Sara Dögg Svanhildardóttir, stjórnandi

Sara Dögg Svanhildardóttir, stjórnandi

1. Sara Dögg Svanhildardóttir

Sara Dögg er menntaður grunnskólakennari og skólamál og jafnrétti eiga hug hennar og hjarta. Hún hefur lengst af unnið að nýbreytni í skólakerfinu fyrst sem kennari en síðar sem skólastjóri hjá Hjallastefnunni þar sem hún byggði upp Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði og síðar Vífilsskóla, miðstigsskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ. Þá var Sara Dögg verkefnastjóri yfir grunnskólum Hjallastefnunnar um tíma. Sara Dögg starfaði sem ráðgjafi í menntamálum hjá Tröppu ehf. um skeið og síðar setti hún á legg skólaúrræði fyrir ungmenni með fjölþættan vanda hjá Vinakoti ehf. Áður starfaði Sara Dögg hjá Samtökunum ‘78 sem fræðslustjóri og um tíma sem framkvæmdastjóri samtakanna. Þátttaka í félagsmálum hefur alla tíð togað í. Sara Dögg er gift Bylgju Hauksdóttur og eru þær stuðningforeldrar unglingsstúlku eða öllu heldur sammæður. Sara Dögg er ein fjögurra stofnenda og stjórnenda Arnarskóla sem er nýr skóli fyrir fötluð börn. „Ég vil taka þátt í að virkja lýðræðið í bænum mínum og gera betur í menntun og velferð barna og ungmenna. Þess vegna tek ég sæti á Garðabæjarlistanum.“ 

Invar Arnarson, kennari og varabæjarfulltrúi

Invar Arnarson, kennari og varabæjarfulltrúi

2. Ingvar Arnarson

Ingvar er framhaldsskólakennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Þar hefur hann starfað í 12 ár en áður kenndi hann við Garðaskóla. Ingvar er varabæjarfulltrúi á núverandi kjörtímabili auk þess að sitja í Fjölskylduráði Garðabæjar. Sú nefnd tekst á við erfið og viðkvæm mál sem jafnan hafa hlotið faglega úrlausn. Ingvar hefur sinnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum, jafnt innan skóla sem utan, og situr nú í samninganefnd framhaldsskólakennara.
Ingvar er mikill fjölskyldumaður, kvæntur Petru Vilhjálmsdóttur tannlækni og á fjóra drengi á aldrinum 2-21 árs.
Ingvar hefur lengi verið virkur í stjórnmálum og látið bæjarmálin sig miklu varða. Íþróttir og tómstundir hafa skipað stóran sess í lífi Ingvars. Hefur hann verið virkur þátttakandi innan Stjörnunnar jafnt sem iðkandi, þjálfari og foreldri. Ingvar hefur jafnframt afrekað það að hafa spilað með þremur meistaraflokkum félagsins; í blaki, knattspyrnu og körfuknattleik.
„Ég er mjög metnaðarsamur fyrir hönd Garðabæjar og vil gera góðan bæ enn betri og fyrir sem flesta. Ég vil vinna að góðum málum með uppbyggilegum og jákvæðum hætti.“

Harpa Þorsteinsdóttir, lýðheislufræðingur

Harpa Þorsteinsdóttir, lýðheislufræðingur

3. Harpa Þorsteinsdóttir

Harpa Þorsteinsdóttir er með B.A. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum ásamt meistaragráðu í Lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands. Harpa hefur starfað á leikskóla sem verkefnastjóri samhliða því að spila knattspyrnu með Stjörnunni og íslenska landsliðinu. Hún hefur þrívegis verið kjörin íþróttakona Garðabæjar og hefur hlotið fjölda annarra viðurkenninga fyrir hennar framlag. Hún er uppalin í Garðabæ og er nýflutt aftur í bæinn ásamt unnusta sínum, tveimur sonum og stjúpdóttur. „Ég vil taka þátt í framboði Garðabæjarlistans vegna þess að ég hef mikinn áhuga fyrir því að vinna að því að gera Garðabæ að enn betri fjölskyldubæ með áherslu á lýðheilsumál.“

