhengi hefur aðallega verið bent á að yngri börn, allt frá 12 mánaða aldri, eru tekin í leikskólana, sumaropnanir eru í boði á öllum leikskólum og að gæði kennslu séu betri, til dæmis með snemmtækri íhlutun. Við fögnum þessari auknu þjónustu og viljum halda áfram að þróa starf leikskólanna, en gjaldskrá leikskóla verður að taka mið af því að leikskólar í dag eru hluti af stærra samhengi. Þeir undirbúa börnin okkar fyrir 10 ára grunnskólanám, tryggja jöfn tækifæri foreldra til þátttöku á vinnumarkaði og skapa samfélag barna og foreldra í sveitarfélaginu. Þannig viðhöldum við og tryggjum áfram gott samfélag í Garðabæ þar sem mikilvægustu íbúarnir okkar, börnin, fá jafnan aðgang að grunnþjónustu sveitarfélagsins.

Fáum tölurnar

Garðabæjarlistinn hefur kallað eftir því að fá sundurliðun á því hvað það kostar raunverulega að taka börn inn við 12 mánaða aldur, að sinna aukinni þjónustu líkt og snemmtækri íhlutun og hvað það kostar að bjóða upp á sumaropnun leikskóla.

Leikskólinn sem hluti af skólagöngu allra barna

Garðabæjarlistinn lítur á kennslu í leikskóla sem undirbúning fyrir grunnskólann og mikilvægt að við meðhöndlum starf leikskólanna á þann hátt að börnin séu sem best búin fyrir grunnskólana. Þannig miðar allt starf leikskóla við að auka færni og félagslegan þroska, en starf stjórnmálamanna er að sjá heildarmyndina, horfa til samfélagsins sem heildar og viðurkenna að leikskólinn er ein af grunnstoðum fjölskyldna í sveitarfélaginu.

Guðlaugur Kristmundsson og Valborg Warén

Fulltrúar Garðabæjarlistans í Leikskólanefnd Garðabæjar


IMG_3937.jpg

Bæjarstjórnarfundur 17.janúar

Fyrsti fundur bæjarstjórnar var haldin fimmtudaginn 17.janúar.

Garðabæjarlistinn lagði fram eina tillögu um að Garðabær taki í notkun umhverfisvænni bifreiðar. Sú tillaga var samþykkt.

Einnig lögðum við fram fyrirspurn varðandi kosntað við Fjölnota fundarsalinn sem á að taka í notkun á Garðatorgi.

Tillaga Garðabæjarlistans um að Garðabær taki í notkun umhverfisvænni bifreiðar. Flutningsmaður: Ingvar Arnarson

Bæjarstjórn Garðabæjar leggur til að bifreiðum í eigu bæjarins sem brenna jarðefnaeldsneyti verði í áföngum skipt út fyrir bifreiðar sem teljast umhverfisvænni. Á árinu 2019 verði 2-4 bifreiðum í eigu Garðabæjar skipt út fyrir umhverfisvænni og í framhaldinu gerð áætlun um hvernig best sé að skipta út öllum bifreiðum í eigu bæjarins.

Greinagerð

Það er eitt af markmiðum umhverfisstefnu Garðabæjar að Garðabær verði vistvænt bæjarfélag og umhverfið heilnæmt og aðlaðandi. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru í umhverfisstefnu Garðabæjar til að ná því markmiði er að stuðla að notkun minna mengandi farartækja og vistvænna orkugjafa. Með því að skipta út bifreiðum sem brenna jarðefnaeldsneyti er Garðabær að sýna vilja í verki og fara fyrir með góðu fordæmi.

Fyrirspurn um fjölnota fundarsalinn.

Þegar farið er að taka saman kostnað og finna áætlanir sem tengjast kaupum og framkvæmdum við fjölnota fundarsal er erfitt að finna slíkt þ.a.l. legg ég fram eftirfarandi spurningar;

  1. Hvað kostaði húsnæðið sem fjölnota fundarsalurinn er í?

  2. 2. Var gerð kostnaðaráætlun vegna breytingar á húsnæðinu í fjölnota fundarsal?

  3. 3. Hversu há upphæð var áætluð í framkvæmd við breytingar á húsnæðinu?

  4. Hver er heildarkostnaður við framkvæmdir á húsnæðinu? Óskað er eftir sundurliðun kostnaðar.

  5. Hve stór hluti verksins fór í útboð?

  6. Með hvaða hætti hefur verið upplýst um framgang framkvæmda og kostnaðar til kjörinna fulltrúa?

  7. Hver hefur eftirlit og umsjón með framkvæmdinni ?

glogo.PNG

Birtir til í Garðabæ

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum.

Í Garðabæ dregur til tíð­inda í skipu­lags­málum sem varða íbúða­upp­bygg­ingu og þá kosti sem boðið er upp á til búsetu í bæj­ar­fé­lag­inu. Upp­bygg­ingin hefur áhrif á sam­fé­lagið til fram­tíðar þar sem sér­stak­lega er verið að koma til móts við þarfir ungs fólks og allra sem kjósa minni húsa­kost og ódýr­ari. Og um leið tekin hlið­sjón af fjöl­breyttum sam­göngu­máta þar sem einka­bíll­inn er ekki endi­lega í fyr­ir­rúmi. Með þessum upp­bygg­ing­ar­kjörn­um, þ.e. nýju hverfi á Lyng­ás­svæð­inu og úti á Álfta­nesi, er sér­stak­lega horft til þess að Garða­bær laði að sér ungt fólk til búsetu. Gert er ráð fyrir um 400 íbúðum á hvorum stað og ljóst að Garða­bær er að leggja í spenn­andi veg­ferð.  Ef ýta á mark­visst undir fjöl­breytt sam­fé­lag skiptir máli að horft sé til fram­tíð­ar. Til unga fólks­ins sem mun búa í sam­fé­lag­inu, taka þátt í upp­bygg­ing­unni og gera það að verkum að sam­fé­lagið vex og dafn­ar. Það skiptir máli og hefur áhrif á alla sam­fé­lags­gerð­ina.

Þétt­ing byggðar þar sem fók­us­inn er á ungt fólk, fjöl­breyttar sam­göngu­leiðir og ódýr­ara hús­næði gefur einmitt ungu fólki tæki­færi til þess að setj­ast að í Garða­bæ. Ungu fólki með ólíkan bak­grunn og ólíka sýn á lífið sem gefur sam­fé­lag­inu frek­ari tæki­færi til þroska og vaxt­ar. Við í Garða­bæj­ar­list­anum fögnum þessu mjög. Jafn­framt gefst tæki­færi til frek­ari vaxtar leigu­mark­aðar og verður spenn­andi að sjá hvort sam­starf verður tekið upp við leigu­fé­lög til þess að tryggja enn fleiri val­kosti, í takt við áherslur okkar í Garða­bæj­ar­list­an­um. Hér skiptir sam­staða um fjöl­breytt sam­fé­lag máli, hvar í flokki sem staðið er. Bæði upp­bygg­ing­ar­svæðin gefa fjöl­breytt­ari hópi ungs fólks tæki­færi til þess að velja Garðabæ sem sinn heimabæ og það er mikið fagn­að­ar­efni.

Við sem höfum fengið það hlut­verk að fara fyrir sveit­ar­fé­lag­inu berum skyldu til þess að vera ávalt á tánum og horfa til fram­tíð­ar. Þá getur það gerst að við­horf þeirra sem eldri eru þurfi að víkja fyrir fram­tíð­inni, unga fólk­inu. Garða­bær hefur haft þann blæ yfir sér hingað til að þar rísi  stærri og færri hús, þar sem ein­býli eru fleiri en fjöl­býli, byggt er lágt en ekki hátt og meira um víð­áttu en ann­ars væri. Því eru bygg­ing­ar­á­formin nú í raun mun meiri tíð­indi en ella og verður spenn­andi að sjá hvernig íbúa­sam­setn­ingin kemur til með að þró­ast næstu árin með þessa nýju íbúða­kjarna. Um leið er hér verið að gefa ungum Garð­bæ­ingum fær á að að flytja aftur í heima­bæ­inn sinn, en það höfum við í Garða­bæj­ar­list­anum lagt mikla áherslu á.  Sam­hliða ákvörð­unum sem þessum þá skiptir máli að öll grunn­þjón­usta sé með þeim hætti að allir njóti. Fyrir ungt fólk skiptir gott aðgengi að leik- og grunn­skól­um, sem og íþrótta- og tóm­stunda­starfi, miklu máli.