 
 
Halldór J. Jörgensson, tölvunarfræðingur og bæjarfulltrúi

Halldór J. Jörgensson, tölvunarfræðingur og bæjarfulltrúi

4. Halldór J. Jörgensson

Halldór Jörgensson er með M.Sc. próf í tölvunarfræði, Hann hefur starfað í yfir 20 ár hjá alþjóðlegum hugbúnaðarfyrirtækjum eins og Microsoft, í Evrópu, á Íslandi og víðar og hefur leitt deildir í vöruþróun, viðskiptaþróun, sölu og markaðssetningu. Hann hefur einnig starfað sem ráðgjafi fyrir nýsköpunarfyrirtæki og hjálpað þeim að taka árangursrík skref á erlendum sem innlendum mörkuðum. Hann hefur verið bæjarfulltrúi á núverandi kjörtímabili. Halldór hefur einlæga trú á verðmætasköpun í hugverkageiranum og vill styðja við fjölbreytt tækifæri til atvinnu í Garðabæ sem samræmist menntun íbúanna. Menntun er því einnig eitt af hans hjartans málum þar sem nauðsynlegt er að mennta komandi kynslóðir í samræmi við kröfur framtíðar er en ekki vandamál fortíðar. „Ég tel að lífsgæði einstaklinga ráðist af gæðum nærumhverfisins og eftir því sem það er manneskjulegra og betra verður samfélagið að okkar besta heimili. Virkt íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslu er lykilatriði þess að íbúarnir geti í sameiningu tekið ákvarðanir um sitt eigið umhverfi. Það er mikilvægt að við getum boðið upp á störf sem hæfa öllum, húsnæði fyrir alla aldurshópa ásamt líflegum bæjarbrag.“ 

 
Valborg Ösp á. Warén, stjórnmálafræðingur

Valborg Ösp á. Warén, stjórnmálafræðingur

5. Valborg Ösp á. Warén


Valborg er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og AP gráðu í margmiðlunarhönnun frá Nordic Multimedia Academy í Danmörku. Hún hefur búið í Garðabænum síðan 2012 en er upprunalega frá Egilsstöðum. Valborg hefur síðustu ár starfað hjá færsluhirðafyrirtækinu KORTA sem viðskipta- og markaðsfulltrúi. Valborg er í sambúð með Signý Hlíf Árnadóttur, tómstunda-og félagsmálafræðingi og eiga þær tvö börn, Árna Vilhelm 7 ára og Hildi Birgittu 2 ára.
„Ég vil að Garðabær sé raunverulegur búsetukostur fyrir ungt fólk.“

 
Guðjón Pétur Lýðsson, athafnamaður og íslandsmeistari í knattspyrnu

Guðjón Pétur Lýðsson, athafnamaður og íslandsmeistari í knattspyrnu

6. guðjón Pétur lýðsson

Guðjón er stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ af íþróttabraut og einnig húsasmíðabraut frá Iðnskólanum í Reykjavík. Guðjón vann hjá Sportmönnum ehf. sem rekur Adidas umboðið á Íslandi og byrjaði að gera upp íbúðir. Í framhaldi stofnaði hann Gpl slf. sem í dag er fasteignafélag sem leigir út íbúðir. Guðjón er einnig einn af eigendum North Investment ehf. sem starfrækir 14  skrifstofurými til útleigu. Hann leikur knattspyrnu með Val og aður Álftanesi, Stjörnunni, Breiðablik og Haukum  Á tímabili lék hann með Helsingborg þar sem hann varð sænskur deildar- og bikarmeistari. Hann er núverandi Íslandsmeistari og spilar með Val. Hann situr í stjórn meistaraflokks Álftaness í knattspyrnu.
Guðjón starfaðí hjá Sinnum heimaþjónustu og öðlaðist innsýn í líf þeirra sem þurfa að reiða sig á aðstoð frá bæjarfélaginu. Hann er faðir tveggja drengja og í sambúð með Kristínu Ösp Sigurðardóttur.
„Ég tek þátt í þessu framboði því ég vil hjálpa Garðabæ að verða að spennandi bæ sem höfðar til sem flestra og sá bær sem eftirsóknarverðast er að búa í um ókomna tíð. Það er margt sem má bæta og vil ég leggja áherslu á skipulagsmál og félagsleg úrræði, sem mér finnst einna brýnast að takast á við á næstunni auk margra annara mála. Kjósum Garðabæjarlistann.“