gardabaer.jpg

Gleðileg jól !

listinn.JPG

Jólin eru okkur flestum gleðileg vetrar- eða ljósahátíð sem við höfum skapað hefðir í kring um með fólkinu okkar. Það er sama hvernig við horfum til jólanna, þau eru viss tímamót fyrir okkur öll. Ekki aðeins fer daginn loksins að lengja, heldur skapast tækifæri til þess að líta til baka og sjá hvaða viðburðir standa upp úr. Við horfum líka fram á við til nýrra tíma og þeirra áskorana og viðfangsefna sem nýtt ár færir okkur.

Við í Garðabæjarlistanum getum ekki verið annað en auðmjúk yfir því tækifæri að fá að taka þátt í móta samfélag okkar og að fjölbreyttari raddir heyrist við mótun framtíðarsýnar fyrir bæjarfélagið okkar. Við þökkum traustið sem okkur var sýnt í kosningunum í vor og þökkum fyrir samtalið sem við höfum átt við meirihlutann og bæjarbúa sem eru duglegir að halda okkur við efnið.

Á þessum tímamótum er mikilvægt að við lítum öll vel í kringum okkur og gætum þess að enginn verði eftir. Gleymum því ekki að við stöndum misvel á þessum tímamótum á hverju ári. Fyrir marga geta jólin verið erfiður tími, en jólin eru ekki síður sá tími sem minnir okkur á mikilvægi og fegurð samkenndarinnar. Sem samfélag verðum við að huga vel hvert að öðru og rétta þeim sem þess þurfa hjálparhönd.

Það er einlæg ósk okkar að jólahátíðin verði sem allra best hjá íbúum Garðabæjar. Við í Garðabæjarlistanum horfum með tilhlökkun til þeirra verkefna sem nýtt ár mun færa okkur.


Að lokum óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fulltrúar Garðabæjarlistans


Bæjarstjórnarfundur 20.desember 2018

á síðasta fundir bæjarstjórnar fyrir jól var meðal annars rætt um húsnæðisstefnu Garðabæjar sem er í vinnslu.

Efirfarandi tillaga var lögð fram:

Tillaga Garðabæjarlistans inn í áframhaldandi vinnu við húsnæðisstefnu Garðabæjar. Bæjarstjórnarfundur 20. desember 2018

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Garðabæjarlistinn leggur fram tillögu þess efnis að skýrt sé kveðið á um það í húsnæðisstefnu hvaða leiðir verða farnar til þess að mæta eftirspurn aldurshópsins 20 - 39 ára. Garðabæjarlistinn ítrekar mikilvægi þess að lagt verði upp með alveg skýra valkosti til búsetu þessa aldurshóps. Annars vegar í formi leiguhúsnæðis og hins vegar húsnæðis til kaups með sérstaka áherslu á greiðslubyrgði ungs fólks.

Greinargerð

Í drögum um húsnæðisstefnu Garðabæjar er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að mæta yngsta aldurshópi þeirra sem stofna til eigin heimilis eða hópsins frá 20 - 39 ára. Hins vegar er hvergi staf að finna um stefnu Garðabæjar í þeim efnum. Húsnæðisstefna er gríðarlega mikilvægt plagg sem mótar stefnu til framtíðar um íbúaþróun og samsetningu íbúanna til framtíðar. Því skiptir máli að skýrt sé tekið fram hvaða leiðir á að fara í þeirri uppbyggingu sem framundan er. En í drögunum er einungis að finna þann fjölda íbúða sem liggur fyrir að muni rísa á næstu árum.