 
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, málfræðingur

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, málfræðingur

7. Þorbjörg Þorvaldsdóttir


Þorbjörg lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands árið 2015 og MA-prófi í málvísindum frá Leiden University í Hollandi. Hún er nýflutt heim og stundar nú doktorsnám í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Meðfram námi hefur hún starfað við aðhlynningu aldraðra, sem barþjónn, móttökustarfsmaður á hóteli og flugfreyja. Þorbjörg hefur setið í stjórnum nemendafélaga (Skólafélags Menntaskólans í Reykjavík og Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum) og í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna. Hún er nýkjörinn ritari Samtakanna ‘78. Þorbjörg er kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur lífeindafræðingi og eiga þær eina dóttur, Valbjörgu Maríu tveggja ára. Þær búa í húsnæði foreldra Þorbjargar í Þrastarlundi og safna sér fyrir eigin íbúð.
„Ég tek þátt í framboði Garðabæjarlistans því ég vil að sterkt bæjarfélag eins og Garðabær sýni samkennd í verki og standi jafnfætis nágrannasveitarfélögum þegar kemur að félagslegum úrræðum fyrir bæjarbúa. Enginn á að þurfa að flytja úr heimabæ sínum ef eitthvað kemur upp á.“

 
Baldur Ó. Svavarsson, arkitekt

Baldur Ó. Svavarsson, arkitekt

8. Baldur Ó. Svavarsson


Baldur er fæddur í Eyjum en hefur búið í Garðahreppi og síðar Garðbæ alla sína hunds- og kattartíð, Hann dvaldi um 10 ára skeið við nám og störf í Ósló. Nam arkitektúr við Arkitektaháskólann í Ósló og starfaði í framhaldi á arkitektastofum í Ósló, áður en haldið var heim á leið. Eftir heimkomu hefur hann rekið eigin arkitektastofu í Þingholtunum í Reykjavík og má. ábyrgur fyrir nokkrum byggingum í bænum s.s. Hofsstaðaskóla, Mýrinni og Tónlistarskólanum.
Baldur er Stjörnumaður í húð og hár. Lék með meistaraflokki í handknattleik um árabil og síðar setið í stjórnum og ráðum á vegum Stjörnunnar og m.a. formaður handknattleiksdeildar félagisns fyrir nokkrum árum. Hann á tvo uppkomna pilta sem báðir slitu hér barnsskónum við nám og leik m.a. innan vébanda Stjörnunnar. Þeir þurftu að finna sér búsetuúrræði utanbæjar sem segir sína sögu um möguleika unga fólksins til búsetu í bænum.
Baldur starfaði bæði sem varabæjarfulltrúi og sem varamaður í skipulagsnefnd bæjarins, en tímabilið þar á undan sem aðalmaður í þeirri sömu nefnd. Skipulagsmál bæjarins hafa því verið honum hugleikin og óánægja með áherslur bæjaryfirvalda á því sviði m.a. ástæða þess að hann hóf þáttöku í bæjarpólitíkinni á sínum tíma. “ Margt er ágætleg gert í skipulagsmálum hér, en betur má ef duga skal og áherslur bæjaryfirvalda varðandi þéttingu (les þynningu) byggðar ekki mér að skapi. Auk þess er bara alveg gríðarlega skapandi og skemmtilegt að starfa að uppbyggingu grasrótarafls sem þessa gegn ægivaldi ráðandi afla”.

 
Guðfinna Eyrún Ingjaldsdóttir, mannauðsstjóri

Guðfinna Eyrún Ingjaldsdóttir, mannauðsstjóri

9. Guðfinna Eyrún Ingjaldsdóttir


Guðfinna er með Bsc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Bifröst og Msc. gráðu í stjórnun stefnumótun og leiðtogafærni frá Árósum. Guðfinna starfar við mannauðsmál hjá Marel og sá málaflokkur hefur átt hug hennar allan í nær 12 ár. Guðfinna er gift Ólafi Gunnarssyni sem starfar sem viðskiptastjóri hjá Arion Banka og saman eiga þau 4 börn sem eru: Hrafnhildur 18 ára, Brynjar að verða 13 ára, Brynhildur 10 ára og Gunnar að verða 7 ára. „Ég vil gera góðan bæ enn betri og fá inn nýjar og ferskar nálgangir í málefnum eins forvörnum, skólamálum, útivist og afþreyingu og fjölskyldumálum svo fátt eitt sé nefnt.“

 
Hannes Ingi Geirsson

Hannes Ingi Geirsson

10. Hannes Ingi Geirsson


Hannes er með B.S. gráðu í íþróttafræði frá Háskóla Íslands og MHRM gráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hannes hefur kennt íþróttir og sund við Flataskóla frá árinu 2004 auk þess að þjálfa börn og unglinga í blaki hjá Stjörnunni. Hannes hefur unnið fjölmarga meistaratitla með blakliði Stjörnunnar auk þess að spila fjölda landsleikja fyrir Íslands hönd. Heilsa og tómstundir ungmenna hefur verið sá málaflokkur sem hann brennur helst fyrir. Hannes er kvæntur Karen Kjartansdóttur, ráðgjafa hjá almannatengslafyrirtækinu Aton, og eiga þau þrjú börn á aldrinum 7 til 15 ára.
„Ég hef mikinn metnað fyrir hönd Garðabæjar og býð fram krafta mína til að gera góðan bæ enn betri og skemmtilegri. Mér eru hugleikin málefni fjölskyldufólks en afar brýnt er að gera bæinn meira aðlaðandi fyrir yngri fjölskyldur sem eru að stíga sín fyrstu skref. Til þess þarf að bæta allt aðgengi að þjónustu fyrir fjölskyldur með ung börn. Til þess þarf að taka gjöld fyrir leikskóla, frístund og tómstundamál til endurskoðunar. Einnig þarf að tryggja betri samfellu á milli skóla- og tómstundastarfs.“

 
Anna Guðrún Hugadóttir

Anna Guðrún Hugadóttir

11. Anna Guðrún Hugadóttir


Anna Guðrún Hugadóttir er 70 ára fyrrverandi náms-og starfsráðgjafi við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Hún á 4 börn sem öll búa erlendis og 8 barnabörn. Anna Guðrún er fædd og uppalin á Akureyri en flutti í Garðabæ ásamt Guðmundi Hallgrímssyni eiginmanni sínum árið 1971 og hefur búið þar síðan. Guðmundur lést árið 2013. Anna Guðrún lauk stúdentsprófi frá FG árið 1991 og stundaði síðan nám í uppeldis-og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Hún lauk diplómanámi í náms-og starfsráðgjöf frá HÍ 1997 og hóf þá um haustið störf við sinn gamla skóla, FG, þar sem hún starfaði þar til hún lét af störfum vegna aldurs um síðustu áramót. Áður en Anna Guðrún hóf nám starfaði hún við hlið eiginmanns síns við fyrirtæki þeirra, LYF sf., sem starfrækt var hér í Garðabæ um árabil.
Anna Guðrún sat í mannréttinda- og forvarnanefnd á síðasta kjörtímabili og einnig var hún varamaður í nefnd um málefni eldri borgara. Hún starfaði einnig um árabil í æskulýðsstarfi fyrir KFUK. Þarna koma í hnotskurn fram þau málefni sem Anna Guðrún hefur áhuga fyrir og vill leggja lið. Málefni ungra sem aldinna sem varða andlega og líkamlega heilsu og velferð. Garðabær er að mörgu leyti góður bær en sífellt má gera betur og þar vill Anna Guðrún gjarnan verða að liði.
Í frístundum hefur Anna Guðrún áhuga á lestri, handavinnu, gönguferðum og útivist auk þess sem hún notar hvert tækifæri til að heimsækja og rækta samskipti við börnin og barnabörnin.