Að styðja undir almennan leigumarkað er hvetjandi fyrir ungt fólk sem er að stofna til heimilis í fyrsta skipti. Að hafa val um ódýrt húsnæði til kaups skiptir líka máli en eitt á ekki að útiloka annað. En um þessa tvo valkosti þarf að liggja fyrir áætlun sem ákveðið er að fylgja eftir með markvissum og skilvirkum hætti.

Bókun

Garðabæjarlistinn leggur fram bókun sem hljóðar svo.

Garðabæjarlistinn hafnar því alfarið að svokallaðar aukaíbúðir eins og skilgreindar eru í drögum um húsnæðisstefnu Garðabæjar verði skilgreindar sem valkostur um búsetu í opinberri stefnu bæjarins. Aukaíbúðir eru að megninu til nýttar af fjölskyldumeðlimum og er það vel þar sem því er við komið. En sem hluti af opinberri húsnæðisstefnu gengur það ekki upp í stóra samhenginu þ.e. að tryggja öllum þann valkost að búa í Garðabæ. Því markmiði verður ekki náð með aukaíbúðum stórfjölskyldunnar. Slíkt ýtir fyrst og fremst undir einsleitt samfélag og því hafnar Garðabæjarlistinn

Gres.jpg

Kæru Garðbæingar

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifaði grein í Garðapóstinn 20.desember.

Í Garðapóstinum í dag.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og gæfu á nýju ári vil ég þakka sérstaklega fyrir þann stuðning sem Garðabæjarlistinn fékk í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor. Það er ekki sjálfgefið að nýtt og ferskt framboð hljóti þann stuðning sem raun ber vitni. Ég er í hjarta mínu afar þakklát fyrir það traust og það tækifæri sem það gefur mér og mínu fólki til þess að hafa áhrif.

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans eru hópur sem hefur það eitt að leiðarljósi að leggja sitt af mörkum til að efla bæinn okkar enn frekar. Fullir af eldmóði, samheldni og krafti til að hafa áhrif, með framtíðarsýn og velferð að vopni.

Það skiptir máli að hafa stefnu og sýn til framtíðar, því þannig gefum við samfélaginu okkar svigrúm til að þroskast og dafna. Fjölbreytileikinn vegur þar einna þyngst í mínum huga, því einsleitt samfélag kallar aldrei fram það besta sem samfélag getur boðið upp á. Þess vegna leggjum við áherslu á að ræða öll mál til hlítar, víkka sýnina og leggja áherslu á fjölbreytileikann í sinni víðustu mynd. Við höfum talað mikið fyrir fjölbreyttri íbúabyggð, þar sem allir sem stofni heimili hafi tækifæri til þess að velja Garðabæ. Ekki síst ungt fólk, hvort heldur sem það kýs að leigja eða kaupa eigin húsnæði. Unga fólkið þarf að eiga val og eiga þess kost að þroskast í samfélagi okkar. Við tölum fyrir því að gera betur fyrir barnafjölskyldur, svo velferð þeirra verði sem mest og best.

Það er gott að búa í Garðabæ og þannig á það að vera fyrir alla, óháð stétt og stöðu.

Skipulagsmálin vega þar einna þyngst því skipulagið stýrir íbúabyggðinni og hverjir ná að búa sér framtíð í bænum.

Það er einlæg ósk mín og okkar allra í Garðabæjarlistanum að okkur farnist þetta verkefni vel. Með samtali, samráði og víðsýni náum við bestu niðurstöðunni fyrir alla. Tækifærin eru núna, þar sem verið er að skipuleggja ný svæði og jafnframt þétta þá byggð sem fyrir er. Þá skiptir máli að horfa til allra þátta. Fólk er alls konar og við viljum að það sé allskonar. Líka í Garðabæ.

Megi gleði og friður fylgja ykkur inn í nýtt ár.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Oddviti Garðabæjarlistans

sara.jpg