 
Guðlaugur Kristmundsson

Guðlaugur Kristmundsson

12. Guðlaugur Kristmundsson


Guðlaugur er nýbúi í Garðabæ, flutti í bæinn fyrir rúmum tveimur árum með Andrési manninum sínum og þriggja ára fóstursyni. Guðlaugur er fæddur í Kópavogi og alinn upp þar og í Uppsveitum Árnessýslu. Guðlaugur vann lengst hjá Icelandair hótelum sem sölu- og markaðsstjóri en einnig sem hótelstjóri um tíma. Þar á undan vann hann sem flugþjónn hjá Icelandair samhliða því að vinna hjá Hagstofu Íslands. Í dag vinnur hann sem verkefnastjóri og Dale Carnegie þjálfari. Guðlaugur hefur síðan í Verslunarskólanum verið virkur í hinum ýmsu félagsstörfum og hefur lengi brunnið fyrir því að taka þátt í að móta samfélagið. “Ég trúi að Garðabæjarlistinn sé vettvangur fyrir mig, í Garðabæ líður mér vel og bærinn er fullur af góðu fólki sem ég vil taka þátt í að byggja upp til framtíðar og mælanlegum markmiðum”.

 
Guðrún Elín Herbertsdóttir, viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi

Guðrún Elín Herbertsdóttir, viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi

13. Guðrún Elín Herbertsdóttir


Guðrún Elín er viðskiptafræðingur og hefur starfað í Seðlabankanum síðastliðin 14 ár. Hún er fædd og uppalin á Álftanesi og gekk í Garðaskóla og FG. Guðrún er bæjarfulltrúi í Garðabæ. Guðrún á tveggja ára gamla dóttur. „Það þarf að eiga sér stað stefnubreyting í Garðabæ. Sérstaklega þegar það kemur að félagslegum málum. Garðabær þarf að sýna samfélagslega ábyrgð. Ég styð þetta framboð því ég vil sjá breytingu til batnaðar. Við getum gert svo miklu betur. Garðabær getur verið fyrir alla.“

 
Tómas Viðar Sverrisson, læknanemi

Tómas Viðar Sverrisson, læknanemi

14. Tómas Viðar Sverrisson


Tómas er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík og er að læra læknisfræði við Háskóla Íslands. Tómas hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum í HÍ og var t.a.m. markaðsstjóri Röskvu s.l. ár og situr sem varaformaður Stúdentasjóðs, auk þess að hafa verið varamaður í Stúdentaráði og setið í starfshópum SHÍ, bæði um málefni LÍN og endurskoðun laga Stúdentaráðs. Áhugamál Tómasar í sveitarstjórn snúa helst að skipulagsmálum og málefnum ungs fólks. „Ég styð Garðabæjarlistann vegna þess að ég tel mikilvægt að bærinn beiti sér af meiri krafti í þágu ungs fólks og vinni faglega að málum, með aukna félagshyggju að leiðarljósi.”

 
Sólveig Guðrún Geirsdóttir, háskólanemi

Sólveig Guðrún Geirsdóttir, háskólanemi

15. Sólveig Guðrún Geirsdóttir


Sólveig er við það að ljúka mannfræðinámi frá Háskóla Íslands og starfar í Garðalundi, félagsmiðstöð Garðaskóla. Hún hefur setið í mannréttinda- og forvarnarnefnd Garðabæjar síðastliðin fjögur ár. Fyrst sem varamaður en síðustu tvö árin sem aðalmaður. Jafnréttis- og umhverfismál eru Sólveigu hugleikin og telur hún að ekkert standi í vegi fyrir því að Garðabæ verði leiðandi á þeim sviðum, en til þess þarf að láta verkin tala.
Sólveig vill efla aðkomu ungmenna í bænum að málum sem þau varðar, t.d. með því að bæta virkni og virði ungmennaráðs bæjarins.
„Garðabær hefur allt til brunns að bera til að vera fyrirmyndar samfélag en þá þurfum við líka að meta íbúa og umhverfi að verðleikum.“

 
Dagur Snær Stefánsson

Dagur Snær Stefánsson

16. Dagur Snær Stefánsson


Dagur Snær Stefánsson er 21 árs fæddur og uppalinn í Garðabæ. Hann starfar sem leiðbeinandi hjá Flataskóla í Garðabæ. Hann stundar handbolta af kappi með Störnunni og hefur gert það frá 8 ára aldri. Dagur hefur verið að þjálfa yngri flokka Stjörnunnar undanfarin ár með góðum árangri. Helstu baráttumál hans í komandi sveitastjórnarkosningum snúa helst að málefnum ungs fólks í bænum. Dagur styður Garðabæjarlistann því honum finnst brýn nauðsyn að bærinn beiti sér af hörku í málum ungs fólks og tómstundamálum hér í bænum.

 
Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir

17. Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir


Sveinbjörg  nam píanóleik, tónmennt og söng við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Guildhall School of Music and Drama í London. Eftir útskrift starfaði hún í Englandi um árabil. Eftir heimkomu starfaði hún sem kennari og píanóleikari og var skólastjóri Tónlistarskóla Álftaness í 26 ár eða frá upphafi. Sveinbjörg er einnig menntaður leiðsögumaður. Hún hefur setið í umhverfisnefnd síðastliðin fjögur ár, fyrst sem varamaður en síðustu tvö árin sem aðalmaður. Hún hefur búið á Álftanesi frá árinu 1982 og tekið mikinn þátt í hrepps- og bæjarmálum alla tíð. Eiginmaður hennar er John Speight tónskáld og eiga þau tvo uppkomna syni og sex barnabörn. Sveinbjörg hefur mikinn áhuga á að gera góðan bæ enn betri og þá sérstaklega í umhverfismálum.

 
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

18. Gunnar Hólmsteinn Ársælsson


Gunnar er fæddur þann 2.mars árið 1966 á Akranesi og er því í fiskamerkinu. Að loknu stúdentsprófi tók við nám í stjórnmálafræði og árið 1996 flutti hann til Uppsala í Svíþjóð og hóf þar framhaldsnám, sem lauk með meistaraprófi frá Austur-Evrópudeild Uppsalaháskóla. Þar á eftir tóku við kennslustörf við Flogstaskólann í bænum. Gunnar var lengi formaður Íslendingafélagsins í Uppsölum. Árið 2005 lauk Gunnar diplómagráðu í Evrópufræðum frá háskólanum í Karlstad og sama ár námi í kennsluréttindum til framhaldsskóla frá KHÍ. Í Svíþjóð starfaði Gunnar einnig sem fréttaritari RÚV og fyrir aðra miðla sem lausapenni. Gunnar hefur einnig langa reynslu af blaðamennsku á Íslandi, hefur stundað þáttagerð fyrir RÚV og skrifað fjölda greina í dagblöð og tímarit, bæði um innlend og erlend málefni. Frá árinu 2008 hefur Gunnar starfað sem kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Kennslugreinar hans eru; stjórmála og félagsfræði, afbrota og fjölmiðlafræði, sem og saga. Gunnar á tvö uppkomin börn; Gunnar Björn og Margréti Ósk. Jöfnuður, menntun, sanngirni, gagnsæi og lýðræði eru nokkur atriði sem eru Gunnari hugleikin.

 
Fanney Hanna Valgarðsdóttir

Fanney Hanna Valgarðsdóttir

19. Fanney Hanna Valgarðsdóttir


Fanney er Þroskaþjálfi að mennt og hefur starfað við það í Ísaksskóla síðastliðin fjögur ár. Þar á undan starfaði hún á leikskólanum Bæjarbóli hér í Garðabæ bæði sem þroskaþjálfi og sérkennslustjóri. Hún er sveitastelpa að norðan, fædd og uppalin í Austur-Húnavatnssýslu en hefur búið í Garðabæ síðan 2004. Menntamál og málefni fatlaðra eru henni hugleikin ásamt því að gera Garðabæ enn betri fyrir fjölskyldufólk.

 
Snævar Sigurðsson

Snævar Sigurðsson

20. Snævar Sigurðsson


Snævar er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu. Hann nam lífefnafræði við Háskóla Íslands og tók svo doktorspróf í erfðafræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum flutti hann árið 2011 í Garðabæinn og hefur síðan starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu og Háskóla Íslands. Snævar er kvæntur Sigrúnu Margréti sem er Garðbæingur í húð og hár. Saman eiga þau fjögur börn á aldrinum 0 til 11 ára. Eftir að hafa kynnst því að vera með lítil börn í Svíþjóð, Bandaríkjunum og í Garðabæ hefur hann mikinn áhuga á því að vel sé staðið að málefnum leikskóla og grunnskóla í bænum. Snævar hefur setið í leikskólanefnd Garðabæjar á þessu kjörtímabili.

 
Erna Aradóttir

Erna Aradóttir

21. Erna Aradóttir


Erna er leikskólakennari uppalin í Reykjavik. Útskrifaðist frá Fóstruskóla Sumargjafar árið 1960, flutti ásamt manni sinum Sævari Kristbjörnssyni í Garðabæ 1965 og hefur unnið á leikskólanum Bæjarbóli siðan 1976 sem leikskólakennari og síðan leikskólastjóri en lét af störfum 2008 og hefur fylgst vel með þróun leikskólamála í bæjarfélaginu. Erna hafði mikinn áhuga á málefnum og framþróun Garðabæjar og var á lista til bæjarstjórnarkosninga í nokkur ár og sat í ýmsum nefndum og ráðum á því tímabili.
Hún hefur verið virk í ýmsum félagsstörfum í bæjarfélaginu, Kvenfélagi Garðabæjar og Lionsklúbbnum Eik, sem hafa það á stefnuskrá sinni að hlúa að mannlífinu í bænum, einnig er hún formaður Garðakórsins sem er kór eldri borgara í Garðabæ.
“Á Garðabæjarlistanum er hópur fólks með breiðan og kröftugan grunn sem hefur ákveðið að vinna saman að betri framtíð.
Garðabær er stækkandi bæjarfélag og þá er í mörg horn að líta. Það þarf að legga áherslu á, að unga fjölskyldufólkið okkar, fatlaðir og eldri borgarar hafi gott aðgengi að hentugri búsetu. “

 
Steinþór Einarsson

Steinþór Einarsson

22. Steinþór Einarsson


Steinþór er stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík, íþróttakennari frá KHÍ og með diploma í markaðs- og útflutningsfræðum frá HÍ. Eftir stúdentspróf starfaði Steinþór í tvö ár sem sjómaður. Eftir að hafa kennt og þjálfað börn og ungmenni í nokkur ár þá hefur hann unnið hjá ÍTR í 30 ár og gegnir þar stöðu skrifstofustjóra rekstrar og þjónustu og er yfirmaður íþróttamála hjá Reykjavíkurborg. Steinþór hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar í 12 ár og í bæjarráði í 11 ár.
Steinþór var formaður SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi árin 1995 til 1999 og gjaldkeri ECYC, evrópusamtaka félagsmiðstöðva árin 2000 til 2004. Í stjórn almenningssviðs ÍSÍ 1999 til 2002. Steinþór er giftur Áslaugu Dís Ásgeirsdóttur og eiga þau tvö börn á aldrinum 24 og 28 ára.
“Garðabæjarlistinn samanstendur af félagshyggjufólki sem ætlar að beita kröftum sínum saman til að gera samfélagið betra og sterkara.”